Umfang matsins
Kafli 1
Hvernig á að framkvæma mat á því sem börnum er fyrir bestu?
Leiðbeiningunum er ætlað að veita aðstoð við framkvæmd allra þátta matsins á því sem börnum er fyrir bestu í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Hversu ítarlegt matið á að vera fer eftir eðli máls hverju sinni. Matið fer fram í skrefum, en vægi hvers og eins skrefs fer eftir eðli og umfangi máls og hversu miklum áhrifum á börn má gera ráð fyrir.
Þessar leiðbeiningar...
... fjalla um framkvæmd mats á því sem börnum er fyrir bestu þegar ljóst er að aðgerðin snertir þau með almennum hætti.
Leiðbeiningarnar er einnig hægt að staðfæra yfir á tiltekna starfsemi til þess að samhæfa og auðvelda vinnuna við framkvæmd matsins til frambúðar.
Hvenær á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu?
Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans, á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu við allar ráðstafanir sem varða börn.
Nánar um meginreglu 3. gr., túlkun hennar og beitingu:
Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsinsÞað sem er barninu fyrir bestu (pdf)
Mat á því hvað börnum er fyrir bestu á ávallt að fara fram, óháð því hvort áhrifin á börn eru bein eða óbein. Það þýðir að framkvæma á mat á því sem barni er fyrir bestu ef:
- Um er að ræða ákvarðanir sveitarfélaga um fjárveitingar eða á sviði skipulagsmála.
- Ef til stendur að vinna drög að frumvarpi eða reglugerð eða setja á fram leiðbeiningar í málaflokki sem gæti haft áhrif á börn.
- Til meðferðar er mál hjá dómstólum sem ljóst er að gæti haft áhrif á börn með einhverjum hætti.
Í almennum leiðbeiningum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14. er að finna nánari upplýsingar um það hvenær á að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu (hlekkur).
Hver eru áhrif ákvörðunarinnar eða tillögunnar á börn?
Í upphafi vinnunnar við matið á því sem börnum er fyrir bestu fer vel á því að skrá niður stutta lýsingu á meginatriðum þess máls sem er til meðferðar hverju sinni. Sú lýsing á að leiða í ljós hversu mikil áhrif á börn er um að ræða og hvort þau áhrif séu bein eða óbein.
Ef niðurstaðan er sú að um einhver áhrif á börn sé að ræða þarf að komast að niðurstöðu um það hvaða hópar barna það eru sem verða fyrir áhrifum. Einnig þarf að komast að niðurstöðu um það hvort börn séu sá hópur sem hvað mest verður fyrir áhrifum eða hvort þau séu meðal þeirra sem verða fyrir einhverjum áhrifum.
Þegar matið á áhrifum á börn liggur fyrir fer vel á því að skrá niðurstöður þess meðal gagna málsins, hvort sem niðurstaðan er sú að börn verði fyrir áhrifum eða ekki.
Hversu umfangsmikið á matið að vera?
Mat á því sem barni er fyrir bestu er í raun könnun sem fram fer í nokkrum liðum. Mismunandi þættir málsins geta haft mismikið vægi og hversu umfangsmikið matið á að vera fer eftir eðli máls hverju sinni. Eftir því sem áhrifin á börn eru meiri á matið að vera umfangsmeira.
-
Ef um mikil eða mjög mikil áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Þá ber að leggja umfangsmikið mat á hagsmuni barna, það kallar á ítarlega lýsingu á málsatvikum ásamt greiningu á afleiðingum og áhrifum út frá barnaréttarlegri nálgun. Það getur kallað á beitingu ýmissa aðferða og getur kallað á aðkomu ýmissa sérfræðinga.
-
Ef um einhver áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Í þeim tilvikum þarf matið ekki að vera ítarlegt, t.d. getur verið fullnægjandi að leggja eingöngu mat á þá þætti sem fyrirsjáanlegt er að geti haft einhver áhrif á börn.
-
Ef um lítil eða jafnvel engin áhrif á aðstæður barna er að ræða:
Í þeim tilvikum er jafnvel hægt að sleppa því að framkvæma matið eða gera það umfangslítið, en brýnt er að skrá í gögn málsins niðurstöðu um umfang mats og á hverju hún byggir.
Gátlisti
- Hvers eðlis er málið sem um ræðir?
- Hver er tilgangurinn?
- Hvaða börn verða fyrir áhrifum?
- Eru áhrifin bein eða óbein?
- Taka þarf afstöðu til þess hvort þörf sé á frekari sérfræðiþekkingu við framkvæmd matsins á því sem er barni fyrir bestu.
Gagnlegar upplýsingar...
- Vefsíða umboðsmanns barna
- Lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins
- Vefsíðan barnasáttmáli.is
- Almennar leiðbeiningar barnaréttarnefndarinnar nr. 14
Næsti kafli - Réttindi barna sem til álita koma