Má henda mér út án ástæðu? - Mega foreldrar vaða inn í herbergið mitt?
strákur
16
Getur mamma mín hent mér út án ástæðu, og hefur mamma mín rétt á að kenna mér um allt það slæma sem gerist í lífi hennar? (það koma engin önnur hennar börn til greina að gera það nema ég af fáranlegum ástæðum).
Hefur hún mamma og stjúppabbi minn rétt á því að fra inní læst herbergið mitt eða ólæst herbergið mitt og vaða í allt? Væri mjög gott að fá svör sem fyrst. :) Og eitt enn hvar er barnaverndarnefndin á Akranesi?
Komdu sæll.
Til að svara fyrsta liðnum í spurningu þinni er rétt að benda á forsjárskyldur foreldra skv. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ein af skyldum foreldra er að tryggja bæði efnahagslega og andlega velferð barns síns, frá fæðingu til 18 ára aldurs. Foreldrum ber að sjá til þess að barnið hafi fullnægjandi húsaskjól, fæði og klæði og að það búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar mega sjálfir ekki heldur beita barn sitt hvers konar ofbeldi eða sýna því vanvirðingu. Foreldrar bera því ríka skyldu gagnvart börnum sínum og eiga að gæta hagsmuna þeirra á ýmsum sviðum samfélagsins t.d. þegar kemur að fjölskyldunni, skólanum, frítímanum, vinnu, fjármálum, persónulegum málum, slysavörnum og forvörnum gegn ýmsu sem miður getur farið hjá börnum eins og vímuefnaneyslu og afbrotum.
Móðir þín má því ekki „henda“ þér út án ástæðu, né hefur hún rétt til að kenna þér um það sem miður fer í hennar lífi.
Varðandi spurningu þína um hvort að foreldrar megi leita í herbergjum barna sinna þá eru í ýmis lög sem vernda friðhelgi einkalífs. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í Barnasáttmálanum er litið á börn sem sjálfstæða einstaklinga, með sín eigin réttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu. Í 16. gr. Barnasáttmálans er ákvæði um friðhelgi einkalífs. Þar segir: „Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
En þó svo að börn eigi sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs og njóti verndar meðal annars samkvæmt stjórnarskránni og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þá er sá réttu þó takmarkaður af nokkur leiti meðal annars vegna þess að forsjá barna er í höndum foreldra þeirra eða annarra forráðamanna. Í þeirri forsjá felst m.a. réttur foreldra og skylda til þess að ráða persónulegum högum barns. Foreldrum ber hins vegar að taka tillit til friðhelgi einkalífs barnsins og fær sú friðhelgi meira vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Réttur barna til friðhelgi einkalífs er því alltaf háður þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem foreldrar hafa gagnvart börnunum, þar á meðal þeirri skyldu að vernda þau gegn óæskilegum áhrifum og/eða gerðum.
Það verður að meta hvert tilvik fyrir sig hvort foreldrum sé leyfilegt að leita í herbergi barna sinna. Ef foreldri fer í gegnum persónulegar eigur barnsins síns án gildrar ástæðu, er það að brjóta á rétti barnsins til friðhelgi einkalífsins. Hins vegar, ef foreldri grunar að barnið sé í vanda, ber því skylda til að gera allt sem í valdi þess stendur til að vernda barnið og koma því til aðstoðar. Við þær aðstæður er réttlætanlegt að leita í herbergi barnsins, til dæmis að fíkniefnum. Það verður þó að meta hvert tilvik fyrir sig og er meginreglan að barn nýtur friðhelgi einkalífs og mikilvægt fyrir foreldra að virða þau mörk. Á sama hátt eiga foreldrar rétt á því að barn virði rétt þeirra til friðhelgi í umgengni við persónulega muni og einkagögn þeirra á heimilinu.
Hér eru upplýsingar um barnaverndina á Akranesi.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.