Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs barna

Inngangur

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum. Persónuupplýsingar barna njóta jafnframt sérstakrar verndar, þar sem þau eru almennt síður meðvituð um áhættu og afleiðingar í tengslum við vinnslu slíkra upplýsinga sem og eigin réttindi. Hið stafræna umhverfi er í stöðugri þróun og netnotkun verður sífellt stærri hluti af lífi barna. Sú þróun skapar ný tækifæri fyrir börn og marga stórkostlega möguleika en henni fylgir einnig aukin hætta á því að brotið sé gegn börnum og réttindum þeirra. Það er mikilvægt að börnum séu veitt tækifæri til öruggrar þátttöku í stafrænum heimi. Til þess að svo megi verða þarf að efla þekkingu samfélagsins á réttindum barna og þeim reglum sem gilda um þátttöku þeirra í stafrænu umhverfi.

Á Íslandi hefur aukin áhersla verið lögð á að efla stafrænt læsi barna sem endurspeglast m.a. í menntastefnu fyrir árin 2021-2030, þar sem lögð er áhersla á að efla framtíðarhæfni í stafrænni tilveru nemenda. Það felur í sér að nemendur þurfa að geta gert sér grein fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænni tilveru, sem kallar á þjálfun þeirra í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Jafnframt þurfa nemendur að læra hvernig á að hagnýta stafræna tækni og auka eigin þekkingu á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Í stefnunni er einnig fjallað um að huga þurfi að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og kenna þeim ábyrga nethegðun og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

Starfsmenn skóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, tónlistarskóla og aðrir sem vinna með börnum þurfa því að vera meðvitaðir um og búa yfir þekkingu á réttindum barna, m.a. til persónuverndar, þannig að börn njóti nauðsynlegrar verndar til að geta þroskast í hinu stafræna umhverfi á öruggan hátt.

Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga þá áhættu sem felst í því að safna upplýsingum um einstaklinga yfir langan tíma en börn í dag eru fyrsta kynslóðin sem frá fæðingu hefur verið skrásett rafrænt í gögnum fyrirtækja. Tryggja ætti börnum frjálst rými til að þroskast þannig að þegar þau ná fullorðinsaldri sé ekki til ofgnótt upplýsinga um þau, allt frá þau voru á barnsaldri, vistaðar hjá einkaaðilum og opinberum aðilum. Það getur haft mótandi áhrif á sjálfsmynd barna hvaða upplýsingar eru til um þau á Netinu og því ætti að halda þeim upplýsingum í lágmarki. Þá er einnig mikilvægt að í starfsemi með börnum sé einnig gætt að öðrum réttindum barna og hugað að velferð þeirra, t.d. hvað varðar aldurstakmörk á tölvuleikjum og stafrænum lausnum sem notaðar eru, notkun samfélagsmiðla, aldurstakmörk á myndefni sem sýnt er o.fl. 

Upp

barn með tölvu

Um persónuupplýsingar

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklings, t.d. nafn, kennitala, staðsetningargögn, ljósmynd eða upptaka þar sem hægt er að greina einstakling á. Tilteknar persónuupplýsingar teljast viðkvæmar samkvæmt persónuverndarlögum og eru gerðar strangari kröfur til þess hvenær má vinna með slíkar upplýsingar, t.d. upplýsingar um kynþátt, trúarbrögð og heilsufarsupplýsingar. Persónuupplýsingar eru upplýsingar um fólk, ekki fyrirtæki eða dýr.

Það er margt sem getur fallið undir hugtakið persónuupplýsingar og því erfitt að gefa nákvæma upptalningu. Mikilvægt er að átta sig á því að það er ekki skilyrði að unnið sé með upplýsingar sem er hægt að tengja beint við þig, eins og nafn og kennitala, heldur getur þetta verið samansafn upplýsinga sem saman leiða til þess að hægt er að rekja þær eingöngu til þín.

Dæmi

Viðhorfskönnun, þar sem engum upplýsingum um þátttakendur er safnað nema upplýsingum um aldur og kyn, telst almennt ekki fela í sér söfnun persónuupplýsinga. Ef hópurinn sem tekur þátt í könnuninni er aftur á móti þannig samansettur að mjög fáir einstaklingar eru á tilteknum aldri eða af ákveðnu kyni getur verið um persónuupplýsingar að ræða, en við slíkar aðstæður kann að vera mögulegt að vita hver svaraði, út frá upplýsingum um aldur og kyn viðkomandi.


Hvenær má vinna upplýsingar um börn?

Öll vinnsla persónuupplýsinga, svo sem söfnun þeirra, varðveisla, birting og miðlun, þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum. Samþykki barns eða foreldra þess er ein tegund heimildar. Aðrar heimildir geta verið samningur, lagaheimild eða lögmætir hagsmunir, svo að dæmi séu nefnd. 

Þannig ættu einstakir starfsmenn, svo sem kennarar eða íþróttaþjálfarar, ekki að taka smáforrit, upplýsingatæknikerfi eða aðrar tæknilausnir í notkun án þess að vera vissir um að það sé öruggt og heimildir séu til staðar til að vinna persónuupplýsingar barna í þeim, t.d. með því að bera það undir stjórnendur sem geta tekið ákvarðanir um notkunina. Það að taka í notkun nýja tækni eins og smáforrit eða upplýsingatæknikerfi, getur kallað á framkvæmd svokallaðs mats á áhrifum á persónuvernd og/eða ráðgjöf frá persónuverndarfulltrúa.

Þegar vinnsla er byggð á samþykki þarf að meta í hvert skipti hvort það er foreldri barnsins sem á að veita samþykki eða barnið sjálft, eftir því sem aldur og þroski barnsins gefa tilefni til. Hafa þarf í huga að forsjárforeldri hefur bæði rétt og skyldu til að ráða persónulegum högum barnsins. Ef óskað er eftir samþykki barnsins þarf barnið að skilja hvað það er að samþykkja og þurfa því allar upplýsingar að vera á einföldu og skýru máli.

Þegar barni er boðin þjónusta á Netinu með beinum hætti og vinnsla persónuupplýsinga byggist á samþykki þess er samþykkið einungis gilt ef barnið hefur náð 13 ára aldri. Þetta getur til dæmis átt við um notkun samfélagsmiðla, tölvuleiki á netinu og smáforrit þar sem skilmálar eru samþykktir í byrjun. Yngri börn þurfa ávallt samþykki forsjáraðila.

Samþykki foreldra eða forsjáraðila er þó ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.

Skólar og aðrir opinberir aðilar geta yfirleitt ekki byggt á samþykki nema um sé að ræða algerlega valfrjálsa þjónustu. Persónuverndarlög gera ráð fyrir því að slík vinnsla fari almennt eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggi á lagaheimild.

Sjá nánar um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga í leiðbeiningum fyrir ábyrgðaraðila.

Hvernig mega grunnskólar skrá persónuupplýsingar um nemendur?

Áður en persónuupplýsingar um nemendur eru skráðar í rafrænt upplýsingakerfi, t.d. Mentor eða Innu, verður að gæta þess að heimild sé til að skrá upplýsingarnar samkvæmt persónuverndarlögum. Oftast hvílir lagaskylda á viðkomandi skóla að skrá ýmsar upplýsingar um nemendur, sem gjarnan eru skráð í slík upplýsingakerfi, og svo lengi sem skráningin er innan þeirra marka telst hún heimil.

Auk þess verður öll skráning persónuupplýsinga að samrýmast grunnkröfum persónuverndarlaga, þ. á m. um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum hætti, tilgangurinn skal vera skýr auk þess sem gæta þarf meðalhófs með því að vinna ekki með meiri upplýsingar en þörf er á. Einnig þarf að sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar og áreiðanlegar.

Upp

Notkun upplýsingatæknikerfa og stafrænna lausna

Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit og stafrænar lausnir, eins og upplýsingatæknikerfi, sem nýta má í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur.

notkun netsins við skólanám

Heimild samkvæmt persónuverndarlögum þarf að vera fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram með notkun þess kerfis eða smáforrits sem verið er að nýta. Þeir sem teljast ábyrgðaraðilar (t.d. skólar og íþróttafélög) að vinnslu persónuupplýsinga þurfa að ganga úr skugga um að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Þáttur í því að tryggja öryggi þeirra er að athuga hvort persónuupplýsingar séu fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið,til dæmis þegar þær persónuupplýsingar sem vistaðar eru í forritinu eða forritið safnar eru hýstar á netþjónum sem staðsettir eru í Bandaríkjunum, s.s. skýjaþjónustur, en það er almennt ekki heimilt nema að tryggt sé að það séu fullnægjandi heimildir til flutningsins samkvæmt persónuverndarlögum.

Í Bandaríkjunum er t.d. ekki tryggð samskonar vernd persónuupplýsinga eins og í Evrópu, t.d. um hverjir geti fengið aðgang að upplýsingunum án samþykkis einstaklingsins. Þarlend yfirvöld hafa t.d. ríkar heimildir að lögum til að fá aðgang að persónuupplýsingum sem eru varðveittar þar í landi. Auk þess nýta fyrirtækin persónuupplýsingar viðskiptavina sinna í margvíslegum markaðstilgangi sem er ekki alltaf gerður ljós.

Þannig ættu einstakir starfsmenn, svo sem kennarar eða íþróttaþjálfarar, ekki að taka smáforrit, upplýsingatæknikerfi eða aðrar tæknilausnir í notkun án þess að vera vissir um að það sé öruggt og heimildir séu til staðar til að vinna persónuupplýsingar barna í þeim, t.d. með því að bera það undir stjórnendur sem geta tekið ákvarðanir um notkunina.

Foreldrar og börn, eftir því sem við á, eiga rétt á að fá fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga barna sem fer fram með notkun búnaðarins.

Sjá nánar um notkun upplýsingatæknikerfa og stafrænna lausna í skóla- og frístundastarfi í leiðbeiningum fyrir ábyrgðaraðila og eins leiðbeiningar fyrir ábyrgðaraðila á vef Persónuverndar.

Fjarkennsla

Ljóst er að þær sérstöku aðstæður sem hafa verið uppi vegna kórónuveirufaraldursins hafa valdið breyttu starfs- og námsumhverfi þar sem mikilvægt er að geta nýtt tæknilausnir, bæði til heimanáms, kennslu, próftöku og samskipta skóla og heimilis, en mikilvægt er að slíkar lausnir uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögum.

Á vef Persónuverndar má finna leiðbeiningar um helstu atriði sem hafa ber í huga við nýtingu tæknilausna í fjarkennslu.

Upp

Myndatökur og myndbirtingar af börnum

Hvaða reglur gilda um myndatökur og myndbirtingar af börnum?

Ef hægt er að greina einstakling á mynd eða í myndbandi er um persónuupplýsingar að ræða og þá þarf að fara að persónuverndarlögunum. Fyrst og fremst þarf alltaf að vera til staðar heimild til að vinna með upplýsingarnar, til dæmis samþykki. Ef myndefnið sýnir viðkvæmar upplýsingar, eins og um heilsufar einstaklings, þarf að uppfylla ákveðin viðbótarskilyrði.

Sérhver skóli, frístundaheimili, tónlistarskóli, íþróttafélag og aðrir ábyrgðaraðilar sem vinna persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, bera ábyrgð á öll vinnslan, þ. á m. myndatökur og myndbirtingar, sé í samræmi við persónuverndarlög.

Margir ábyrgðaraðilar hafa farið þá leið að óska eftir samþykki foreldra á þar til gerðu eyðublaði, ýmist rafrænt eða á pappír. Á samþykkiseyðublaðinu þarf að koma fram og vera aðskilið hvers konar vinnslu er um að ræða, t.d. ljósmynd eða upptökur, og eins hvort og þá hvar til standi að birta myndina, t.d. á vefsíðu skóla, samfélagsmiðlum eða í fréttabréfum.

leiðbeiningamynd

Hvaða myndir má birta í skólastarfi?

Ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Nauðsynlegt er að fá samþykki foreldris/forsjáraðila fyrir myndatöku og/eða miðlun ljósmynda af börnum. Börn geta einnig þurft að samþykkja sjálf að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Þau eiga rétt á að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða birtingu mynda af þeim á Netinu og taka þarf tillit til skoðana þeirra, jafnvel þó að þau séu ung.

