Þátttaka barna
Kafli 4
Börn eiga rétt á því að hafa áhrif á eigið líf og taka þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins. Þegar taka á ákvörðun sem varðar börn eiga þau rétt á því að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós auk þess sem taka ber réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Barn þarf því ekki að tjá sig ef það vill það ekki. Skylda hvílir hins vegar á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til þess að tjá sig og taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum.
Hvað finnst börnum?
Taka ber tillit til sjónarmiða barna
Að tekið sé réttmætt tillit til skoðana barna á málum sem áhrif hafa á þau er grundvallarforsenda þess að unnt sé að leggja mat á það sem börnum er fyrir bestu. Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga skoðanir barna að hafa mismikið vægi eftir aldri þeirra og þroska.
12. gr. Barnasáttmálans um réttinn til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
- Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
- Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.
Hvernig haga ber þátttöku barna fer eftir því hversu mikil áhrif eru fyrirsjáanleg á aðstæður þeirra og réttindi. Byggja má á fyrirliggjandi gögnum sem og upplýsingum um skoðanir barna. Ef áhrifin á börn eru lítil geta fyrirliggjandi gögn verið fullnægjandi. Ef um töluverð áhrif er að ræða getur það kallað á sérstakt samráð við börn.
Börn búa yfir mikilvægri og dýrmætri þekkingu sem brýnt er að taka mið af. Til þess að svo megi verða þarf að veita börnum tækifæri á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er hægt að gera með ýmsum leiðum, t.d. með því að koma á laggirnar ungmennaráðum, rýnihópum, með framkvæmd skoðanakannana eða viðtala. Við val á aðferð þarf að taka tillit til aldurs barna og þroska. Það er brýnt að niðurstöður samráðsins endurspeglist í endanlegri ákvörðun eða afurð og mikilvægt er að skrá sérstaklega hvaða áhrif niðurstöður samráðsins höfðu á endanlega útkomu.
Til þess að samráð við börn skili tilætluðum árangri er mikilvægt að börnin skilji hvaða tillögur eru til umræðu og af hverju þau eru hluti af samráðsferlinu. Einnig þarf að gera börnum það ljóst hvaða þætti þau geta haft áhrif á og hvaða þætti ekki. Ef væntingar barnanna til samráðsferlisins eru raunhæfar er auðveldara fyrir þau að einblína á þá þætti sem þau raunverulega geta haft áhrif á en þannig fást einnig betri niðurstöður úr samráðsferlinu.
Áður en samráðsferlinu lýkur er mikilvægt að fyrir liggi með hvaða hætti börnin sem tóku þátt munu fá upplýsingar um lyktir máls.
Fylgiskjal 1 - Til umhugsunar áður en rætt er við barn Gagnlegar upplýsingar - Þátttaka barna í stefnumótun og ákvörðunum
Gátlisti
- Hvernig á að tryggja þátttöku barna?
-
Á hvaða þætti geta börn haft áhrif?
-
Hvaða upplýsingar þarf að veita börnum?
-
Hvernig á að nýta þær upplýsingar sem börn veita?
-
Hvernig á að upplýsa börn um lyktir máls og áhrif þeirra á endanlega niðurstöðu?