Valkostir tilgreindir og mat lagt á áhrif þeirra
Kafli 5
Á þessu stigi þarf að meta hvernig hægt sé að tryggja réttindi barna með sem bestum hætti.
Það þarf einnig að greina mögulegar afleiðingar á stöðu barna og réttindi þeirra og ákveða hvað myndi vera í samræmi við bestu hagsmuni barna. Það er mikilvægt að álykta ekki með almennum hætti um hvað sé börnum fyrir bestu heldur þarf að koma auga á þá hópa barna sem líkur eru á að verði fyrir áhrifum umfram aðra. Sérstaklega þarf að beina sjónum að börnum í viðkvæmri stöðu. Í sumum tilfellum getur það sem er börnum almennt fyrir bestu haft neikvæð áhrif á hagsmuni ákveðinna hópa barna. Ef sú staða kemur upp þarf að greina til hvaða mótvægisaðgerða er hægt að grípa til þess að tryggja réttindi þess hóps.
Þá þarf að skoða afleiðingar á börn út frá meginreglum Barnasáttmálans og öðrum ákvæðum hans sem til álita koma. Leggja ber mat á það hvort um sé að ræða jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar og hvort mismunandi valkostir séu til þess fallnir að efla réttindi barna, draga úr þeim eða hvort einhverjir valkostir hafi lítil sem engin áhrif á réttindi barna. Hér þarf að leggja mat á áhrifin til bæði skemmri og lengri tíma. Ef ekki verður hjá því komist að börn verði fyrir neikvæðum afleiðingum á að greina til hvaða mótvægisaðgerða sé hægt að grípa til þess að koma til móts við réttindi barna.
Vægi afleiðinga getur verið mismunandi mikið í hverju máli fyrir sig, viðkvæm staða barna hefur t.d. mikla þýðingu hvað varðar afleiðingar fyrir börn sem eru í viðkvæmri stöðu í sínu lífi t.d. vegna fötlunar, fátæktar eða aðstæðna á heimilum barna.
Skoðanir barna geta skipt grundvallarmáli hvað þetta varðar og ef valin er leið sem er ekki í samræmi við skoðanir barnanna þarf að rökstyðja þá niðurstöðu sérstaklega.
Framkvæma þarf formlegt og heildstætt mat á afleiðingum til þess að hægt sé að greina með hvaða hætti sé hægt að tryggja réttindi barna og komast að niðurstöðu um hvað sé börnum fyrir bestu.
Mikilvægar spurningar
-
Hvaða gögn og upplýsingar þurfa að liggja fyrir þannig að unnt sé að leggja mat á það hvaða áhrif eru fyrirsjáanleg á réttindi barna?
-
Hvaða gagnreyndu aðferðir geta nýst við framkvæmd matsins?
-
Er hægt að byggja á niðurstöðum rannsókna og fyrirliggjandi tölfræðiupplýsingum?
-
Hvaða lög, reglugerðir og aðrar reglur eiga við?
-
Hvaða leiðbeiningar veitir Barnasáttmálinn?