25. október 2024

Skólabyrjun og símareglur

Í lok ágúst var send könnun til allra grunnskóla þar sem spurt var um hvenær skóladagur hæfist og hvort reglur væru í skólanum um símanotkun nemenda. 

Búið er að taka saman niðurstöður könnunarinnar sem eru birtar hér fyrir neðan. Könnunin var send til allra grunnskóla á landinu, 174 talsins, og bárust svör frá 126 skólum. Svarhlutfallið var því 72,4%.

Upphaf skóladags

Mikið hefur verið rætt um byrjun skóladags og sérstaklega tengt svefni unglinga. Haustið 2024 hófst tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg um að seinka skólabyrjun hjá unglingum og hefst dagurinn nú kl. 8:50 í stað 8:20 áður.

Að öllu jöfnu hefja yngri nemendur skóladaginn sinn fyrr en þau sem eldri eru þó það muni ekki miklu. Í einhverjum tilvikum var skólabyrjun samræmd í skólum og átti það frekar við skóla utan höfuðborgarsvæðisins og getur það verið tilkomið vegna skólaaksturs.

Algeng skólabyrjun var í öllum tilvikum klukkan 8:10 og 8:30 á öllum skólastigum. Á unglingastigi var þó algengt að skólinn byrjaði síðar m.a. vegna tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar. 

Skolabyrjun-yngsta-stig

Skolabyrjun-midstig

Skolabyrjun-unglingastig

Reglur um símanotkun

Mikil umfjöllun hefur verið um símanotkun nemenda og símareglur í grunnskólum. Fjölmörg erindi hafa borist undanfarin ár til embættisins frá ýmsum aðilum varðandi rétt nemenda til símanotkunar og hvort kennurum sé heimilt að taka síma af nemendum eða setja sérstakar reglur um símanotkun. Í stuttu máli þá er skólum heimilt að setja reglur um símanotkun nemenda sem þeim ber að fara eftir. Það er þó lykilatriði að þær reglur sem gilda séu skýrar og kynntar nemendum þannig að þeir geti betur gert sér grein fyrir afleiðingum þess að skólareglur séu brotnar. Umboðsmaður barna hefur jafnframt lagt áherslu á að nemendur taki þátt í að semja reglur um símanotkun.

Þegar spurt var um hvort reglur væru í skólanum um símanotkun svöruðu allir því játandi. Þegar hins vegar var spurt um hvort að símar væru leyfðir í skólum svaraði tæpur helmingur því neitandi, flestir skólar leyfðu þó síma með takmörkunum. 

Eru-simar-leyfdir-i-thinum-skola

Þegar spurt var um hvort að nemendur hefðu komið að gerð símareglna í sínum skóla var það svo í 58% tilvika.

Komu-nemendur-ad-gerd-simareglnanna

Þegar spurt var um fyrir hvaða aldur símar væru leyfðir kom í ljós að lestir skólar eru með strangari reglur eða símabann fyrir nemendur í yngri bekkjum grunnskóla.

Fyrir-hvada-aldur-eru-simar-leyfdir

Í eldri bekkjum, frá 8. – 10. bekk er algengt að einhverjar takmarkanir séu á símanotkun nemenda. Þá er algengt að heimilt sé að koma með síma í skóla en notkun þeirra ekki leyfð á skólatíma, símarnir eiga þá að vera í töskunni eða í læstum skáp nemenda. Ef nemandi verður uppvís að því að nota síma í skólanum geta fylgt ákveðin viðurlög, t.d. sími tekinn af nemanda og geymdur hjá ritara, eftir endurtekin brot þá er fundur með forsjáraðilum.

Dæmi um takmarkanir á símanotkun...

 

Í könnuninni var hægt að koma með dæmi um þær takmarkanir sem voru á símanotkun nemenda ef við átti. Hér eru nokkur dæmi um slíkar takmarkanir.

  • Við lítum svo á að nemendur á yngsta og miðstigi hafi ekkert með að gera að vera með síma í skólanum. Þeir eru t.d. ekki með löglegan aldur til að vera á samfélagsmiðlum. Þeir nemendur mega vera með símann í töskunni á skólatíma ef þau eru að fara í íþróttir eða tómstundir strax eftir skóla.

  • Nemendur í 1. - 7. bekk mega nota síma á skólatíma, ef þeir eru með þá í töskunni þá þarf að vera slökkt á tækinu eða hljóð tekið af. Við erum að vinna með nemendum á unglingastigi að takmörkunum á samfélagsmiðlanotkun, þar með talið notkun símtækja.

  • Í [...] skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli sundlaugar og skóla telst til skólalóðar. Nemendur mega koma með síma í skólann og mega nemendur í 8-10 bekk vera með hann á sér fram að fyrstu kennslustund. Velji nemandi að taka farsíma með sér í skólann skal hann, ásamt fylgihlutum, geymdur í skólatösku, ekki í fatnaði/vösum eða á borði. Farsími skal stilltur á flugstillingu eða slökkt á hljóði og titring. Einstaka kennarar geta leyft símanotkun í sínum tímum vegna náms og er það bundið við kennslustofuna í þann tíma sem kennari ákveður svo. Nemendum er heimilt að nota spjald- og fartölvur í námi með samþykki kennara. Þá skulu nemendur tryggja að slík tæki séu ekki tengd samfélagsmiðlum í skólanum og ávallt geymd í kennslustofum á milli kennslustunda.

  • Símar eiga ekki að sjást í skólanum en við gerum undantekningar hjá unglingastigi þegar þau eru ekki í kennslustofum. Mega kíkja síma á miðrými þar sem félagsmiðstöð og matsalssvæði er.

  • Símar eru leyfðir í skólatöskum en aðeins má nota þá í samráði við starfsmenn.

  • Símar í 1. - 7. bekk eru ekki leyfðir í skólanum. Unglingastigsnemendur mega vera í símanum í félagsmiðstöðinni sem er innan skólans.

  • Símar eru leyfðir í frímínútum hjá 6. - 10. bekk og ef það er eitthvað sérstakt í gangi má nota símann með leyfi starfsmanna skólans.


Niðurstöður könnunarinnar bera það með sér að allir grunnskólar hafa sett sér einhverjar reglur um símanotkun, þær reglur geta t.d. verið að banna símanotkun alfarið eða leyfa hana með takmörkunum, sem er algengast. Nemendur komu að gerð reglnanna einungis í 58% tilvika og er það von umboðsmanns barna að nemendur taki ávallt þátt í því að endurskoða og semja slíkar reglur í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Það er réttur barna að vera höfð með í ráðum og skylda stjórnvalda að veita þeim raunverulegt tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica