Öflun gagna og upplýsinga og könnun á regluverki
Til þess að framkvæma mat á því sem börnum er fyrir bestu, þurfa að liggja fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar, eins og eftir atvikum upplýsingar um gagnreyndar aðferðir, tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna. Mikilvægt er að fram komi á hvaða gögnum og upplýsingum var byggt við framkvæmd matsins.
Í flestum málum þar sem áhrifin á börn eru almenn, eins og t.d. við undirbúning frumvarpa og reglugerða eða við mótun stefnu á sér stað undirbúningsvinna, en mat á því sem börnum er fyrir bestu þarf að vera hluti af þeim undirbúningi.
Hvað segir regluverkið?
Mikilvægt er að beita Barnasáttmálanum og meginreglum hans en einnig er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um það regluverk sem gildir um viðkomandi málefni áður en vinnan við framkvæmd matsins hefst.
Túlkun og beiting Barnasáttmálans
Leiðbeiningar um túlkun og beitingu Barnasáttmálans má t.d. finna í niðurstöðum innlendra og alþjóðlegra dómstóla í tilteknum málum sem varða börn. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur með almennum athugasemdum sínum einnig veitt leiðbeiningar um túlkun sáttmálans, en þær leiðbeiningar taka ýmist til tiltekinna réttinda, tiltekinna ákvæða sáttmálans eða tiltekinna hópa barna.
Nánar um Barnaréttarnefndina (nefnd um réttindi barnsins í Genf)
Gátlisti
- Hvaða gögn og upplýsingar þurfa að liggja fyrir þannig að unnt sé að leggja mat á það áhrif eru fyrirsjáanleg á réttindi barna?
- Hvaða gagnreyndu aðferðir geta nýst við framkvæmd matsins?
- Er hægt að byggja á niðurstöðum rannsókna og fyrirliggjandi tölfræðiupplýsingum?
- Hvaða lög, reglugerðir og aðrar reglur eiga við?
- Hvaða leiðbeiningar veitir Barnasáttmálinn?
Næsti kafli - Þátttaka barna