Valkostir tilgreindir og mat lagt á áhrif þeirra
Kafli 5
Leggja þarf sérstakt mat á það hvaða áhrif mismunandi valkostir hafa á börn og réttindi þeirra til lengri eða skemmri tíma.
Valkostina á að skoða út frá meginreglum barnasáttmálans og öðrum ákvæðum hans sem til álita koma. Eru mismunandi valkostir til þess fallnir að efla réttindi barna, draga úr þeim eða hafa lítil sem engin áhrif? Hér þarf einnig að leggja mat á áhrifin til bæði skemmri og lengri tíma.
Einnig þarf að vega mismunandi valkosti á móti sjónarmiðum barna. Ef til greina kemur valkostur sem er ekki í samræmi við sjónarmið barna þarf að rökstyðja það sérstaklega.
Það er mikilvægt að draga ekki of almennar ályktanir um það sem barni er fyrir bestu heldur þarf að meta sérstaklega hvort um mismunandi áhrif er að ræða fyrir mismunandi börn. Sérstaklega þarf að beina sjónum að börnum í viðkvæmum aðstæðum.
Skráning matsferlis
Matið getur leitt í ljós að í málinu vegast á ólíkir hagsmunir sem verður til þess að hafa áhrif á réttindi barna. Ýmist geta hagsmunir mismunandi hópa barna rekist á, eða hagsmunir barna rekast á við aðra hópa í samfélaginu eða réttindi barna rekast á við samfélagslega hagsmuni. Ef svo er, ber að tilgreina hvaða mótvægisaðgerðir koma til greina, sem þjóna þá þeim tilgangi að tryggja, að þó svo að það sem barni er fyrir best hafi ekki mest vægi, sé tekið tillit til hagsmuna og réttinda þeirra.
Mikilvægt er að skrá í gögn málsins þau álitaefni sem varða réttindi barna og möguleg áhrif á þau. Við framvindu vinnunnar getur reynst nauðsynlegt að einblína sérstaklega á þá þætti sem geta orðið þess valdandi að réttindi barna eru ekki virt.
Gátlisti
-
Hvaða jákvæðu, neikvæðu eða hlutlausu áhrif mun eða getur tillagan haft á réttindi barna?
-
Er um að ræða mismunandi áhrif á mismunandi hópa barna?
-
Rekast mismunandi hagsmunir á?
-
Er þörf á mótvægisaðgerðum til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á réttindi barna?
-
Rökstyðja þarf sérstaklega ef fyrir valinu verður valkostur sem fer gegn óskum og sjónarmiðum barna.