Skattur
strákur
16
Á ég að borga skatt og af hverju borgar maður skatt?
Komdu sæll
Já, þar sem þú ert orðinn 16 ára átt þú að borga skatt.
Þegar börn verða 16 ára byrja þau að borga skatta eins og fullorðnir. Ástæðan fyrir því að börn eldri en 16 ára byrja að borga skatt er að að við 16 ára aldur lýkur almennri skólaskyldu og sumir unglingar byrja að vinna.
Skatthlutfall (37,3%, 39,74% og 46,24%) fer eftir því hversu háar tekjur maður hefur.
Persónuafsláttur er skattaafsláttur sem veittur er öllum einstaklingum eldri en 16 ára og er hann núna (árið 2014) 50.498 kr. á mánuði. Persónuafsláttur getur safnast upp yfir árið ef maður vinnur ekki nema t.d. bara á sumrin. Það þýðir að 50.498 *12 (mánuðir) = 605.977 kr dragast frá því sem maður borgar í skatt yfir árið. Börn sem vinna bara á sumrin þurfa því yfirleitt ekki að greiða skatt.
Þú getur lesið meira um skattinn hér á vef Ríkisskattstjóra.
Börn undir 16 ára greiða 6% skatt af tekjum umfram 180.000 á ári. Fæst börn eru með það háar tekjur að þau þurfi að greiða mikið í skatta. Börn undir 16 ára aldri eiga hins vegar ekki rétt á persónuafslætti.
Skattar eru gjöld sem við borgum til samfélagsins fyrir það sem við notum sameiginlega. Ríkið og sveitarfélögin nota peningana sem við borgum í skatt í ýmsa þjónustu sem við njótum öll, t.d. menntakerfið, heilbrigðiskerfið og vegakerfið. Skattar greiða skólagöngu þína og sömuleiðis lækna- og sjúkraþjónustu ef þú veikist eða slasast. Ýmis félagsleg þjónusta eins og atvinnuleysisbætur, örorkubætur, barnabætur, barnavernd o.fl. er líka fjármögnuð með skattpeningum frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna