Forsjá og trúfrelsi
stelpa
16
Hefur foreldri rétt á því að henda barni sínu út vegna þess að það neitar að trúa því sama og fjölskyldan, eða s.s. að vera kristinn, kaþólskur, eða eitthvað svoleiðis ..?
Komdu sæl
Nei, foreldrar mega ekki henda barni sínu út vegna þess að barnið hefur tekið aðra trú.
Barn á rétt á forsjá foreldra sinna. Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 á barn rétt á því að foreldrar þess framfæri það þangað til það verður 18 ára. Foreldrar eiga því að sjá börnum sínum fyrir húsaskjóli, fæði, klæði og öðru sem því er nauðsynlegt.Jafnframt eiga foreldrar barns að annast persónuleg mál þess þar til barnið verður 18 ára. Í uppeldinu eiga foreldrar alltaf að hugsa um hagsmuni og þarfir barns síns, og sýna því umhyggju og nærfærni.
Barninu ber að sjálfsögðu að fara eftir þeim reglum sem gilda á heimilinu og foreldrarnir setja. Foreldrar eiga þó að hafa samráð við barn sitt áður en þeir taka ákvarðanir um mál, sem það varða eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Afstaða barnsins á að fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast en foreldrarnir eiga samt alltaf lokaorðið.
Ef unglingur vill t.d. flytja að heiman og foreldrarnir eru sammála um að það sé honum fyrir bestu þá ber foreldrunum að tryggja unglingnum annað húsnæði.
Hér á landi ríkir trúfrelsi skv. 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði taka til barna jafnt sem fullorðna. 14. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir líka að virða eigi rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
Loks er rétt að benda á 8. grein laga um skráð trúfélög nr. 108/1999:
8. gr.Aðild að skráðu trúfélagi.
Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi.
Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.
Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna