Foreldrar öskra á mig og meiða mig
stelpa
10
Þetta erindi hefur verið stytt af umboðsmanni barna.
Mamma segir oft að ég sé svakalegur lygari og öskrar á mig, ég reyni að vera hjá pabba en stundum þá ýtir hann mér burt. [...] Mér finnst mamma mjög leiðinleg og pabbi sömuleiðis. Mamma öskrar alltaf á mig og meiðir stundum og pabbi líka, nema hann bara lætur mig fá sár, sum blæða meira að segja. Hvað geri ég !
Komdu sæl
Það er mjög leitt að heyra hvernig foreldrar þínir koma fram við þig. Þetta er alls ekki í lagi og því er gott hjá þér að leita eftir aðstoð.
Barnaverndin getur hjálpað börnum sem líður ekki vel heima hjá sér. Ef barnaverndin fær að vita að foreldrar þínir séu stundum að meiða þig og öskra á þig þá getur hún ákveðið að foreldrar þínir þurfi hjálp við að vera betri foreldrar. En til þess að barnaverndin geti skoðað málið ykkar þarf einhver að láta barnaverndina vita. Það eru nokkrar leiðir til þess:
- Þú getur talað við einhvern fullorðinn sem þú treystir og beðið hann/hana um að hafa samband við barnavernd. Ef þú talar t.d. við kennarann þinn, námsráðgjafann eða hjúkrunarfræðinginn í skólanum þá eiga þeir að hjálpa þér og hafa samband við barnaverndina. Ef það er einhver annar fullorðinn sem þekkir þig og þú treystir getur þú auðvitað leitað til hans/hennar.
- Þú getur haft samband við barnaverndina sjálf, t.d. með því að hringja í 112 og biðja um barnavernd.
- Við hér hjá umboðsmanni barna getum haft samband við barnaverndina fyrir þig.
Hérna getur þú lesið um barnavernd.
Það væri gott ef þú myndir láta okkur vita hvað þú vilt gera. Ef þú vilt að við hjá umboðsmanni barna aðstoðum þig og höfum samband við barnaverndina skaltu endilega hafa samband aftur og segja okkur hvað þú heitir og hvar þú átt heima. Þú getur sent tölvupóst, skilaboð á vefnum eða hringt í síma 800-5999. Við getum líka hringt í þig ef þú sendir okkur símanúmerið þitt.
Við vonumst til að heyra frá þér aftur. Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna