6. maí 2016

Myndbirting í fjölmiðlum

Í gær birtu nokkrir fjölmiðlar myndband sem sýndi líkamsárás gegn barni. Ljóst er að um er að ræða alvarlegt mál, þar sem börn eiga í hlut. Þó að andlit barnanna hafi verið hulin má ætla að auðvelt geti verið að þekkja þau. Umboðsmaður barna gagnrýnir umrædda myndbirtingu og skorar á fjölmiðla að fjarlægja myndbandið af vefsíðum sínum.

Í gær birtu nokkrir fjölmiðlar myndband sem sýndi líkamsárás gegn barni. Ljóst er að um er að ræða alvarlegt mál, þar sem börn eiga í hlut. Þó að andlit barnanna hafi verið hulin má ætla að auðvelt geti verið að þekkja þau. Umboðsmaður barna gagnrýnir umrædda myndbirtingu og skorar á fjölmiðla að fjarlægja myndbandið af vefsíðum sínum. Umrætt mál virðist vera í réttum farvegi hjá lögreglu og barnavernd.

Umboðsmaður barna vill minna á að öll börn eiga rétt á sérstakri vernd, óháð því hvort þau hafa brotið af sér eða ekki.  Er því brýnt að fjölmiðlar sýni nærgætni og vandi vel til verka þegar þeir fjalla um málefni sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Þetta kemur m.a. fram í bréfi sem umboðsmaður sendi fjölmiðlum fyrir skömmu.

Fjölmiðlar eiga sjálfir að meta hvort myndbirting eða umfjöllun um einstök börn eða málefni þeirra sé í samræmi við hagsmuni barnanna. Að mati umboðsmanns barna dugar samþykki foreldra eitt og sér ekki sem réttlæting fyrir birtingu.

Þegar börn verða fyrir ofbeldi eða annars konar brotum er sérstaklega brýnt að veita þeim viðeigandi stuðning og aðstoð. Á sama tíma er mikilvægt að brugðist sé við hegðun þeirra barna sem brjóta af sér með uppbyggilegum hætti, sem er til þess fallinn að efla sjálfsmynd þeirra og draga úr líkunum á því að þau brjóti af sér aftur. 

 Hér á vef umboðsmanns barna er almenn umfjöllun um fjölmiðla og þær reglur sem um þá gilda


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica