Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Fjölmiðlar

Kaflar:

  1. Réttur til upplýsinga – réttur til verndar 
  2. Helstu lög og reglur um dagskrárefni í fjölmiðlum 
  3. Vernd gegn skaðlegu efni
  4. Umfjöllun fjölmiðla um börn 
  5. Áhrif fjölmiðla á börn 
  6. Auglýsingar og markaðssetning
  7. Netnotkun
  8. Ábyrgð þeirra fullorðnu
  9. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til upplýsinga – réttur til verndar 

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi og skoðanir fólks mótast að miklu leyti af þeim. Fjölmiðlar hafa mikil áhrif, bæði jákvæð og neikvæð. Fjölmiðlar, sérstaklega sjónvarp og netmiðlar sem miðla myndefni, geta víkkað sjóndeildarhring barna og spilað stórt hlutverk í menntun þeirra. Miklu skiptir því að dagskrárefni sé vandað og henti börnum og að börn fái sem mestan frið frá markaðsáreiti. Vegna þroska- og reynsluleysis eru börn áhrifagjarnari en þeir fullorðnu og því eru þau sérstaklega viðkvæm fyrir neikvæðum áhrifum fjölmiðla. Umfjöllunin hér að neðan miðast aðallega við dagskrárefni fjölmiðla. Hér á vef umboðsmanns barna er fjallað um auglýsingar og neytendavernd en hér á vef umboðsmanns barna er umfjöllun um netnotkun..

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til uppbyggjandi upplýsinga sem og rétt barna til verndar gegn skaðlegu efni. Í 17. grein Barnasáttmálans segir:

Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni: 
... 
e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess ...

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: "Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst”.

2. Helstu lög og reglur um dagskrárefni í fjölmiðlum 

Lög um fjölmiðla nr. 38/2011 gilda m.a. um dagblöð, tímarit ásamt fylgiritum þeirra, netmiðla, hljóð- og myndmiðla og aðra sambærilega miðla. 

Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 fjalla m.a. um framkvæmd mats og merkingar á kvikmyndum sem sýndar eru í fjölmiðlum.

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin annast eftirlit samkvæmt lögum þessum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Erindum vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga þessara skal beint tilfjölmiðlanefndar. Ákvörðunum fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

Talið er rétt að löggjafinn hafi afskipti af fjölmiðlaefni og sýningu, sölu og dreifingu kvikmynda til verndar velferð barna. Sú ritskoðun sem í því felst hefur reyndar á sumum sviðum lotið í lægra haldi fyrir tæknibreytingum undanfarinna ára, ekki síst í sjónvarpstækni og með tilkomu netsins. Því hefur ábyrgð foreldra aukist á því hvaða efni börn þeirra horfa á eða nota. Þeir sem bera ábyrgð á börnum er því bent að leita liðsinnis Fjölmiðlanefndar ef þeir telja fjölmiðla ekki starfa í samræmi við lög.

3. Vernd gegn skaðlegu efni

Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Í því felst að þeim ber að vernda börnin gegn skaðlegum upplýsingum frá hvers konar fjölmiðlum. Vert er að benda á 94. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar segir að foreldrum beri „eftir því sem í þeirra valdi er, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því."

Í 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 er kveðið á um vernd barna gegn skaðlegu efni:

Fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- og myndefni er óheimilt að miðla efni, þar á meðal hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni, sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. 

Frá bannákvæði 1. mgr. má gera eftirfarandi undantekningar: 

a. Eftir kl. 21 á kvöldin virka daga og eftir kl. 22 á kvöldin um helgar og til kl. 5 á morgnana er heimilt að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað. 

b. Heimilt er að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því gefnu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að útsendingin nái ekki til barna. 

c. Heimilt er að miðla hljóð- og myndmiðlunarefni eftir pöntun sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að tryggt sé með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að því. 

d. Heimilt er að miðla fréttum og fréttatengdu efni sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að það sé nauðsynlegur hluti af fréttaþjónustu viðkomandi fjölmiðils og að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað verði því við komið. 

Undantekningarákvæði a- og b-liðar 2. mgr. taka ekki til hljóð- og myndefnis sem getur haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. 

Aðrar fjölmiðlaveitur skulu kappkosta að efni sem haft getur skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna sé þeim hvorki aðgengilegt né því miðlað til þeirra.

Um þessa grein segir m.a. í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga um fjölmiðla:

Ekki er unnt að skilgreina með tæmandi hætti hvaða efni fellur undir bannreglu 1. mgr. Vísað er til efnis sem getur haft skaðvænleg áhrif á þroska barna í víðtækasta skilningi og er efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi sérstaklega nefnt í því sambandi. Þær tilvísanir leysa þó ekki vandann því hvorki klám né tilefnislaust ofbeldi eru einsleit hugtök að merkingu. 
Til fyllingar má þó segja að meginregla 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar nái til efnis sem vegna inntaks, efnistaka eða siðferðisboðskapar getur vegna orðfæris eða athafna ógnað velferð barna. Við mat á þessu hlýtur jafnframt að verða horft til viðmiða í öðrum lögum sem með sama hætti er sérstaklega ætlað að vernda hagsmuni barna að þessu leyti, svo sem laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006. Við alla reglusetningu af þessu tagi er þó nauðsynlegt að gæta þess að eðlilegt jafnvægi ríki á milli þeirra ráðstafana sem gerðar eru til að vernda líkamlegan, andlegan og siðferðilegan þroska barna annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar.

Umboðsmaður vill benda á að rétt sé að snúa sér til fjölmiðlanna (útvarps- og/eða sjónvarpsstöðvanna) sjálfra með athugasemdir við dagskrárefni. Ef einhver verður þess var að dagskrárefni hafi misboðið fólki – og þá sérstaklega börnum – eða hefur á einhvern hátt ýtt undir slæma eða hættulega hegðun er nauðsynlegt að fjölmiðillinn fái vitneskju um það. Ef þættir sem ofbjóða fólki eru styrktir eða kostaðir af fyrirtæki eða stofnun telur umboðsmaður einnig sjálfsagt að sá aðili fái vitneskju um áhrifin sem viðkomandi þættir hafa á áhorfendur/hlustendur.

Með lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 lagðist kvikmyndaskoðun af hálfu ríkisvaldsins, eins og hún var lengi framkvæmd hér á landi, niður. Bannað er að sýna ungmennum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og -tölvuleiki eða kvikmyndir og tölvuleiki sem ógna velferð barna, skv. 2. gr. laganna. Bönnuð er sala og önnur dreifing á slíku efni til barna undir lögræðisaldri þó þannig að allar kvikmyndir má hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa 14 ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða forsjáraðila. 

Skylt er að meta eða láta meta allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðir eru til sýningar eða notkunar fyrir börn undir lögræðisaldri. Skylt er að láta þess getið alls staðar, þar sem það á við, ef kvikmynd eða tölvuleikur telst vera ofbeldiskvikmynd eða -tölvuleikur eða kvikmynd eða tölvuleikur telst ógna velferð barna. 

Í athugasemd við 1. gr. frumvarps til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum segir að kvikmyndir í sjónvarpi, framleiddir sjónvarpsþættir og sjónvarpsmyndir fallir undir gildissvið laganna:

Samkvæmt skilgreiningunni falla kvikmyndir undir gildissvið laganna, hvort sem þær eru sýndar í kvikmyndahúsi eða öðrum opinberum stöðum, gefnar úr á myndbandi eða sýndar í sjónvarpi. Framleiddir sjónvarpsþættir og sjónvarpsmyndir falla jafnframt undir skilgreininguna. Til þessa telst m.a. svonefnt raunveruleikasjónvarp, þar sem fylgst er með þátttakendum leiks og viðbrögðum þeirra við óvæntum atburðum. Annað efni í sjónvarpi, þ.e. fréttir og fræðsluefni og aðrir þættir fyrir sjónvarp, falla utan matsskyldu laganna

Ábyrgðaraðilar samkvæmt lögunum eru þeir sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða notkunar hér á landi, hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða notkunar hér á landi, hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni, eftir því sem við á í hverju tilviki. Ábyrgðaraðilarnir bera ábyrgð á framkvæmd laganna undir eftirliti fjölmiðlanefndar og lögreglu. Þeim ber m.a. að setja sér verklagsreglur sem taka til mats á kvikmyndum og tölvuleikjum að fyrirmynd viðurkenndra erlendra skoðunarkerfa.

Á vefnum www.kvikmyndaskodun.is er hægt að kynna sér flokkunarkerfið sem notað er við mat á kvikmyndum og sjónvarpsefni og skoða myndir og þætti í sýningu á Íslandi.

4. Umfjöllun fjölmiðla um börn 

Engar opinberar reglur fjalla sérstaklega um það hvernig skuli fjalla um börn og málefni þeirra í fjölmiðlum. Þegar verið er að fjalla um börn með einum eða öðrum hætti þarf þó ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum, t.d. 17. gr. Barnasáttmálans. Er því mikilvægt að börn njóti sérstakrar verndar þar sem þau fá oft ekkert um það að segja hvort fjallað sé um persónuleg málefni þeirra á opinberum vettvangi eða ekki. Margt vandað er að finna í umfjöllun fjölmiðla en umboðsmaður barna telur þó að í einhverjum tilfellum hugi fjölmiðlar ekki nægilega vel að vernd barna þegar fjallað er um þau í fjölmiðlum.

Dæmi um erindi er þegar foreldrar tjá sig um börn sín í fjölmiðlum en opinská umfjöllun um viðkvæm málefni barna getur valdið þeim vanlíðan og haft slæm áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þegar fjallað er um börn eða unglinga á meiðandi hátt getur það augljóslega haft mjög slæm áhrif á sjálfsmynd og velferð þeirra. Sem dæmi um umfjöllun sem er til þess fallin að skaða velferð barna eru viðkvæmar upplýsingar sem hægt er að rekja til einstakra barna, svo sem í þeim tilvikum sem börn eru brotaþolar. Sérstaklega mikil ábyrgð hvílir á fjölmiðlum þegar þeir fjalla um börn sem hafa brotið af sér, enda er talið að neikvæð umfjöllun geti haft alvarlegar afleiðingar á sjálfmynd þeirra. 

Umboðsmaður barna vill minna á að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að ákvæðið geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef það þykir nauðsynlegt til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Þegar umfjöllun um börn er birt þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Mikilvægt er að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hagi störfum sínum samkvæmt því.

Í samræmi við ofangreind sjónarmið telur umboðsmaður barna að fjölmiðlar eigi ávallt að meta sjálfstætt hvort umfjöllun sé í samræmi við réttindi og hagsmuni barna, óháð samþykki foreldra.

Hér má nálgast viðmið sem nýst geta fjölmiðlum og öðrum þegar þeir fjalla opinberlega um málefni sem snúa að börnum eða tengjast þeim á einhvern hátt. Viðmiðin eru gefin út af umboðsmanni barna, Fjölmiðlanefnd, Unicef, Barnaheil - Save the children á Íslandi, SAFT og Heimili og skóla. 

5. Áhrif fjölmiðla á börn

Áhrif fjölmiðla á börn og unglinga eru mikil þar sem fjölmiðlar geta haft sterk áhrif á mótun gildismats og hegðunar. Í gegnum fjölmiðla fá börn aðgang að fróðleik og skemmtun en einnig að ýmsu efni sem þau hafa ekki alltaf þroska til að meðtaka. Ofbeldi, kynferðismál, einhliða myndir af kynþáttum og kynjum, misnotkun á áfengi og eiturlyfjum eru algeng umfjöllunarefni í fjölmiðlaefni. Áhrifagjarnt ungt fólk getur dregið þær ályktanir að það sem það sér í sjónvarpinu sé dæmigert og viðunandi, jafnvel ákjósanlegt. Af því leiðir að fjölmiðlar geta hvatt til hegðunar og viðhorfa sem geta verið óæskileg og neikvæð. Ung börn eiga mun erfiðar en fullorðnir með að meðtaka hið hraða upplýsingaflæði sjónvarpsins og hafa ýmsir fagmenn mælt gegn sjónvarpsáhorfi barna yngri en þriggja ára. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að tengsl séu milli sjónvarpsáhorfs barna og námsgetu þeirra, líkamsástands og ofbeldishegðunar.

6. Auglýsingar og markaðssetning

Markaðssetning, er beinist að börnum og unglingum, hefur færst í vöxt á síðustu árum. Sífellt er leitað nýrra leiða til að ná til unga fólksins og eru óbeinar auglýsingar og dulbúin markaðssetning nú orðið daglegt brauð í fjölmiðlum.  Nánar er fjallað um auglýsingar og markaðssetningu gagnvart börnum hér á vef umboðsmanns barna.

7. Netnotkun

Netnotkun eru hluti af daglegu lífi flestra íslenskra barna og ungmenna. Þrátt fyrir að kostirnir við tæknina séu ótal margir er einnig ýmislegt sem mikilvægt er að huga að. Nánar er fjallað um netnotkun hér á vef umboðsmanns barna.

8. Ábyrgð þeirra fullorðnu 

Umboðsmaður barna hvetur alla til að vera vakandi fyrir því efni sem börn og unglingar sjá og heyra. Sjónvarpið og netið eru dæmi um mjög áhrifaríka miðla. Sífellt fleiri börn eru komin með eigin snjallsíma, sjónvarp og tölvu sem gerir eftirlit foreldra erfiðara. Allt sem börn heyra og sjá hefur áhrif á þroska þeirra. Því yngri sem börnin eru því meiri eru áhrifin. Ákveðinn hópur barna og ungmenna býr því miður við þær aðstæður að margir neikvæðir þættir eru til staðar í tilveru þeirra. Þessi börn þurfa á sérstakri vernd að halda.

Með góðri handleiðslu geta börn lært að nýta sér fjölmiðla á heilbrigðan og jákvæðan hátt. Foreldrar og uppalendur ættu að velja dagskrárefni sem á við þroska barnsins, horfa með þeim á það, ræða um efnið og benda á jákvæða hegðun eins og samvinnu, vináttu, og samúð með öðrum. Það er sjálfsagt að neita börnunum um að sjá þætti sem vitað er að innihalda ofbeldi eða ósiðlegt efni, skipta um stöð eða slökkva á sjónvarpinu þegar þess er þörf og útskýra hvers vegna viðkomandi efni er ekki gott fyrir barnið. 

Foreldrar bera auðvitað fyrst og fremst ábyrgð á velferð barna sinna en nauðsynlegt er að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða unga fólkinu upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu. Fjölmiðlarnir sjálfir, útgefendur, framleiðendur og dreifingaraðilar efnis bera mikla ábyrgð en þó er mikilvægt að almenningur láti í sér heyra þegar siðferðisvitund hans er nóg boðið, t.d. með því að hafa samband við Fjölmiðlanefnd eða fjölmiðilinn sjálfan.

Menntakerfið hefur líka ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að fjölmiðlalæsi. Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011 er fjallað um grunnþætti menntunar sem fléttast eiga inn í allt skólastarf. Einn af sex grunnþáttum er læsi. Í umfjöllun um læsi segir m.a.:

Hugtakið miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Markmiðið er að þeir læri að leggja mat á miðlað efni en fái einnig þjálfun í að nota ýmsa miðla við efnisgerð og þekkingarsköpun. Orðið miðlalæsi er haft um þá færni og kunnáttu sem þeir öðlast við það nám sem í þessu felst.

9. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Fjölmiðlanefnd
Fjölmiðlanefnd tekur við ábendingum um hugsanleg brot á fjölmiðlalögum og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Sjá nánar á www.fjolmidlanefnd.is

Neytendastofa
Neytendastofa tekur við ábendingum um hugsanleg brot á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005. Sjá nánar á www.neytendastofa.is

Vísindavefurinn
Á www.visindavefur.is er að finna nokkrar spurningar og svör um áhrif fjölmiðla á börn, t.d. "
Hafa sjónvarp, tónlistarmyndbönd og tónlist, slæm áhrif á börn og unglinga?"

SAFT
SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Nánar á www.saft.is


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.