VITA

Kafli 1

Upplýsingaöflun

Það skiptir meginmáli að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi sem varpa ljósi á stöðu barnsins. 

Það er mikilvægt að skilja þarfir barnsins og með hvaða hætti barnið verði fyrir áhrifum. Út frá þessum upplýsingum er hægt að greina hvað sé barninu fyrir bestu.

  • Það þarf að safna gögnum og upplýsingum um stöðu barnsins og þarfir þess. Upplýsinganna þarf að afla frá mismunandi aðilum t.d. frá barninu sjálfu, foreldrum þess eða forsjáraðilum. Þá þarf einnig að fá upplýsingar frá sérfræðingum t.d. skýrslur frá læknum, sálfræðingum eða kennurum. Að auki ber að taka mið af fyrirliggjandi upplýsingunum um þroska barna og þarfir þeirra.
  • Afstaða barns hefur grundvallarþýðingu. Það er mikilvægt að eiga í góðum samskiptum við barnið til þess að vita hvað skipti máli varðandi stöðu þess. Leggja ber áherslu á að hlusta á upplifun barnsins og óskir þess. Barnið þarf að fá viðeigandi upplýsingar til þess að geta raunverulega tjáð sig og þá þarf að tryggja að aðstæðum sé þannig háttað að öryggi barnsins sé tryggt. Þá er mikilvægt að muna að barn á rétt á því að tjá sig en ekki er um skyldu að ræða.
  • Greina þarf með hvaða hætti barnið verði fyrir áhrifum. Þegar mat er lagt á bestu hagsmuni barns þarf að taka mið af viðkvæmri stöðu barnsins og fjölskylduumhverfi. Þar að auki þarf að greina á hvaða ákvæði barnasáttmálans reynir í málinu t.d. rétt til menntunar, verndar eða heilbrigðis. Við þá vinnu er mikilvægt að hafa hliðsjón af grundvallarreglum barnasáttmálans sem er að finna í 2., 3., 6. og 12. gr.

Mikilvægar spurningar

  • Eru til staðar fullnægjandi upplýsingar og gögn um stöðu barnsins?
  • Fyrir hvaða áhrifum verður barnið, eru þau jákvæð eða neikvæð?
  • Hefur verið leitast eftir því að ná fram afstöðu barnsins?


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica