Faðir minn misnotar mig kynferðislega
strákur
15
Faðir minn misnotar mig kynferðislega og drekkur mikið, hvað get ég gert??
Komdu sæll
Það er gott hjá þér að leita þér aðstoðar. Sumum leyndarmálum á maður að segja frá ... jafnvel þó einhver sem þér þykir vænt um hafi sagt þér að þú mættir engum segja. EKKERT getur réttlætt kynferðisofbeldi og faðir þinn ber alla ábyrgð. Kynferðislegt ofbeldi er glæpur sem enginn ætti að sætta sig við.
Hér er umfjöllun umboðsmanns um kynferðislegt ofbeldi.
Umboðsmaður barna vill sérstaklega benda þér á að réttur aðili til að taka á svona málum er barnaverndarnefndin í sveitarfélaginu þínu. Ef þú byrjar t.d. á að leita til starfsfólks skólans þíns (umsjónarkennara, skólahjúkrunarfræðings, námsráðgjafa, skólastjóra) þá ber þeim skylda til að tilkynna málið til barnaverndarnefndar. Þú getur líka sjálfur haft samband við starfsmann barnaverndarnefndar með því að hringja í 112 og eins getur umboðsmaður barna tilkynnt ofbeldið fyrir þig – en þá þarft þú að senda nafn þitt og heimilisfang á netfangið ub@barn.is.
Ef þú hins vegar vilt byrja á að fá ráðgjöf gæti verið gott fyrir þig að leita fyrst til Stígamóta eða Blátt áfram verkefnisins með erindi þitt. Þar er gott fólk sem hefur mikla þekkingu á þessum málum og getur hjálpað þér að taka á þessu.
Umfram allt ekki gefast upp! Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn. Þú getur alltaf hringt þangað þegar þér líður illa.
Gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna