Bið barna eftir þjónustu

Samanburður á milli ára

  • Kelly-sikkema-Npj_sWuRw68-unsplash

BIÐ BARNA EFTIR ÞJÓNUSTU

Eitt af lögbundnum hlutverkum umboðsmanns barna er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Umboðsmaður barna safnar og birtir upplýsingar um bið barna eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum á sex mánaða fresti. Upplýsingunum var fyrst safnað í árslok 2021. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóli Barnaspítalans og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna varpi ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að innleiðingu Barnasáttmálans.

Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og ber aðildarríkjum sáttmálans að kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Íslenska ríkinu ber jafnframt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska, sbr. 6. gr. Barnasáttmálans.

Ekkert ákvæði Barnasáttmálans er rétthærra en annað og öll þau réttindi sem þar er kveðið á um eru jafn mikilvæg. Barnaréttarnefndin hefur hins vegar skilgreint 2., 3., 6. og 12 grein. sem meginreglur Barnasáttmálans sem leggja þurfi til grundvallar við túlkun annarra ákvæða hans.

2. gr. Barnasáttmálans – Jafnræði og bann við mismunun

Öllum börnum innan lögsögu aðildarríkis skulu tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum, án mismununar af nokkru tagi. Öll börn eiga rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og koma þarf í veg fyrir að börnum sé mismunað þannig að þau njóti ekki þessara réttinda til jafns við önnur börn.

3. gr. Barnasáttmálans – Það sem er barni fyrir bestu

Ávallt skal taka mið af því sem er barni fyrir bestu þegar yfirvöld taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem varða börn. Þessi meginregla á að vera útgangspunktur allra ákvarðana sem tengjast heilsuvernd barna, hvort sem um er að ræða einstakt barn eða hóp barna.

6. gr. Barnasáttmálans – Réttur til lífs og þroska

Öll börn eiga rétt til lífs og þroska. Túlka ber hugtakið þroski í sinni víðustu merkingu sem heildrænt hugtak. Í því felst að barn á rétt á að ná líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska.

12. gr. Barnasáttmálans – Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif

Tryggja ber barni rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar, og taka skal réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska. Börn eiga þannig alltaf að fá að tjá sig um atriði er tengjast heilsuvernd þeirra, svo sem heilbrigðisþjónustu, hvort umrædd þjónusta nýtist þeim og hvernig hægt sé að bæta hana.

Geðheilbrigði

Barnaréttarnefndin hefur endurtekið lýst yfir áhyggjum vegna stöðu geðheilbrigðismála hjá börnum á Íslandi. Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar frá 2011, vegna 3. og 4. skýrslu Íslands, lýsti nefndin yfir áhyggjum af löngum biðlistum eftir geðheilbrigðisþjónustu og beindi því til Íslands að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. Sambærilegar athugasemdir komu fram í lokaathugasemdum nefndarinnar árið 2022 vegna 5. og 6. skýrslu Íslands. Þar kom fram að nefndin hafi áhyggjur af löngum biðlistum barna sem leita eftir geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og beindi nefndin því til ríkisins að styrkja geðheilbrigðisþjónustu og áætlanir fyrir börn, þ.á.m. með því að bæta samhæfingu milli sveitarfélaga og viðeigandi ráðuneyta, þ.m.t. félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins, í því skyni að veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum skólastigum. Þá þurfi jafnframt að tryggja að fjöldi menntaðra heilbrigðisstarfsmanna, þ.m.t. barnasálfræðinga og geðlækna, sé nægur til þess að mæta geðheilbrigðisþörfum barna tímanlega.

Börn og ungmenni hafa sjálf kallað eftir því að úrbætur verði gerðar á geðheilbrigðsþjónustu barna. Á barnaþingi árið 2019 og 2022 lögðu barnaþingmenn m.a. áherslu á að börn eigi að hafa greiðan aðgang að sálfræðingum og mikilvægi þess að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu þeirra.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Markmið laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er m.a. að skapa aðstæður til þess að hægt sé að bregðast fyrr við þörfum barna fyrir stuðning. Í greinargerð laganna er töluvert fjallað um mikilvægi snemmtæks stuðnings m.a. til þess að hægt sé að fyrirbyggja að vandi barna verði umfangsmeiri. Það er ljóst að ef lög um samþætta þjónustu á að geta náð markmiðum er snúa að snemmtækum stuðningi þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu, en það er nú þegar ein helsta fyrirstaða þess að börn fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda þegar þörf eftir slíkum stuðningi skapast.

