Rifrildi - Heimilisofbeldi
stelpa
15
Hææ ég er að senda hérna fyrir vinkonu mína.. en við erum að spá er það heimilisofbeldi að hafa þurft að þola eit og hálft ár að rífast við foreldra sína svona 4-5 sinnum í viku,, endaði svo eiginlega alltaf með ógnum eða hótunum..
:S hún vildi fremja sjálfsmorð en það var hringt í barnaverndarnefnd þannig að hún er á lífi ennþá.. en málið er að það var bara hringt einu sinni og svo allt búið.. mér þykir mjög vænt um hana og ég veit ekki hvað hún á að gera.. hún hefur verið að tala við kennarann okkar.. og hann sendi hana til sálfræðings í skólanum til að gá hvort hún væri þunglynd.. hún er ekki alvarlega þunglyndi en með hræðslu, kvíða og depurð.. og háu stigi.. en hún vill ekki láta hringja heim til sín.. því hún var lamin eitthvað smávegis þegar það var hringt síðast heim... er þetta mjög alvarlegt heimilisofbeldi??
hvað á ég að gera fyrir hana?? Vantar hjálp til að hjálpa henni.. get ekki horft á hana á msn..
Komdu sæl
Ástandið á vinkonu þinni og heima hjá henni virðist vera alvarlegt. Það er samt gott að hún á þig að sem vinkonu. Í erindi þínu segir þú að henni sé ógnað, hótað, að hún hafi viljað fremja sjálfsmorð og að hún hafi verið lamin þegar barnavernd hafði afskipti af fjölskyldu hennar áður.
Það þyrfti að tilkynna barnaverndinni um stöðu mála núna og biðja um aðstoð, bæði fyrir vinkonu þína og foreldra hennar.
Í IV. kafla barnaverndarlaga er fjallað um tilkynningarskyldu almennings og þeirra sem hafa afskipti af börnum. Þessi skylda hvílir á okkur öllum. Sérstakar skyldur hafa þeir sem stöðu sinnar vegna eru líklegir til að þekkja til aðstæðna barna að gera barnaverndarnefnd viðvart. Hér getur verið um að ræða kennara, presta, lækna, hjúkrunarfræðinga, þjálfara, félagsráðgjafa og fleiri. EF vinkona þín hefur rætt ástandið á heimilinu við kennarann, sálfræðinginn eða aðra starfmenn skólans eða sérfræðiþjónustu skólans ættu þeir að tilkynna um málið til barnaverndarinnar, allavega eins og málið lítur út skv. erindi þínu. Starfsfólk barnaverndarinnar metur tilkynninguna og ákveður svo hvernig það bregst við henni.
Það er hins vegar alltaf snúið mál þegar barn þarf nauðsynlega á hjálp að halda en treysir ekki foreldrum sínum að styðja sig og gera það sem þarf til að tryggja velferð þess.
Meginreglan er sú að nemendur eiga að geta leitað til hvaða starfsmanna grunnskóla sem er í fullum trúnaði og vissu um aðstoð. Hins vegar er yfirleitt gert ráð fyrir samþykki foreldra áður en máli er vísað til meðferðar hjá sérfræðiþjónustu skóla eins og t.d. sálfræðingi.
Vonandi er hægt að sannfæra vinkonu þína um að hún og foreldrar hennar þurfi aðstoð fagfólks. Kannski getur sálfræðingurinn hjálpað henni meira og stutt. Ef hún er niðurdregin og líður mjög illa skalt þú endilega benda henni á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.
Ef þið viljið getið þið komið hingað og við höfum samband við barnavernd. Ef þið viljið það er best að finna heppilegan tíma með því að hringja í síma 800 5999.
Gangi ykkur vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna