Foreldrar mínir öskra á mig, slá mig á munninn og flengja mig
stelpa
14
Mamma mín og pabbi öskra á mig svona 20 sinnum á dag............ Það er mjög leiðinlegt..... Ég hef talað við námsráðgjafa um þetta og hún sagði mér bara að setjast niður og spjalla við þau um þetta! Ég reyndi en það var bara öskrað á mig og ég lokuð inn í herbergi.... . Ég er oft slegin á munninn og einstaka sinnum flengd... Hvað get ég gert án þess að þau öskri á mig?
Komdu sæl
Það hefur greinilega ekki gengið að setjast niður með foreldrum þínum til að ræða málin.
Eins og áður hefur komið fram ber foreldrum samkvæmt barnalögum skylda til að sýna barni sínu umhyggju og virðingu. Forsjá barns felur líka í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrar þínir eru greinilega að beita þig ofbeldi og það má ekki samkvæmt lögum. Barnaverndarlög segja líka að ef starfsfólk skóla veit að barn er beitt ofbeldi heima hjá sér ber því skylda til að láta barnaverndarnefnd vita af því.
Foreldrar þínir þurfa aðstoð við uppeldið og leiðsögn frá starfsfólki barnaverndarinnar (yfirleitt einhver frá félagsmála- eða fjölskyldusviði sveitarfélagsins). Þú skalt ekki vera hrædd um að tilkynna þetta til barnaverndarinnar. Þú hringir í síma 112, segir hvar þú býrð og að þú þurfir að tilkynna um ofbeldi heima hjá þér.
En fyrst væri ráðlegt að hitta hjúkrunarfræðinginn í skólanum. Hann/hún getur hjálpað þér með að tilkynna þetta til barnaverndarnefndar og ef þú vilt að skólahjúkrunarfræðingurinn tilkynni ofbeldi skaltu ekki hika við biðja hann/hana um að gera það.
Ef þú vilt getur þú líka látið okkur vita hvað þú heitir og hvar þú býrð. Þá getum við haft samband við barnaverndina fyrir þig.
Ef ástandið batnar ekki (þrátt fyrir að þú hafir látið barnaverndarnefnd vita) og foreldrar þínir halda áfram að öskra á þig, slá þig og flengja skaltu endilega hafa samband hingað aftur.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna