1. stig - gagnaöflun og könnun á regluverki

Kafli 3

Til þess að hægt sé að framkvæma mat á áhrifum á börn þurfa öll nauðsynleg gögn að liggja fyrir sem varpa ljósi á áhrif málsins á réttindi barna. 

Hér getur m.a. verið um að ræða upplýsingar um gagnreyndar aðferðir, tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna. Það þarf að leggja mat á það hverju sinni hvaða gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir til þess að hægt sé að framkvæma matið. Ef í ljós kemur að gögn eða upplýsingar skortir um atriði sem hafa þýðingu varðandi áhrif á börn þarf að bregðast við því.

Þá þarf að greina hvaða hópar barna það eru sem verða fyrir áhrifum og hvort líkur séu á að ákveðnir hópar barna verði fyrir meiri áhrifum en aðrir. Einnig þarf að komast að niðurstöðu um það hvort áhrifin á börn eru bein eða óbein og hvort um jákvæð eða neikvæð áhrif á réttindi barna er að ræða. Það er ekki fullnægjandi að greina frá almennum áhrifum á börn ef fyrirséð er að málið varðar sérstaklega tiltekna hópa barna.

Afla þarf upplýsinga um þarfir barna og réttindi. Það þarf að greina hvað sé mikilvægt fyrir þá hópa barna sem verða fyrir áhrifum. Einnig þarf að greina hvort ákveðnir hópar barna séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og þá hvaða réttindi og þarfir sá hópur hefur.

Til þess að hægt sé að framkvæma mat á bestu hagsmunum barna með fullnægjandi hætti þarf að taka mið af skoðunum þeirra barna sem koma til með að verða fyrir áhrifum. Í hverju máli fyrir sig þarf að leggja mat á það hvernig haga beri þátttöku barna. Við það mat ber að taka mið af eðli máls og umfangi þeirra áhrifa sem fyrirséð eru á réttindi barna. Það er hægt að uppfylla kröfu um þátttöku barna með mismunandi hætti. Í sumum tilvikum getur verið fullnægjandi að byggja á fyrirliggjandi upplýsingum um skoðanir barna. Það á einkum við í þeim málum þar sem ætla má að börn verði fyrir takmörkuðum áhrifum. Önnur mál eru þess eðlis að hafa þarf sérstakt samráð við börn og á það einkum við þau mál sem varða börn með nokkrum eða töluverðum hætti. Nánari upplýsingar um hvernig haga beri samráði við börn og þátttöku þeirra er að finna í „leiðbeiningum um þátttöku barna“.

Á þessu stigi þarf einnig að greina á hvaða ákvæði barnasáttmálans reynir í málinu. Við þá vinnu er mikilvægt að hafa hliðsjón af grundvallarreglum barnasáttmálans sem er að finna í 2., 3., 6. og 12. gr.

 

 

Nánar um Barnaréttarnefndina (nefnd um réttindi barnsins í Genf)

Mikilvægar spurningar

  • Hvaða hópar barna verða fyrir áhrifum? Hvað er vitað um stöðu þessara hópa og þarfir?

  • Hvers eðlis eru áhrifin sem málið getur haft á réttindi barna, eru þau jákvæð, neikvæð eða hlutlaus?

  • Eru áhrifin bein eða óbein?

  • Eru fullnægjandi upplýsingar tiltækar um hvernig börn verði fyrir áhrifum eða er þörf á sérstakri gagnaöflun eða frekari sérfræðiþekkingu? 

  • Verða ákveðnir hópar barna fyrir meiri áhrifum en aðrir?

  • Á hvaða ákvæði barnasáttmálans reynir í málinu?

  • Hvaða skoðun hafa börn á málinu?


2. stig - valkostir tilgreindir og mat lagt á áhrif þeirra.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica