Sagði frá nauðgun
Sagði sálfræðingnum sínum frá nauðgun og hélt að það væri í trúnaði. Er ekki tilbúin til að segja frá og spyr hvað hægt sé að gera.
Spurning:
Ég opnaði mig við sálfræðinginn minn um nauðguna mína og hélt það væri í trúnaði. Núna verð ég að segja mömmu minni annars gerir hann það. Ég er ekki tilbúin að segja frá. Hvað get ég gert?
Svar frá umboðsmanni:
Hæ og takk fyrir tölvupóstinn. Það er mjög gott að þú sért að fá aðstoð sálfræðings við að vinna úr ofbeldinu. Börn og ungmenni eiga eins og aðrir rétt á trúnaðarsamskiptum við heilbrigðisstarfsfólk eins og sálfræðinga. Það er samt þannig að heilbrigðisstarfsfólk verður samkvæmt lögum að tilkynna um ofbeldi gegn barni til barnaverndarnefndar og þegar verið er að tilkynna mál barna til barnaverndarnefndar eru foreldrar látnir vita af því, nema ef tilkynningin fjallar til dæmis um ofbeldi foreldra gegn barni, þá er það stundum ekki gert. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að sálfræðingurinn vill að þú segir mömmu þinni frá þessu, hún/hann verður einfaldlega að láta vita af ofbeldinu. Það er líka þannig að þegar að barnaverndarnefnd fær tilkynningu um ofbeldi gegn barni, þá skoðar nefndin hvort bjóða þurfi barni/ungmenni sem hefur orðið fyrir ofbeldi, stuðning og ráðgjöf og foreldrum þeirra líka. Það er því mjög gott að barnavernd fái upplýsingar um ofbeldið sem þú varðst fyrir.
Það er skiljanlegt að þú hafir ekki viljað segja frá þessu og finnist sálfræðingurinn vera að bregðast þér, en þetta er það sem sálfræðingur á að gera sem fær upplýsingar um ofbeldi gegn barni. Ef þú treystir þessum sálfræðingi þá gætir þú kannski beðið hana/hann um að aðstoða þig við að segja mömmu þinni frá þessu, eða fengið einhvern annan sem þú treystir til þess að vera með þér, það er oft gagnlegt að hafa stuðning, þegar maður þarf að taka erfiða umræðu um hluti sem manni finnst erfitt að tala um.
Það eru líka til samtök fyrir þolendur eins og til dæmis Drekaslóð og Stígamót og svo er Bjarkarhlíð miðstöð fyrir þolendur en þú gætir leitað til þessara aðila og fengið ráðgjöf og aðstoð um hvernig þú getur best undirbúið þig fyrir að segja mömmu þinni frá þessu.
Þó svo að það sé mjög erfitt að segja frá ofbeldi sem maður hefur orðið fyrir, líður mörgum svo miklu betur eftir á, vonandi átt þú eftir að upplifa það.
Gangi þér sem allra best