Hvað er kórónuveira?

Í lok desember 2019 fóru að koma upp alvarlegar lungnasýkingar í borginni Wuhan í Kína. Eftir sýnatökur kom í ljós að um var að ræða óþekkt afbrigði kórónuveirunnar og fékk hún heitið COVID-19, við þekkjum hana undir nafninu kórónuveiran á Íslandi.

Kórónuveiran getur borist á milli manna með handabandi og faðmlagi. 

 

Veiran getur lifað lengi á járni, plasti og í kulda, þess vegna er mikilvægt að þrífa síma, tölvur og sameiginlega snertifleti reglulega með sótthreinsandi efnum.

Kórónuveiran veldur sýkingu í öndunarvegi.

 Teikning af veiru

 Einkenni kórónuveirunnar eru meðal annars hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Í einhverjum tilfellum hefur fólk fengið kviðverki, ógleði eða niðurgang. 

Kórónuveiran getur einnig valdið alvarlegum veikindum, svo sem með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu. Ekki er til neitt bóluefni gegn kórónuveirunni og ekki er vitað um nein lyf sem geta unnið bug á henni. Meðferð við sýkingu felst í því að meðhöndla einkenni þeirra sem veikjast. Kórónuveiran er mjög smitandi og hafa fjölmargir smitast út um allan heim. 

Íslensk stjórnvöld, læknar og lögreglan vinna saman að því að tryggja að sem fæstir smitist af kórónuveirunni hér á landi.

Að auki eru þessir aðilar að passa að þeir sem að smitast af veirunni fái góða læknisaðstoð svo að þeim batni. Það er meiri hætta á því að þeir sem eru aldraðir eða fólk sem er með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma verði alvarlega veikt af veirunni. Þrátt fyrir það þarf að fylgjast vel með öllum þeim sem smitast. Langflestir jafna sig hratt og margir verða lítið veikir. Allir þeir sem verða veikir af veirunni þurfa að passa sig á því að smita ekki aðra.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit?

Það besta sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir smit er að huga að almennu hreinlæti, þ.e. þvo hendurnar reglulega með bæði vatni og sápu og nota handspritt eftir handþvott. Eins og flestir vita þarf maður að passa að þvo sér um hendurnar eftir hverja klósettferð og þegar hendurnar á manni verða skítugar. Ef maður hefur ekki aðgang að vaski er ráðlagt að nota handspritt í staðinn. Mikilvægt er að umgangast ekki einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni. Notkun á grímum virkar best þegar þeir sem eru veikir nota þær til þess að koma í veg fyrir að smita aðra. Landlæknir mælir ekki sérstaklega með því að fólk noti hanska að staðaldri og hefur tekið fram að það sé betra að þvo sér reglulega um hendurnar. Landlæknir hefur gefið út ganglegar leiðbeiningar um það hvernig á að þvo sér um hendurnar.

Sóttkví og einangrun

Sóttkví er notað þegar einstaklingur hefur mögulega smitast en er ekki með nein einkenni. Þeir einstaklingar sem hafa verið erlendis eða hafa umgengist einhvern sem er smitaður af kórónuveirunni, þurfa að fara í sóttkví. Stundum þurfa allir á sama heimili að fara saman í sóttkví. Ef einn einstaklingur á heimilinu er í sóttkví en aðrir ekki, þarf að takmarka umgengni og snertingu við hann. Ef sá sem er í sóttkví veikist af kórónuveirunni fer hann í einangrun en þeir sem búa með honum þurfa þá að fara í sóttkví.

Börn sem eiga tvö heimili eiga ekki að fara á milli heimila ef einhver á öðru heimilinu er í sóttkví.

Börn sem eiga tvö heimili og fara á milli heimila eiga ekki að gera það á meðan þau eða einhver á heimilinu sem þau eru á er í sóttkví. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að smit dreifist á milli heimila.

Þeir einstaklingar sem eru með staðfest eða grunað kórónuveirusmit, en þurfa ekki að dvelja á sjúkrahúsi af völdum hennar, fara í einangrun. Þá er einstaklingur í einangrun í heimahúsi eða þá á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina. Á meðan einstaklingur er í einangrun er hann í daglegum samskiptum við starfsfólk heilsugæslunnar sem hann tilheyrir. Það er best að einstaklingur með staðfest smit sé einn í einangrun, aðrir á heimilinu geta þó verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki vera annarsstaðar. Ef að fleiri en einn greinast með smit mega þeir dvelja saman í einangrun.

Einstaklingur sem er í sóttkví eða einangrun má ekki fara út af heimili sínu nema hann nauðsynlega þurfi þess, þá til þess að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, að höfðu samráði við heilsugæslu. Þeir sem eru í sóttkví eða einangrun mega ekki nota almenningssamgöngur, mæta í skólann eða í vinnuna, fara út í búð eða apótek og þeir mega ekki taka á móti gestum. Það má hins vegar fara út á svalir eða út í garð til þess að fá sér frískt loft, það þarf að passa að vera tvo metra frá næsta manni hér eins og alls staðar annarsstaðar.

Það getur verið erfitt að mega ekki hitta vini og ættingja, mæta í vinnu eða skóla. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er sem betur fer bara tímabil sem gengur yfir og tekur enda.

Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning varðandi einangrun og sóttkví í heimahúsi.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica