7. apríl 2011

Áhrif ofbeldis á ákvarðanir um forsjá og umgengni

Vegna umræðu um aðstæður barna sem verða með beinum eða óbeinum hætti fyrir ofbeldi af hendi einhvers nákomins vill umboðsmaður barna benda á að í nýlegri skýrslu embættisins til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans, var bent á að brýnt sé að auka vernd barna gegn ofbeldi þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá og umgengni.

Vegna umræðu um aðstæður barna sem verða með beinum eða óbeinum hætti fyrir ofbeldi af hendi einhvers nákomins vill umboðsmaður barna benda á að í nýlegri skýrslu embættisins til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans, var bent á að brýnt sé að auka vernd barna gegn ofbeldi þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá og umgengni. Á það við um allt ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt, óháð því hvort því er beint að barninu sjálfu eða einhverjum nákomnum.

Umboðsmaður telur óumdeilt að ofbeldi ætti að hafa mun meira vægi þegar teknar eru svo afdrifaríkar ákvarðanir um aðstæður barna. Einnig ætti vilji barna að ráða meiru um niðurstöður mála sem varða þau beint.

Í skýrslu umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndarinnar í Genf segir á bls. 8-9:

Þegar tekin er ákvörðun um umgengni barns skal það sem er barni fyrir bestu ávallt hafa forgang, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 47. gr. barnalaga. Þrátt fyrir þetta virðast ákvarðanir í umgengnismálum á Íslandi oft ganga fremur út frá réttindum foreldris en barns. Sem dæmi um slíkt má nefna að það er nánast ávallt kveðið á um að umgengni skuli fara fram þó að barn vilji það alls ekki og hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldris. Raunin er því sú að umgengnisréttur er mjög foreldramiðaður og ekki er nægilega metið í hverju tilviki fyrir sig hvað sé viðkomandi barni fyrir bestu. Einnig virðist oft ekki nægilega tekið tillit til þess hver vilji barnsins er í umræddum málum.

...

Áhrif ofbeldis við ákvarðanir um forsjá og umgengni
Heimilisofbeldi hefur langvarandi og alvarleg áhrif á þroska og líðan barna, hvort sem það beinist að þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Þegar ofbeldi hefur átt sér stað innan veggja heimilisins heldur það oftar en ekki áfram þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit foreldra, auk þess sem líkurnar á því að ofbeldismaðurinn beini ofbeldinu að barninu aukast töluvert við slíkar aðstæður. Er því mikilvægt að huga sérstaklega að vernd barna gegn heimilisofbeldi þegar metið er hvaða tilhögun forsjár sé barni fyrir bestu hverju sinni. Í barnalögum nr. 76/2003 er ekki kveðið á um hvaða vægi heimilisofbeldi skuli hafa þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns. Við rannsókn sem var gerð á dómum í forsjármálum kom í ljós að heimilisofbeldi hefur takmarkað vægi við mat á forsjárhæfni foreldris. Slíkar niðurstöður endurspegla ákveðna vanþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis og þeirri hættu sem skapast þegar ofbeldismanni er fengin forsjá barns.

Með sama hætti hefur heimilisofbeldi almennt takmörkuð áhrif við mat á umgengni barns við foreldri. Eins og að framan greinir eru mörg dæmi um að kveðið sé á um að barn eigi að fara í reglubundna umgengni til foreldris, jafnvel þó það eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. Af réttarframkvæmdinni má því draga þá ályktun að litið sé á það sem nánast afdráttarlausa meginreglu að umgengni sé barni fyrir bestu, óháð hegðun eða aðstæðum umgengnisforeldris.

Með hliðsjón af því hversu lítil áhrif heimilisofbeldi hefur þegar tekin er ákvörðun um forsjá og umgengnisrétt barns má draga í efa að börnum sé tryggð fullnægjandi vernd gegn ofbeldi í íslenskri réttarframkvæmd að þessu leyti.

Í haust mun umboðsmaður fara fyrir Barnaréttarnefndina í Genf og ræða efni skýrslu sinnar.

Einnig er fjallað um áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir um umgengni og forsjá á bls. 10 í skýrslu umboðsmanns barna um árið 2009.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica