Meðlag - erfiðar aðstæður heima
stelpa
17
Hæ! Mamma mín og pabbi skildu fyrir nokkrum árum síðan. Ég var að velta fyrir mér réttindum mínum varðandi meðlagið. Mamma hefur alltaf tekið það og ég hef aldrei séð krónu af þessu meðlagi. Ég þarf að vinna mikið með skóla til þess að geta keypt það sem ég þarf, fatnað, skólabækur og gjöld og jafnvel matinn minn sjálf, lyf o.fl. Þetta bitnar náttúrulega á tímanum sem ég mundi annars nota til að sinna náminu. Einkunnirnar mínar hafa stór lækkað út af þessu á síðustu árum, og ég sé ekki fram á að komast í það sem mig langar í í háskólanum. Þegar ég spyr hana afhverju ég fæ ekki meðlagið til mín eins og önnur vinkona mín og segi henni að peningurinn sé ætlaður mér, þá segir hún að hún noti hann í að borga af húsinu okkar, þannig að óbeint noti hún hann í mig. Mér finnst það bara ekki réttlátt og hefði haldið að það væri framfærsluskylda á mér þangað til ég verð 18 þannig að hún ætti hvort sem er að sjá mér fyrir húsnæði þar sem hún er forráðamaður minn? Og mig langar líka að vita um rétt minn til meðlags eftir 18 þar sem ég er í námi, ég hef heyrt að ef maður er að vinna með skóla þá fái maður þau ekki? Og ef ég flyt út skiptist þá meðlagið á milli mömmu og pabba? Ég hef nefnilega verið að hugsa um það, þar sem það er allt í rugli heima, mamma mín hefur óbeit á mér og þar sem ég er með ofnæmi fyrir köttum þá elskar hún þá og er með 6 ketti á heimilinu og ég get einfaldlega ekki andað með nefinu útaf því og hún neitar að láta kettina fara... Ef þú gætir hjálpað mér að fá réttindi mín á hreint varðandi allt þetta þá væri það æðislegt og mundi hjálpa mér ótrúlega mikið, því ástandið er þannig heima að mér líður bara illa þarna, allt í drasli náttúrulega útaf þessum köttum og ég þoli ekki drasl, mamma mín kemur alltaf illa fram við mig og ég bara verð að losna undan þessu. Það er 1 og hálfur mánuður í að ég verð 18.
Komdu sæl
Í erindi þínu spyrð þú hvort móður þinni beri ekki að sjá fyrir þér.
Svarið er JÁ. Samkvæmt barnalögum ber báðum foreldrum barns (þó að annað þeirra fari með forsjá þess) skylda til þess að framfæra það. Með skyldu til framfærslu er átt við að foreldrum sé skylt að fæða og klæða barn og sjá því fyrir húsnæði, eða að leggja til fjárframlög í þessum tilgangi. Framfærslunni á að haga með hliðsjón af högum foreldranna og þörfum barnsins.
Faðir þinn ber semsagt líka ábyrgð á því að þú hafir “í þig og á”. Meðlagið sem hann greiðir (með milligöngu innheimstustofnunnar sveitarfélaga og Tryggingarstofnunnar) tilheyrir þér en móðir þín tekur við meðlagsgreiðslunum og notar til að framfæra þig. Móðir þín á semsagt að ráðstafa greiðslunum til framfærslunnar samkvæmt því sem best hentar á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir því að samráð foreldra við börn sín um ráðstöfun meðslagsgreiðslna fari stigvaxandi eftir því sem börnin eldast og þroskast. Þó að meðlagið sé notað til að greiða af húsnæðinu ber foreldrum þínum samt ennþá skylda til að sjá þér fyrir nauðsynjum eins og fötum, mat, lækniskostnaði, nauðsynlegum lyfjum og skólavörum. Aðstæður fólks eru auðvitað mismunandi og sumir standa hreinlega það illa fjárhagslega og þetta gengur ekki upp. Þá er mikilvægt að allir vinni saman.
Þú spyrð einnig um rétt þinn til meðlags eftir að þú verður 18 ára.
Þótt almennri framfærsluskyldu foreldris gagnvart barni ljúki þegar barn verður 18 ára er heimilt að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis samkvæmt kröfu þess allt til þess er það nær 20 ára aldri. Þá þarft þú sjálf að leita til sýslumannsembættisins í sveitrfélaginu þínu og sækja um menntunarframlag (annað hvort frá báðum foreldrum eða öðru). Sýslumaðurinn þar sem þú býrð getur veitt þér frekari upplýsingar um þetta.
Ef foreldrar þínir (annað eða bæði) samþykkja kröfu þína um menntunarframlag gefur sýslumaður út sérstaka staðfestingu þar að lútandi og þá getur þú leitað til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið framlagið greitt þaðan, gegn framvísun á frumriti staðfestingarinnar.
Ef foreldri hafnar kröfu um menntunarframlag úrskurðar sýslumaður um skyldu til þess að greiða framlagið. Samkvæmt barnalögum er heimilt en ekki skylt að úrskurða menntunarframlag og því tekur sýslumaður ákvörðun í málinu á grundvelli fjárhags- og félagslegrar stöðu beggja aðila. Slíkt framlag er aðeins úrskurðað ef foreldri er talið hafa fjárhagslegt bolmagn til að greiða menntunarframlagið og ef atvik máls mæla með því að öðru leyti.
Það er greinilega ýmislegt athugavert við heimilisaðstæður þínar og eftir því sem þú segir, er e.t.v. skiljanlegt að þú viljir athuga möguleika þína á að flytja út af heimilinu fljótlega. Hvort sem þú gerir það eða ekki gæti verið ráðlegt að fá aðstoð til að reyna að bæta samskipti ykkar mæðgna. Ein leið er að fá einhvern þriðja aðila sem þið treystið báðar (t.d. einhvern úr fjölskyldunni) til að setjast niður með ykkur og ræða málin. Einnig gætuð þið prófað að notfæra ykkur fjölskylduráðgjöf sveitarfélagsins ykkar. Svo má benda á þjónustu presta eða Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, en mörgum finnst gott að leita til prestsins síns með ýmis persónuleg vandamál. Hvað varðar námið og áhrif heimilisaðstæðna þinna á námsárangur þinn gæti líka verið gott fyrir þig að ræða við námsráðgjafann í skólanum þínum.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna