Ólétt og vil flytja með barnið að heiman
stelpa
16
Ég er ólétt og er komin sirka 4 mánaði á leið og ég hef ekki farið til læknis í skoðun því ég er svo hrædd að læknirinn muni hringja í foreldra mína. Því ég vil ekki að þau viti, því ég ætla að eiga barnið og flytja út. Ef ég er núna orðinn 16 þurfa þau nokkuð að vita?
Komdu sæl
Þú spyrð í erindi þínu hvort foreldrar þínir þurfi að vita að þú sért ófrísk af því að þú sért orðin 16 ára og ætlir að eiga barnið og flytja að heiman.
Samkvæmt íslenskum lögum verða einstaklingar lögráða (þ.e. sjálfráða og fjárráða) 18 ára. Það að vera sjálfráða þýðir að þú mátt ráða persónulegum högum þínum, t.d. hvar þú býrð, vinnur eða stundar nám. Það að vera fjárráða þýðir að þú mátt ráðstafa fjármunum þínum sjálf, þú getur stofnað til skulda og mátt ráða notkun og meðferð eigna þinna.
Fram að 18 ára aldri fara foreldar barns eða þeir sem koma barni í foreldra stað með lögráð. Þessi lögráð nefnast forsjá og fer um hana eftir ákvæðum barnalaga og barnaverndarlaga. Með forsjá barns er átt við rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins auk þess að gegna öðrum foreldraskyldum. Í því felst m.a. að foreldrar ráða hvar barnið býr, þau annast daglegar þarfir barnsins, sjá því fyrir fæði og fatnaði, ráða mataræði, útivistartíma o.s.frv.
Þetta þýðir með öðrum orðum að þar til þú verður 18 ára gömul getur þú ekki flutt að heiman nema foreldrar þínir samþykki það.
Gagnvart heilbrigðisþjónustunni öðlast maður hins vegar rétt sem sjálfstæður einstaklingur við 16 ára aldur. Í IV. kafla laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga segir að foreldrar sem fara með forsjá barns skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára og í lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir segir að sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði, skulu foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því.
Því fylgir mikil ábyrgð og vinna að eignast barn. Þú berð ekki lengur eingöngu ábyrgð á þínum eigin lífi og gjörðum heldur berð þú ábyrgð á lífi og heilsu lítils einstaklings um ókomna tíð. Þarfir barnsins þurfa alltaf að hafa forgang. Þá fylgja barni heilmikil fjárútlát. Það er því gott að gera hlutina í sátt og samlyndi við foreldra sína og hafa góðan bakhjarl sem hægt er að leita til til þess að fá ráðleggingar, stuðning og hjálp.
Á vefnum www.ljósmóðir.is er að finna ýmsar upplýsingar er varða meðgöngu og barneignir, m.a. spurt og svarað og sérstaka umfjöllun um ungar mæður.
Það er mjög mikilvægt fyrir þig að fara í mæðraskoðun sem fyrst. Heilsugæslustöðvar sinna mæðravernd og þú getur farið á þína heilsugæslustöð í skoðun. Þú átt skv. ofangreindu að geta treyst því að ekki verði haft samband við foreldra þína nema þú óskir eftir því. Hins vegar er æskilegt að þú ræðir sjálf við foreldra þína sem fyrst um þessi mál og hvernig þú sérð framtíðina fyrir þér. Foreldrar eiga að tryggja velferð barna sinna og því munu foreldar þínir líklega styðja þig bæði á meðgöngu og þegar barnið fæðist, þó svo að þau eigi kannski erfitt með að sætta sig við það í dag að þú sért ófrísk. Það er ómetanlegt að hafa góðan stuðning þegar lífið tekur svona stakkaskiptum.
Svo eru eflaust ýmis önnur stuðningsúrræði í boði fyrir þig sem unga móður en það er misjafnt eftir því hvar þú býrð. Þú gæti t.d. athugað hvort kirkjan nálægt þér bjóði ungum foreldrum upp á samveru og fræðslu.
Það væri örugglega gott ef þú myndir lesa þér til um réttindi, ábyrgð og skyldur foreldra og barna. Hér eru upplýsingar um forsjá, umgengni, meðlag o.fl. og hér eru upplýsingar um öryggi og slysavarnir.
Þér er velkomið að hringja hingað á skrifstofuna s: 552 8999 og fá nánari upplýsingar eða skýringar.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna