Umfang matsins
Kafli 1
Leiðbeiningunum er ætlað að veita aðstoð við framkvæmd allra þátta matsins á því sem börnum er fyrir bestu í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Hversu ítarlegt matið á að vera fer eftir eðli máls hverju sinni. Matið fer fram í skrefum, en vægi hvers og eins skrefs fer eftir eðli og umfangi máls og hversu miklum áhrifum á börn má gera ráð fyrir.
Hvernig á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu
Eftirfarandi leiðbeiningar fjalla um framkvæmd mats á því sem börnum er fyrir bestu þegar ljóst er að aðgerðin snertir einstök börn eða afmarkaða hópa barna.
Leiðbeiningarnar er einnig hægt að staðfæra yfir á tiltekna starfsemi til þess að samhæfa og auðvelda vinnuna við framkvæmd matsins til frambúðar.
Hvenær á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu?
Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu við allar ráðstafanir sem varða börn.
Hér má lesa nánar um meginreglu 3. gr., túlkun hennar og beitingu:
- Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins - Barnasáttmálinn
- Það sem er barninu fyrir bestu (pdf)
Mat á því hvað börnum er fyrir bestu á ávallt að fara fram, óháð því hvort áhrifin á börn eru bein eða óbein. Það þýðir að framkvæma á mat á því sem barni er fyrir bestu:
- Ef taka á ákvörðun um heimild barns til að dvelja á Íslandi eða um stuðning því til handa í skóla.
- Þegar barn verður óbeint fyrir áhrifum af völdum ákvörðunar sem varðar foreldri eða annan umönnunaraðila barns.
- Við töku ákvarðana sem varða t.d. öll börn í skóla eða árgangi eða börn sem eru í vistun utan heimilis þar sem til stendur að gera breytingar.
Í almennum leiðbeiningum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14. er að finna nánari upplýsingar um það hvenær á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu
Leggðu mat á það hvaða áhrif málið er líklegt til að hafa á barnið
Líta ber til aðstæðna sem uppi eru í málinu og fyrirliggjandi upplýsinga. Leggja þarf sérstakt mat á það hvort málið sé líklegt til að hafa áhrif á barnið og ef svo er hversu mikil áhrifin eru.
Ef niðurstaða matsins er sú að barnið verði ekki fyrir áhrifum er mikilvægt að skrá það í gögn málsins.
Hversu umfangsmikið á matið að vera?
Mat á því sem barni er fyrir bestu er í raun könnun sem fram fer í nokkrum liðum. Mismunandi þættir málsins geta haft mismikið vægi og hversu umfangsmikið matið á að vera fer eftir eðli máls. Eftir því sem áhrifin á börn eru meiri á matið að vera umfangsmeira.
- Ef um mikil eða mjög mikil áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Þá ber að leggja umfangsmikið mat á hagsmuni barna, það kallar á ítarlega lýsingu á málsatvikum ásamt greiningu á afleiðingum og áhrifum út frá barnaréttarlegri nálgun. Það getur kallað á beitingu ýmissa aðferða og getur kallað á aðkomu ýmissa sérfræðinga.
- Ef um einhver áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Í þeim tilvikum þarf matið ekki að vera ítarlegt, t.d. getur verið fullnægjandi að leggja eingöngu mat á þá þætti sem fyrirsjáanlegt er að geti haft einhver áhrif á börn.
- Ef um lítil eða jafnvel engin áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Í þeim tilvikum er jafnvel hægt að sleppa því að framkvæma matið eða gera það umfangslítið, en brýnt er að skrá í gögn málsins niðurstöðu um umfang mats og á hverju hún byggir.
Gátlisti
-
Hvers eðlis er málið sem um ræðir?
-
Hvert er markmiðið?
-
Hvaða börn verða fyrir áhrifum?
-
Eru áhrifin bein eða óbein?
-
Taka þarf afstöðu til þess hvort þörf sé á frekari sérfræðiþekkingu við framkvæmd matsins á því sem barni er fyrir best.
Gagnlegar upplýsingar...