Hvernig get ég orðið sjálfráða fyrr?
Stelpa
16
Hvernig get ég orðið sjálfráða fyrir 18 hef alltaf séð um mig sjálf Ég vill geta flutt ut (leigt íbúð)
Hæ.
Foreldrar þínir (eða eftir atvikum forsjáraðilar) hafa það hlutverk að sjá til þess að þú alist upp við góð skilyrði til að ná að vaxa og þroskast. Þeir hafa forsjá yfir þér til 18 ára aldurs en það þýðir að þeir ráða persónulegum högum þínum og ákveða búsetustað þinn. Þú átt samt alltaf rétt á að segja þína skoðun á öllum málum sem varða þig og eftir því sem þú eldist og þroskast eiga foreldrar þínir að taka meira mark á þínum skoðunum samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans. Ef þú ert að verða 16 ára þá ættu þínar skoðanir að hafa mikið vægi í ákvarðanatöku um þín mál þar sem þú ert orðin frekar stálpuð.
Samkvæmt íslenskum lögum verður einstaklingur lögráða (þ.e. sjálfráða og fjárráða) 18 ára en sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr 16 ára í 18 ára árið 1998.
Að vera sjálfráða þýðir að þú átt rétt á að ráða sjálf yfir þínum persónulegu högum öðrum en fjármunum en að vera fjárráða þýðir að þú ræður sjálf yfir öllum þínum fjármunum. Ef maður stofnar til hjúskapar fyrir 18 ára aldur þá er maður lögráða upp frá því. Hér ber þó að hafa í huga að það er undantekning að slíkt sé gert og það þarf sérstakt leyfi til hjónavígslu frá dómsmálaráðuneytinu og afstaða forsjárforeldra að liggja fyrir. Auk þess er hjónaband stór skuldbinding sem enginn ætti að taka á sig nema vera búinn að hugsa það vel og gera sér grein fyrir afleiðingum hennar.
Ef þig vantar fleiri upplýsingar þá máttu alltaf senda okkur póst í gegnum heimasíðuna okkar www.barn.is eða beint á póstfangið ub@barn.is eða hringja í okkur í síma 800-5999 (gjaldfrjálst símanúmer)
Gangi þér vel.