Fjármálaáætlun 2023 – 2027 / 2024 – 2028

Í umfjöllun um stuðning við börn í fjármálaáætlun 2023 – 2027 er vísað til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé kveðið á um að tryggja þurfi að börn og barnafjölskyldur fái nauðsynlega þjónustu innan tiltekins ásættanlegs biðtíma. Bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum geti haft veruleg áhrif á farsæld barns og velsæld fjölskyldu. Í áætluninni er sett það viðmið að mesti biðtími 2-6 ára barna eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð verði 16 mánuðir árið 2023 og 12 mánuðir árið 2027. Í fjármálaáætlun 2024 – 2028 er sett það markmið að bið eftir slíkri greiningu verði 17 mánuðir árið 2024 og 12 mánuðir árið 2028. Einnig eru sett viðmið varðandi biðtíma eftir þjónustu Barnahúss. Þar er viðmiðið fjórir mánuðir fyrir árið 2024 og 2 mánuðir fyrir 2028. Í fjármálaáætlun eru ekki sett viðmið fyrir aðra þjónustu sem börn bíða eftir.

Samanburður á bið barna eftir þjónustu milli ára

Heilsuskóli Barnaspítalans

Heilsuskóli Barnaspítalans hefur starfað frá árinu 2011. Heilsuskólinn þjónar öllu landinu og aðstoðar börn sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI og börn sem hafa þyngst mikið á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.

Umboðsmaður barna birti fyrst upplýsingar frá Heilsuskólanum í ágúst 2022. Þá biðu 110 börn eftir þjónustu Heilsuskólans, meðalbiðtími var 17 mánuðir og höfðu 100 börn beðið lengur en 3 mánuði. Í febrúar 2024 biðu 120 börn, meðalbiðtími var 14,7 mánuður og 89 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Heilsuskolinn

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Umboðsmaður barna birti fyrst upplýsingar um biðtíma barna eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Hafnafjörður, Garðabær og Seltjarnarnes) í ágúst 2022. Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf.

Salfraedingar-heilsugaeslan

Í ágúst 2022 biðu 618 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðalbiðtími var 168 dagar og 486 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í febrúar 2023 biðu 547 börn, meðalbiðtími var 206 dagar og höfðu 353 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðalbiðtími var 210 dagar og höfðu 305 börn beðið lengur en 90 daga. Það biðu 282 börn í febrúar 2024, meðalbiðtími var 106 dagar og 150 börn höfðu beðið legur en 3 mánuði.

Þeim börnum sem bíða eftir því að komast að hjá sálfræðingi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað frá því umboðsmaður safnaði fyrst upplýsingum frá heilsugæslunni í ágúst 2022, þá biðu 618 börn en í febrúar 2024 biðu 282 börn eftir að komast að hjá heilsugæslunni.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Umboðsmaður barna hefur birt upplýsingar frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu frá því í desember 2021. Annars vegar eru birtar upplýsingar um mál sem stofnað hefur verið til á grundvelli barnalaga eða hjúskaparlaga og bíða meðferðar. Börn eru ekki aðilar þessara mála í skilningi stjórnsýslunnar, en málin varða hagsmuni þeirra. Hér er m.a. um að ræða erindi foreldra um framfærslu barna, umgengni, sambúðarslit, skilnað, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferðir. Við meðferð slíkra mála kann að reyna á sáttameðferð, ráðgjöf og fleiri úrræði samkvæmt barnalögum. Þá eru einnig meðhöndluð mál sem varða hagsmuni barna á grundvelli ættleiðingarlaga og lögræðislaga.

Hins vegar er um að ræða mál þar sem börn bíða eftir þjónustu á grundvelli 33. gr. b, 46. gr. b, eða 73. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 46. gr. b, barnalaga ber sýslumanni að bregðast við ef barn missir foreldri sitt. Ber sýslumanni að kanna tengsl barns við vandamenn, veita barni og forsjáraðila tækifæri til að mæta á fund sýslumanns og veita leiðbeiningar um umgengnisrétt. Ákvæði þetta kom inn í barnalög með l. 50/2019 en ekki fylgdi fjármagn með verkefninu. Í reglugerð nr. 1450/2021, sem tók gildi 1. janúar 2022, voru settar reglur um framkvæmd þjónustunnar. Samkvæmt 74. gr. barnalaga getur sýslumaður óskað eftir því við sérfræðing að taka viðtal við barn og gera um það skýrslu. Það skal tekið fram að hér er um að ræða mál alls landsins. Samkvæmt 33. gr. b barnalaga getur barn óskað þess að sýslumaður bjóði foreldrum samtal um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis búsetu og umgengni.

Smh-barnalaga-hjuskaparlaga

Í desember 2021 biðu 26 mál meðferðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga. Í september 2022 hafði þessum málum fjölgað töluvert en þá biðu 244 mál, í febrúar 2023 voru málin 175, í ágúst 2023 voru þau 265 og í febrúar 2024 voru þetta 442 mál. Meðalbiðtími þessara mála hefur lengst, hann var hálfur mánuður í desember 2021 og september 2022 en 3,5 mánuðir í febrúar 2023 og ágúst 2023. Í febrúar 2024 var meðalbiðtími 4,5 mánuðir

Fjöldi mála þar sem börn eiga í hlut og beðið var sáttameðferðar hjá sýslumönnum á öllu landinu hefur tekið nokkrum breytingum frá því í desember 2021. Þá biðu 96 mál meðferðar, í september 2022 voru málin 6, í febrúar 2023 voru þau 58, 102 í ágúst 2023 og 108 í febrúar 2024.

Sattamedferd-allir-syslumenn

Langur biðtími hefur verið eftir afgreiðslu mála hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem varða umgengni, forsjá og lögheimili barns. Árið 2018 gerði umboðsmaður barna athugasemd við þennan langa biðtíma. Í erindi umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins kom fram að umboðsmaður hafi fengið fjölda ábendinga frá einstaklingum sem séu aðilar að málum sem bíði úrskurðar sýslumanns og hafi lýst yfir áhyggjum vegna stöðunnar. Í erindi sínu áréttaði umboðsmaður að langur biðtími geti valdið þeim börnum sem í hlut eiga mikilli vanlíðan og kvíða en einnig geti það orðið til þess að ágreiningur milli foreldra vaxi og málin verði þannig erfiðari úrlausnar þegar þau koma loks til meðferðar. Þá sé einnig ljóst að langur biðtími auki álag á starfsfólk sýslumannsembætta sem sinni mikilvægum verkefnum í þágu fjölskyldna í viðkvæmri stöðu. Umboðsmaður barna skoraði á dómsmálaráðherra að grípa til tafarlausra aðgerða í því skyni að stytta þann langa biðtíma sem hafði myndast hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og setja þannig hagsmuni barna í forgang.

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar til Íslands vegna 5. og 6. skýrslu Íslands um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 2022 kom fram að nefndin hafi áhyggjur af því að langir biðlistar séu eftir ýmissi þjónustu sem tefji aðgang að viðhlítandi stuðningi. Nefndin lýsti sérstaklega yfir áhyggjum af löngum biðtíma að því er varðar meðferð skilnaðar- og forsjármála. Í lokaathugasemdunum mælist nefndin til þess að Ísland tryggi að forsjármál og önnur fjölskyldumál fái skjóta meðferð, m.a. með því að auka fjölda starfsmanna sem hafa fengið faglega starfsþjálfun og tryggi að bæði foreldrar og börn fái nægilega ráðgjöf og annan stuðning.

Geðheilsumiðstöð barna

Geðheilsumiðstöð barna veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.

Þeim börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021 en þá biðu 738 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar. Í febrúar 2024 biðu hins vegar 1636 börn, þar af höfðu 1220 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

GMB-heildarfjoldi-a-bidlista

Ráðgjafar- og greiningarstöð

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Í desember 2021 biðu 226 börn eftir þverfaglegri greiningu á sviði yngri barna (0-6 ára) og 100 á sviði eldri barna (6-18 ára). Meðalbiðtími var 19 mánuðir fyrir yngri hópinn og 12 – 14 mánuðir fyrir eldri hópinn. Í febrúar 2024 biðu 330 börn á á sviði yngri barna og meðalbiðtími var 20 mánuðir, 288 börn höfði beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 235 börn á sviði eldri barna og var meðalbiðtími í þeim aldurshópi 20 mánuðir en 209 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Heildarfjöldi barna sem biðu eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð fjölgaði úr 326 börnum í desember 2021 yfir í 565 börn í febrúar 2024.

Barna og unglingageðdeild LSH

Göngudeild barna- og unglingageðdeildar (BUGL) veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri þjónustu vegna geð- og þroskaraskana.

Börnum sem bíða eftir þjónustu hjá BUGL hefur fækkað frá því tölum var fyrst safnað af umboðsmanni barna í desember 2021 þá biðu 133 börn og var meðalbiðtími frá 5,3 upp í 11,1 mánuð, 95 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í lok janúar 2024 biðu 22 börn, meðalbiðtími var 1,26 mánuður og hafði 1 barn beðið lengur en þrjá mánuði.

BUGL-heildarfjoldi-barna-a-bid_1708861635103

Barna- og fjölskyldustofa (áður Barnaverndarstofa)

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Í febrúar 2024 beið 31 barn eftir þjónustu MST teymis, meðalbiðtími var 61 dagur og þá höfðu 8 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Töluverð aukning hefur orðið á fjölda þeirra barna sem bíða eftir þjónustu MST frá því upplýsingum var fyrst safnað í desember 2021. Þá biðu 13 börn eftir því að komast að hjá MST en meðalbiðtími var 76 dagar.

Stuðlar eru meðferðarstöð fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, Stuðlar skiptast í þrjár deildir, neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold. Í febrúar 2024 biðu 7 börn eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla, meðalbiðtími var 66 dagar. Í desember 2021 biðu 7 börn og meðalbiðtími var 49,25 dagar.

Bjargey er langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu sem er ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er einkum að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika og vímuefnaneyslu. Í febrúar 2024 beið eitt barn eftir plássi á Bjargey og meðalbiðtími var 57 dagar.

Styrkt fóstur er þegar þörf er fyrir sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við íþyngjandi tilfinninga- og hegðunarvanda að etja sem ekki hefur tekist að vinna bug á með öðrum og vægari hætti. Í febrúar 2024 biðu tvö börn eftir því að komast í styrkt fóstur og meðalbiðtími var 15 dagar. Í desember 2021 biðu sjö börn og meðalbiðtími var 40,63 dagar.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í febrúar 2024 biðu 7 börn eftir meðferð í Barnahúsi. Þau brot sem börnin hafa orðið fyrir eru flokkuð eftir alvarleika í flokka 1 og 2, styttri bið var fyrir börn sem höfðu orðið fyrir broti sem fellur undir flokk 1. Meðalbiðtími í flokki 1 var 27 dagar og 47 dagar í flokki 2. Í desember 2021 biðu 38 börn eftir meðferð í Barnahúsi, meðalbiðtími var 49 dagar í flokki 1 og 67 dagar í flokki 2.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Í lok janúar sl. biðu 797 börn eftir þjónustu hjá Heyrnar- og talmeinastöð. Þessi börn bíða nær öll eftir heyrnarmælingu og sum einnig eftir annarri þjónustu heyrnarfræðinga eða lækna. 

HTI-born-a-bid-feb24

Meðalbiðtími fyrir börn undir fjögra ára aldri var 7,1 mánuður og 7,8 mánuður fyrir eldri börn. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er miðstöð þekkingar í heyrnar- og talmeinum á Íslandi. Þar er veitt þjónusta á landsvísu, þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða með mál og talmein.

HTI-medalbidtimi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Það er ekki hægt að kalla fram upplýsingar úr gagnagrunni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um hversu lengi börn sem eru sakborningar eða brotaþolar bíða eftir fyrsta viðtali en vonir standa til að það verði hægt innan tíðar. Umboðsmaður hefur hins vegar birt upplýsingar um fjölda barna sem eru með stöðu sakbornings eða brotaþola í kynferðisbrota- og ofbeldismálum eftir árum. Miðað er við aldur ungmennanna þegar brotið var kært/tilkynnt til lögreglu. Hver einstaklingur er talinn einu sinni á hverju ári, þó svo að hann sé skráður í fleiri en eitt mál á árinu. Rétt er að taka það fram að tölurnar eru bráðabirgðatölur þ.e. byggjast ekki á hreinsuðum gögnum. Þær byggjast á gögnum sem fást úr lögreglukerfinu og eru „lifandi“ þ.e. tölur geta breyst aftur í tímann t.d. þegar verið er að tilkynna um eldri brot.

Sakborningar - ólögráða*

20232022 202120202019 2018 201720162015
Kynferðisbrot13202021201614177
Ofbeldisbrot11912711610294100977574

Brotaþolar - ólögráða*

20232022202120202019201820172016 2015
Kynferðisbrot7886160648953447265
Ofbeldisbrot1291191361071049110988109

Talmeinafræðingar

Löng bið eftir þjónustu talmeinafræðinga fyrir börn hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára. Sjúkratryggingar Íslands gerðu úttekt á stöðu barna sem biðu eftir þjónustu talmeinafræðinga í desember 2021 að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Þar kom fram að 3.701 barn hafi verið skráð á biðlista hjá talmeinafræðingum í desember 2021. Þar af voru 947 börn skráð á fleiri en einum stað. Flest börn á biðlistum höfðu beðið í 0 – 6 mánuði (eða um 30%) en um 11% höfðu beðið lengur en 2 ár. Engar haldbærar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2021. Umboðsmaður barna fær reglulega erindi frá foreldrum þar sem athygli er vakin á því hversu langur biðtími er eftir þessari þjónustu og hefur þar komið fram að börn þurfi að bíða í tvö til fjögur ár en það er mismunandi eftir landshlutum.

Það er mikilvægt að gera öllum börnum kleift að ná eins góðum málþroska og hægt er án nokkurrar mismununar. Eðlilegur málþroski skiptir grundvallarmáli fyrir framtíð barna og er forsenda þess að börn fái notið margra annarra réttinda sinna, svo sem réttar til menntunar og þátttöku í samfélaginu. Þá hafa rannsóknir ítrekað sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og eru fyrstu árin í æviskeiði barns mikilvægust þegar kemur að talþjálfun.

Asa-steinarsdottir-g-6smVMhXVE-unsplash

Að mati umboðsmanns barna þurfa stjórnvöld að grípa til aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir að börn þurfi að bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga. Þar til því markmiði verður náð ber stjórnvöldum að sjá til þess að hægt sé að nálgast upplýsingar með reglubundnum hætti um það hversu mörg börn séu á biðlistum eftir þessari þjónustu. Slík upplýsingaöflun er grundvallarforsenda þess að hægt sé að leggja mat á stöðuna hverju sinni og grípa til viðeigandi aðgerða.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að aðildarríki Barnasáttmálans safni tölfræðilegum upplýsingum um börn til þess að hægt sé að leggja mat á stöðu þeirra. Í lokatilmælum barnaréttarnefndarinnar vegna fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands til nefndarinnar lýsir nefndin yfir áhyggjum vegna skorts á tiltækum tölfræðilegum upplýsingum og beinir því til Íslands að styrkja söfnun upplýsinga um börn. Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við þessari gagnrýni.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað átt í samskiptum við heilbrigðisráðherra vegna þess hversu löng bið hefur verið eftir þjónustu talmeinafræðinga.

Þann 8. febrúar 2019 sendi umboðsmaður barna bréf til heilbrigðisráðherra vegna aðgangs barna að þjónustu talmeinafræðinga. Þar kom m.a. fram að börn sem hafi talmein er falli undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands lendi iðulega á biðlistum eftir talþjálfun og þurfi nær undantekningarlaust að bíða í tólf mánuði eða lengur eftir því að komast í þjálfun. Þá óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvort það telji að framangreint fyrirkomulag tryggi börnum tímanlegan og nauðsynlegan aðgang að þjónustu talmeinafræðinga.

Svar frá heilbrigðisráðuneytinu barst 6. júní 2019. Þar var tekið undir mikilvægi þess að börn með tal- og/eða málhömlun fái viðeigandi sérfræðiþjónustu. Skortur á talmeinafræðingum hafi verið viðvarandi í langan tíma en á síðustu árum hafi verið gripið til aðgerða til að reyna að sporna við þeim vanda. Ráðuneytið tók fram að nemum í talmeinafræði hafi fjölgað sem og útskrifuðum talmeinafræðingum. Fjölgun talmeinafræðinga hafi þó ekki haldið í við vaxandi eftirspurn þó staðan sé betri en hún var. Þá kemur fram að ljóst sé að útskrifuðum talmeinafræðingum muni halda áfram að fjölga og með þeim hætti eigi að vera hægt að þjónusta þennan viðkvæma hóp barna betur og stytta biðtíma.

Þann 4. febrúar 2021 sendi umboðsmaður barna á ný erindi varðandi langan biðtíma barna eftir talmeinaþjónustu og aðgengi barna að talþjálfun. Þar kom fram að þrátt fyrir fjölgun útskrifaðra talmeinafræðinga hafi biðlistar eftir talþjálfun lengst og nú bíði mikill fjöldi barna eftir þjónustu. Biðtími á stofum sé að meðaltali sautján mánuðir en geti verið allt að þrjátíu og sex mánuðir, þá sé ástandið almennt verra á landsbyggðinni. Umboðsmaður óskaði eftir að fá upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um til hvaða aðgerða ráðuneytið hygðist grípa í þeim tilgangi að bæta þjónustu við börn sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda og tryggja snemmtæka íhlutun með því að stytta biðtíma barna.

Svar frá heilbrigðisráðuneytinu barst 19. febrúar 2021. Í svari ráðuneytisins kom fram að skortur væri á talmeinafræðingum og að sá vandi hafi verið viðvarandi í langan tíma. Einnig kom fram að þrátt fyrir að nemum í talmeinafræði og útskrifuðum talmeinafræðingum hafi fjölgað hafi sú fjölgun ekki haldið í við vaxandi þörf barna fyrir þjónustuna. Vísar ráðuneytið til þess að heilbrigðisráðherra hafi í hyggju að leggja fram þingsályktun á Alþingi um stofnun þverfaglegs landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Þá sé ljóst að með aukinni nýtingu á fjarheilbrigðisþjónustu sé mögulegt að veita fleiri börnum þjónustu án tillits til búsetu.

Liana-mikah-t2ODooWyQWI-unsplash_1699619065903

Þann 5. mars 2021 sendi umboðsmaður barna aftur bréf til heilbrigðisráðherra vegna biðtíma eftir talmeinaþjónustu. Þar áréttaði umboðsmaður að íslenska ríkinu beri skylda til þess að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska sbr. 6. gr. Barnasáttmálans. Þá eigi börn líkt og aðrir notendur heilbrigðisþjónustu rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ sé á, sem miðist af ástandi þeirra, horfum og bestu þekkingu, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1997. Í bréfi umboðsmanns kom jafnframt fram að óviðunandi sé að börn þurfi að bíða í allt að þrjátíu og sex mánuði eftir talmeinaþjónustu og þar sem um viðvarandi vandamál sé að ræða sem taki til viðkvæms hóps barna sé það ámælisvert að ráðuneytið vísi til þess að ráðherra hafi í hyggju að koma fram með þingsályktunartillögu á Alþingi um stofnun þverfaglegs landsráðs sem lausn á þeim bráða vanda sem myndast hafi. Umboðsmaður benti á að ekki lægi fyrir hvenær viðkomandi ályktun yrði lögð fyrir Alþingi né með hvaða hætti eða innan hvaða tímaramma viðkomandi landsráði sé ætlað að leysa þann vanda sem skapast hafi varðandi biðtíma barna eftir talmeinaþjónustu. Í bréfi sínu lagði umboðsmaður áherslu á að þessi staða, sem hafi nú verið viðvarandi í of langan tíma, kalli á tafarlausar aðgerðir ráðuneytisins. Umboðsmaður áréttaði að í svari ráðuneytisins frá 6. júní 2019 komi fram að lausn sé í sjónmáli þar sem talmeinafræðingum komi til með að fjölga. Það hafi ekki gengið eftir og ráðuneytið þurfi að leita lausna, í samvinnu við sveitarfélögin og talmeinafræðinga. Umboðsmaður tók fram að það sé óviðunandi að ráðuneytið greini ekki frá neinum aðgerðum öðrum en því að vísa málinu til landsráðs, sem mögulega verði sett á laggirnar, ef þingsályktunartillaga þess efnis verði samþykkt. Vandinn sé ljós og aðkallandi.

Þann 15. apríl 2021 barst svar frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar ítrekaði ráðuneytið svar sitt frá 19. febrúar 2021. Ráðuneytið tók fram að mikilvægt væri að tryggja börnum talmeinaþjónustu og að málefnið sé brýnt. Jafnframt áréttaði ráðuneytið að heilbrigðisráðherra myndi leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið tók undir að þörf væri á aðgerðum og fjármagni í verkefnið og að mati ráðuneytisins sé stofnun fyrrgreinds landsráðs ein af þeim aðgerðum sem þörf sé á til að koma á samstarfi milli þeirra aðila sem að verkefninu koma. Að lokum kom fram að um væri að ræða áherslumál innan ráðuneytisins.

Þingsályktun um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var ekki lögð fyrir Alþingi eins og til stóð samkvæmt þingmálaskrá. Í maí 2021 stofnaði heilbrigðisráðherra hins vegar landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu án aðkomu Alþingis. Þann 31. ágúst 2023 óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu um það hvort landsráðið hafi fjallað sérstaklega um talþjálfun og þjónustu talmeinafræðinga.

Svar barst þann 21. september 2023. Í svari ráðuneytisins kom fram að heilbrigðisráðherra hafi falið landsráðinu að rýna stöðuna varðandi mönnun talmeinafræðinga og þann skort sem hafi verið á talmeinafræðingum en landsráðið hafi skilaði tillögum í maí 2022. Jafnframt kom fram að heilbrigðisráðherra hafi skipað starfshóp í maí 2023 um þjónustu talmeinafræðinga við börn þar sem áhersla hafi verið sett á að setja upp skýran þjónustuferil með áherslu á samþættingu þjónustu og samstarf milli kerfanna tveggja (þ.e. ríkis og sveitarfélaga) sem veita þjónustuna ásamt því að skilgreina grunnþjónustu og veitingu hennar. Gert var ráð fyrir að starfshópurinn skilaði niðurstöðum til ráðherra fyrir 1. nóvember 2023.

Heilbrigðisráðherra skipaði annan starfshóp í nóvember 2021 sem hafði það verkefni að vinna heildstæðar tillögur um þjónustu talmeinafræðinga við börn og átti starfshópurinn að skila af sér niðurstöðum í lok mars 2022. Samkvæmt heilbrigðisráðherra var lögð áhersla á að hópurinn ynni hratt og ætti að skýrast með tillögum hópsins nákvæmlega hversu löng bið er og hefur verið eftir þjónustu talmeinafræðinga og hvort mögulegt sé að koma upp miðlægum biðlistum.

Umboðsmaður barna sendi heilbrigðisráðherra bréf 23. febrúar sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort það standi til að koma á miðlægum biðlistum eftir þjónustu talmeinafræðinga fyrir börn.

Eric-ward-akT1bnnuMMk-unsplash


Umboðsmaður barna, Reykjavík 26.02.2024


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica

Þessi vefur mælir umferð um vefinn með vafrakökum.

Lesa meira um vefkökustefnu okkar