Á samþykkiseyðublaði geta foreldrar samþykkt að veita heimild til birtingar á ljósmyndum af barninu, en aðskilja þarf mismunandi form birtingar, t.d. hvort það sé á vefsíðu skóla, samfélagsmiðlum eða í fréttabréfum.

Það er mikilvægt að allir sem vinna með börnum hugi að því hvort samþykki hafi verið veitt fyrir hvert og eitt barn fyrir birtingu mynda.

Almennt er ekki tilefni til að gera athugasemdir við birtingu mynda af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæmar. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir. Það er hlutverk hvers skóla að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en ef Persónuvernd berst kvörtun frá einstaklingi vegna slíkrar myndbirtingar getur stofnunin lagt mat á þá ákvörðun skólans. 

leiðbeiningarmynd

Gátlisti

Gátlisti um myndatökur og myndbirtingar af börnum. 

  • Sérhver skóli, frístundaheimili, tónlistarskóli, íþróttafélag og aðrir ábyrgðaraðilar sem vinna persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, bera ábyrgð á að öll vinnslan, þ. á m. myndatökur og myndbirtingar, sé í samræmi við persónuverndarlög

  • Þegar óskað er eftir samþykki sem heimild fyrir myndatökum og myndbirtingum, þarf ábyrgðaraðilinn að veita foreldrum/forsjáraðilum barns, og eftir atvikum barninu sjálfu, fullnægjandi fræðslu, svo sem um tilgang, og viðtakendur upplýsinganna áður en samþykki er veitt. Að öðrum kosti telst fræðslan ekki í samræmi við persónuverndarlög.

  • Gæta þarf hófs í myndatökum þannig að réttur barna til friðhelgi einkalífs sé tryggður.

  • Meta þarf heildstætt hverju sinni hvort samþykki þurfi fyrir myndatöku út frá umfjöllunarefninu, eðli upplýsinganna og stöðu þess sem í hlut á og því samhengi sem myndefnið er sett í.

  • Almennt er heimilt að birta myndir af opinberum viðburðum eða aðstæðum á almannafæri þar sem ákveðinn einstaklingur er ekki aðalmyndefnið. Því verða yfirleitt ekki gerðar athugasemdir við birtingu mynda af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir.

  • Það er hlutverk skólans að meta hvort viðburður sem er verið að skipuleggja teljist vera opinn.

  • Um myndatökur á viðburðum á vegum skóla gildir almennt að skólar, sem opinberar stofnanir, geti ekki lagt bann við því að foreldrar taki ljósmyndir af börnum sínum enda gilda persónuverndarlögin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru aðeins ætlaðar til persónulegra nota.

  • Leiðbeiningar Persónuverndar til íþróttafélaga, tómstunda- og æskulýðsfélaga og annarra aðila sem starfa með börnum.


Upp

Notkun samfélagsmiðla í starfi með börnum

Hvaða sjónarmið gilda um öryggi upplýsinga á Netinu?

Hafa ber í huga að öryggi á Netinu verður aldrei fulltryggt. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum.

Þá skal hafa í huga að meðlimafjöldi á lokuðum síðum getur skipt hundruðum og jafnvel þúsundum og þannig er verið að deila upplýsingum með ófyrirséðum fjölda einstaklinga. Efninu er jafnframt verið að deila með þeim miðli sem upplýsingarnar eru birtar á. Samfélagsmiðlar og smáforrit deila sífellt meiri persónuupplýsingum sín á milli. Þeir sem nota samfélagsmiðla og smáforrit hafa því yfirleitt ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Einnig er áríðandi að upplýsingar um staðsetningu og GPS-hnit fylgi ekki myndum sem deilt er af börnum á samfélagsmiðlum þannig að óviðkomandi aðilar fái ekki upplýsingar um staðsetningu þeirra.

Má nota samfélagsmiðla til að miðla upplýsingum um börn?

Persónuvernd hefur beint því til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga að nota ekki Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða. Miðlun persónuupplýsinga um börn í gegnum samfélagsmiðla, svo sem Facebook, í skóla- og frístundastarfi telst til vinnslu persónuupplýsinga. Ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Ekki nota Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn.

Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, t.d. fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og því má nýta slíka miðla til að dreifa slíkum upplýsingum. Almennt verða því ekki gerðar athugasemdir við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæmar.

Í skilmálum Facebook, sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Þá liggur fyrir að Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við ákveðnar aðstæður. Þeir sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Ef talið er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti hjá skólum er æskilegt að til þess sé nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum (t.d. skólum, frístundaheimilum og öðrum) fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er.

Í tilefni af alþjóðlegum netöryggisdegi 2018 gáfu umboðsmaður barna, Barnaheill, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, Unicef og SAFT út viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum.

Sjá nánar um notkun upplýsingatæknikerfa og stafrænna lausna í skóla- og frístundastarfi í leiðbeiningum fyrir ábyrgðaraðila

leiðbeiningarmynd

Samfélagsmiðlar í starfi með börnum

Hafa þarf í huga að starfsmenn skóla- og frístundastarfs eru líkt og foreldrar fyrirmyndir barna og því skiptir máli að vanda eigin umgengni um samfélagsmiðla, tölvuleiki og aðrar tæknilausnir meðal barnanna. Gæta þarf að því að börnum bregði ekki fyrir á samfélagsmiðlum starfsmanna sem kunna að vera notaðir meðan á starfi stendur, t.d. á myndum eða í myndskeiðum.

Upp

leiðbeiningarmynd

Aldurstakmörk

Það er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum virði þau aldurstakmörk sem gilda um kvikmyndir, tölvuleiki og samfélagsmiðla.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að aldurstakmörk eru sett til verndar börnum, og byggja m.a. á því að börn undir 13 ára aldri hafa ekki tekið út fullan andlegan og félagslegan þroska og búa því ekki endilega yfir hæfni til þess að átta sig á því hvaða áhrif samskipti á Netinu geta haft og hvernig þau eru öðruvísi en önnur samskipti.

Þá ber að virða að það er eingöngu í höndum foreldra og forsjáraðila að veita börnum leyfi til þess að víkja frá settum aldurstakmörkum.

leiðbeiningarmynd

Samfélagsmiðlar, smáforrit, tölvuleikir og önnur þjónusta á netinu 

Á Íslandi er aldurstakmark fyrir þátttöku barna í upplýsingasamfélaginu, t.d. á samfélagsmiðlum, 13 ár og þurfa yngri börn því samþykki foreldra t.d. fyrir því að skrá sig sem notendur á samfélagsmiðlum, óháð þeim aldurstakmörkunum sem miðlarnir sjálfir setja fyrir sína notendur.

Margar leikjasíður falla undir skilgreininguna samfélagsmiðill, t.d. Roblox.

leiðbeiningarmynd

Aldursmerkingar sjónvarpsþátta, kvikmynda og tölvuleikja

Aldursmerkingar sjónvarpsþátta, kvikmynda og tölvuleikja þjóna þeim tilgangi að vara við efni sem skaðvænlegt er börnum og þroska þeirra. Markmiðið er að tryggja vernd og velferð barna og að allt myndefni sé greinilega merkt upplýsingum um aldursviðmið.

Öllum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum eða tölvuleikjum skulu fylgja upplýsingar um aldursviðmið og tákn sem sýna um hvers konar efni er að ræða. Táknið gefur jafnframt til kynna hvað það er í efninu sem ræður aldursviðmiðinu.

Bannað er að sýna börnum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og tölvuleiki sem ógna velferð þeirra. Það á að sjálfsögðu einnig við um alla sýningu á myndefni og notkun tölvuleikja í skólum, frístundastarfi, íþróttastarfi o.fl. Því er mikilvægt að tryggja að myndefnið eða tölvuleikurinn sé örugglega við hæfi þeirra barna sem til stendur að sýna efnið.

Sjá nánar um aldurstakmörk ýmissa samfélagsmiðla og tölvuleikja í leiðbeiningum fyrir foreldra.

Upp

Vernd barna gegn skaðvænlegum áhrifum stafrænnar upplifunar

Barnasáttmálinn kveður á um rétt barna til þess að leita eftir, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum. Tæknifærni barna getur verið mikil og þau hafa hæfileika til að læra fljótt hvernig tækin virka. En þó að börn hafi kunnáttu til að nota hluti þýðir það hins vegar ekki endilega að þau hafi þroska til að skilja til fulls hvaða áhrif notkunin getur haft í för með sér til lengri tíma litið. 

leiðbeiningarmynd

Netið er frábært verkfæri sem býður börnum upp á endalausa möguleika til fræðslu, leikja, skemmtunar og samskipta, en þar geta þau einnig rekist á efni sem er ekki við hæfi þeirra eða átt í samskiptum sem eru skaðleg heilsu þeirra og velferð.

leiðbeiningarmynd

Skaðvænleg efni

Um getur verið að ræða efni með ofbeldi, kynferðislegt efni eða annað sem er til þess fallið að valda hræðslu eða óhug. Einnig getur verið um að ræða áróður af ýmsum toga, auglýsingar eða önnur umfjöllun sem ýtir undir t.d. útlitslegar staðalímyndir.

leiðbeiningarmynd

Skaðleg samskipti

Með neikvæðum samskiptum er átt við einhverja tegund félagslegra samskipta sem hefur neikvæð áhrif á börn. Sem dæmi ná nefna neteinelti, nethatur, hótanir, stafrænt kynferðisofbeldi, eða hatursorðræðu sem beinist gegn tilteknum einstaklingum eða hópum. Einnig getur verið um að ræða tjáningu einstaklinga sem ekki er sett fram í neikvæðum tilgangi en sem hefur þrátt fyrir það neikvæð áhrif á aðra.

Einnig getur óhófleg skjánotkun talist til neikvæðra stafrænna samskipta.

leiðbeiningarmynd

Upp

Stafræn fótspor og réttindi barna

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar. Börn eru almennt síður meðvituð um áhættu og afleiðingar vinnslu persónuupplýsinga þeirra og um réttindi þeirra þar að lútandi. Einnig er að líta til þeirrar áhættu sem felst í því að safna upplýsingum um einstaklinga yfir langan tíma og að börn í dag eru fyrsta kynslóðin sem hefur allt líf sitt frá fæðingu skrásett í rafræn gögn stofnana og fyrirtækja.

Orðspor fólks, fullorðinna og barna, mótast í auknum mæli af því sem er til um það á Netinu. Taka þarf tillit til þess að börn hafa ekki náð fullum líkamlegum eða andlegum þroska. Það getur haft mótandi áhrif á sjálfsmynd barna hvaða upplýsingar eru til um þau á Netinu og því ætti að halda þeim upplýsingum í lágmarki.

Börn eiga að fá frjálst rými til að þroskast þannig að þegar þau ná fullorðinsaldri sé ekki til ofgnótt upplýsinga um þau vistaðar hjá einkaaðilum og opinberum aðilum.

Stafræn fótspor mynduð í skólastarfi

Í skýrslu ráðgefandi nefndar Evrópuráðsins um persónuvernd frá árinu 2019 er vakin athygli á ýmsum áhættum sem eru fyrir hendi við rafræna vinnslu persónuupplýsinga barna í skólastarfi og í því sambandi m.a. vísað til þess að margt er enn órannsakað um heilsu barna í tengslum við tæknivæðingu í skólastarfi.

Í skýrslunni er jafnframt fjallað um sjálfsákvörðunarrétt barna hvað varðar persónuupplýsingar þeirra og á það bent, að þegar skóli eða sveitarfélag hefur tekið ákvörðun um hvaða persónuupplýsingar skuli vinna og í hvaða forriti, þá hafi börnin í raun ekkert um það að segja. Því sé brýnt að skólarnir missi ekki stjórn á persónuupplýsingum barnanna. Gagnasöfnun þarf að halda í lágmarki og í samningi við fyrirtæki um vinnslu upplýsinga þarf að koma fram hvaða upplýsingar megi vinna og í hvaða tilgangi, eins og persónuverndarlög gera kröfu um.

Í skýrslunni er einnig á það bent að horfa verði heildstætt á þær tæknilausnir sem eru notaðar í skólastarfi og hvaða fótspor notkun þeirra skilur eftir sig, bæði stafrænt fótspor og umhverfisfótspor, í lífi hvers og eins barns, t.a.m. samspil tækja og forrita og hvaða upplýsingar fara þar á milli.

Upp

Til baka á netið, samfélagsmiðlar og börn

Pexels-ron-lach-9783356


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica