Langar að vinna mér inn laun
stelpa
12
Ég er á 13 ári og mig langar að vinna mér inn laun, ekki með því að þrífa húsið eða fara út með hundinn heldur alvöru vinnu! Sama hvort það er auðveld lítil verk eða erfiðari verk. Hvert á ég að leita?
Komdu sæl.
Það eru ekki margir sem ráða 12 ára börn í vinnu og satt best að segja finnst umboðsmanni barna þú heldur ung til að vera að hugsa um að fá þér vinnu. Almennt er nefnilega talið að nám í grunnskóla sé full vinna og að börn ættu að nota þær stundir sem þau eiga lausar til að leika sér og stunda skipulagt frístundastarf.
Almennt séð eiga börn ekki að byrja að vinna svo ung. Þau fá þó oft smávegis pening fyrir að sinna léttum störfum á heimilinu eða í garðinum hjá einhverjum í fjölskyldunni eða nágrenninu. Þú skalt endilega athuga hvað foreldrum þínum finnst um þetta.
Um vinnu barna og unglinga undir 18 ára aldri gilda ákveðnar reglur (lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga). Þessar reglur gilda samt ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem sem varir í skamman tíma á einkaheimilum eða í fjölskyldufyrirtækjum sem ekki teljast skaðleg né hættuleg.
Meginreglan er sú að börn í skyldunám, eða börn sem eru yngri en 15 ára, má ekki ráða í vinnu. víkja má frá því í eftirfarandi tilvikum.
• Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
• Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
• Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa. Dæmi um létt störf eru t.d. létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa.
Þú gætir prófa að sækja um létt störf sem að henta þér á borð við þau sem nefnd eru hérna að ofan en umboðsmaður barna leggur þó áherslu á að þú sinnir skólanum og hafir nægan frítíma til þess njóta þess að gera það sem þér finnst skemmtilegt. Það er nægur tími til þess að vinna í framtíðinni. Umboðsmaður barna leggur líka áherslu á að ef þig langar að fá vinnu að þú ráðfærir þig við foreldra þína. Það er þeirra að gæta hagsmuna þinna og sjá til þess að rétt sé farið að öllu.
Ef þú ert með fleiri spurningar eða ert að velta einhverju fleiru fyrir þér getur þú alltaf haft samband aftur.
Við reyndum að senda þér svarið líka í tölvupósti en það gekk ekki upp :- (.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna