Upplýsinga- og samskiptastefna embættisins

Markmið upplýsingastefnu embættisins er að styðja við aðra stefnumörkun og starfsáætlanir embættisins og tekur stefnan mið af gildum embættisins: samvinna, virðing, og frumkvæði. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og að koma á framfæri sjónarmiðum þeirra og reynslu.

Meginmarkmið stefnu

Stefnt er að því markmiði að embættið sé framsækið í miðlun og framsetningu upplýsinga með áherslu á rafræna útgáfu efnis með hliðsjón af aðgengis- og umhverfissjónarmiðum. Upplýsingamiðlun embættisins fer fram með virkri miðlun og útgáfu efnis þar sem fjölbreyttar miðlunarleiðir eru nýttar. Vefurinn www.barn.is er opinber gátt embættisins en vefurinn er lifandi, fjölbreyttur og skilvirkur og tekur sérstakt mið af þörfum barna. Á vefnum má finna svör við fyrirspurnum frá börnum, fréttir um starfsemi embættisins, ábendingar og tilmæli embættisins til opinberra aðila auk skýrslna um einstök málefni. Þá gefur embættið reglulega út rafræn fréttabréf þar sem fjallað er um starfsemi embættisins og helstu verkefni þess á hverjum tíma.

Öll meðferð upplýsinga skal fullnægja kröfum laga um persónuvernd, upplýsingalaga og stjórnsýslulaga auk annarra laga sem við kunna að eiga hverju sinni.

Umboðsmaður barna ber ábyrgð á upplýsingastefnu embættisins en persónuverndarfulltrúi embættisins ber ábyrgð á því að stefnunni sé fylgt eftir í framkvæmd.

Stefnumótandi umræða og þekkingaraukning

Í starfi umboðsmanns barna er rík áhersla lögð á frumkvæði embættisins í stefnumótandi umræðu um málefni barna og reglulega miðlar embættið nýrri þekkingu, niðurstöðum rannsókna, auk annarra frétta og fróðleiks um málefni barna. Þá stuðlar embættið að reglulegu samtali barna og aðila sem vinna að málefnum þeirra, með skipulagningu funda, málþinga auk annarra viðburða. Þannig leitast embættið við að stuðla að upplýstri umræðu og þekkingaraukningu um réttindi barna og málefni þeirra og tryggir jafnframt þátttöku barna í ákvarðanatöku og stefnumótun um eigin málefni.

Notendamiðað aðgengi

Markmið upplýsingastefnunnar er fyrst og fremst að tryggja börnum, aðgang að traustum og skýrum upplýsingum, um eigin réttindi og helstu þróun í málefnum barna hér á landi sem og annars staðar. Til að styðja við það markmið verða skýrslur embættisins birtar samhliða í tveimur útgáfum, þar sem önnur er á einföldu og auðskildu máli. Þá er markmið stefnunnar jafnframt að tryggja aðgang barna að ráðgjöf um eigin réttindi með fjölbreyttum leiðum. 

Einnig er lögð áhersla á að viðmót leitar á vef embættisins sé þægilegt og einfalt og notast er við viðurkennda aðgengisstaðla í upplýsingagjöf og samskiptum.

Virk samskipti

Umboðsmaður barna leggur áherslu á að auðvelda börnum, sem og öðrum sem til embættisins leita, að koma á framfæri fyrirspurnum og ábendingum. Rík áhersla er þannig lögð á gagnvirk samskipti og stuttan svartíma, en fyrirspurnir og ábendingar barna, fá ávallt forgangsmeðferð. Tekið er við fyrirspurnum og öðrum erindum með fjölbreyttum leiðum í síma, tölvupósti, í gegnum heimasíðu embættisins og einnig er hægt að senda fyrirspurnir á samfélagsmiðlum. Þá er tekið við fyrirspurnum og ábendingum á öðrum tungumálum en íslensku og stefnt að því markmiði að auka hlutfall efnis á vef embættisins sem er þýtt á önnur tungumál en íslensku. 

Vefspjall fyrir börn

Vefspjall á vefsíðu er eingöngu fyrir börn og er það gert til að tryggja þeim aðgang að ráðgjöf sérfræðinga embættisins í rauntíma.

Samskipti við fullorðna

Embættið leggur áherslu á gott aðgengi barna og því eru fullorðnir einstaklingar beðnir um að senda fyrirspurnir og ábendingar á netfangið ub@barn.is. Ekki er hægt að verða við beiðnum um fundi nema umboðsmaður telji það brýna nauðsyn og í þágu barna. Þá er ekki unnt að heita fullum trúnaði um fundi eða efni þeirra. Starfsfólk embættisins er bundið trúnaði um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara en starfsmenn eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga og auk þess ber embættið upplýsingaskyldu um tiltekin málefni samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. 

skór og örvar


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica