Má ég ákveða hvort ég flytji með mömmu út?
Stelpa
11
ég er 11 ára stelpa. Mamma og pabbi eru skilin fyrir löngu. Ég og bróðir minn erum meiri hlutan hjá mömmu. Mömmu og mig langar að flytja til útlanda en pabbi er ekki að leifa það og er bara leiðinlegur við mömmu. MÁ ÉG ÁKVEÐA HVORT ÉG VILJI FLYTJA MEÐ MÖMMU ÚT.
Hæhæ
Þú getur því miður ekki ákveðið það alveg sjálf hvort þú flytjir með mömmu þinni til útlanda. Þar sem þú ert orðin 11 ára átt þú þó rétt á því að hafa mikil áhrif á það hvar þú átt heima og foreldrar þínir eiga að taka mikið tillit til vilja þíns.
Það er hlutverk foreldra þinna að komast að samkomulagi um þessi mál, en þeir eiga að taka mikið tillit til þess hvað þú vilt. Það gæti verið góð hugmynd fyrir þig að ræða við pabba þinn og segja honum hvernig þér líður. Ef þú treystir þér ekki til þess gætir þú kannski talað við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir og beðið um aðstoð við að ræða við pabba þinn, t.d. ömmu, afa eða einhvern annan ættingja. Það hjálpar líka sumum fjölskyldum að fara í fjölskylduráðgjöf, en þú gætir kannski nefnt þá hugmynd við mömmu þína eða pabba.
Ef þú vilt ræða málin nánar skaltu endilega hafa samband aftur. Þú getur sent okkur póst eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Kær kveðja frá umboðsmanni barna
* Uppfært: Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að nú geta börn geta beðið sýslumann um að boða foreldra þess til fundar til að ræða óskir barnsins um breytingar á fyrirkomulagi forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni.
Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals á að gefa barninu kost á viðtali með fagaðila sem aðstoðar það við að koma eigin sjónarmiðum á framfæri við foreldra.
Barn getur haft samband við sýslumann með því að hringja eða senda tölvupóst eða koma við á skrifstofu sýslumanns og biðja um samtal.
Hér má finna nánari upplýsingar um þetta:: https://island.is/rettur-barns-til-thess-ad-leita-til-syslumanns