Má mamma taka pening af laununum mínum?
stelpa
14
Hæ... mamma mín vill taka pening af laununum mínum og geyma... Ég vill það alls ekki!...má hún bara taka af þeim ?... þetta eru peningar sem ég er buin að vinna mér inn?!
Komdu sæl.
Börn verða lögráða, þ.e. sjálfráða og fjárráða 18 ára gömul, en fram að þeim aldri lúta þau forsjá foreldra eða annarra forráðamanna. Í lögræðislögum segir að börn undir 18 ára aldri ráði sjálfsaflafé sínu, en með því er fyrst og fremst átt við það fé sem þau hafa unnið sér inn með persónulegri vinnu sinni, og gjafafé, en það er fé, sem ai hafa hefur fengið að gjöf. Um þetta er fjallað í 75. gr. laganna:
75. gr. 1. Ófjárráða maður ræður ekki fé sínu nema lög mæli á annan veg.
2. Ófjárráða maður ræður sjálfur sjálfsaflafé sínu sem hann hefur þegar unnið fyrir. Maður, sem sviptur hefur verið fjárræði, ræður þó aðeins því sjálfsaflafé sem hann hefur unnið sér inn eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
3. Ófjárráða maður ræður sjálfur gjafafé sínu, þar með töldum dánargjöfum, nema gefandi hafi mælt fyrir á annan veg eða lög kveði sérstaklega öðruvísi á um. Ef maður hefur verið sviptur fjárræði ræður hann þó aðeins því gjafafé sem hann hefur fengið eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
4. Ófjárráða maður ræður einnig með sama hætti því fé sem lögráðamaður hans hefur látið hann hafa til ráðstöfunar.
5. Ef um tiltölulega mikið sjálfsaflafé eða gjafafé er að tefla eða fari hinn ófjárráða ráðlauslega með féð getur yfirlögráðandi, án tillits til fyrirmæla gefanda, ef því er að skipta, tekið eða heimilað lögráðamanni að taka féð að nokkru eða öllu leyti til varðveislu og ræður hinn ófjárráða maður þá ekki því fé meðan sú ráðstöfun helst.
6. Forráð ófjárráða manns yfir sjálfsaflafé og gjafafé taka einnig til arðs af því fé, svo og verðmætis er í stað þess kemur.
7. Ákvæði þessarar greinar heimila hvorki ófjárráða manni að stofna til skulda né veðsetja þá fjármuni sem þau taka til.
Hér þýðir yfirlögráðandi sýslumaður og lögráðamenn eru oftast foreldrar.
Þetta þýðir að mamma þín má ekki taka launin þín af þér, allavega svo framarlega að ekki sé um mjög háar upphæðir að ræða sem þú ferð mjög illa með. Þar er þó alveg eðlilegt að mamma þín eða báðir foreldrar (ef báðir foreldrar fara með forsjá þína) vilji hafa einhver áhrif á það í hvað þú notar peningana sem þú vinnur þér inn. Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns, í samráði við barnið, eftir því sem aldur og þroski gefur tilefni til.
Í lokin ber að geta þess að barn á rétt á því að foreldrar þess framfæri það þangað til það verður 18 ára. Foreldrar eiga því að sjá börnum sínum fyrir húsaskjóli, fæði, klæði og öðru sem því er nauðsynlegt.
Vona að þetta skýri málið.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna