Upplýsingar til barna
Mikilvægur liður í því verkefni að tryggja þátttöku barna er að sjá til þess að börn fái aðgang að upplýsingum sem þau skilja. Til þess að barnið skilji og geti tekið til sín upplýsingar þarf að aðlaga þær að aldri barnsins, þroska þess sem og öðrum einstaklingsbundnum forsendum.
Hvaða börn eiga að fá upplýsingarnar?
- Hver er aldur barnanna?
- Hverjar eru aðstæður barnanna?
- Hverjar eru þarfir barnanna?
- Hversu stór er markhópurinn?
- Með hvaða leiðum er ætlunin að ná til barnanna?
Hvaða upplýsingar eru það sem um ræðir?
- Leitaðu eftir sjónarmiðum barna á því sem skiptir þau máli. Hvaða upplýsingar telja þau sig þurfa á að halda?
- Hverju þarf að koma á framfæri við börn? Upplýsingarnar verða að vera skýrar, knappar og á auðskiljanlegu og barnvænu máli.
- Hafa ber í huga að viðtakendur upplýsinganna eru börn. Gera þarf grein fyrir því af hverju upplýsingarnar skipta þau máli.
Framsetning
Skilgreina þarf markhópinn áður en vinnan við framsetningu upplýsinganna hefst.
- Börn vilja helst fá upplýsingar með beinum samskiptum við einhvern sem þau treysta.
- Rannsóknir hafa sýnt að flest börn bera traust til kennara og því er skólinn kjörinn staður til þess að koma upplýsingum á framfæri við börn.
- Best fer á því að upplýsa börn um erfið og persónuleg mál með beinum hætti í munnlegum samskiptum.
- Sá sem upplýsir barn þarf að sýna því nærgætni og taka tillit til þess ef um er að ræða upplýsingar sem geta haft áhrif á barnið.
- Í kjölfar samtals við barn er gott að vísa því á frekari upplýsingar, t.d. á vefsíðu ef við á.
Börn eiga auðvelt með að nálgast upplýsingar sem settar eru fram á stafrænum vettvangi.
- Með því að nýta stafrænan vettvang fyrir miðlun upplýsinga til barna bjóðast ýmsir möguleikar í framsetningu, t.d. með gerð stuttmynda, teiknimynda, skýringarmynda, spurningum og svörum, getraunum, spjallmennum o.s.frv.
- Með nýtingu á stafrænum leiðum er einnig hægt að ná meiri dreifingu til þess að ná til stærri markhópa.
Umræðutónn
Hvernig á að fara að því að setja fram upplýsingar sem börn vilja kynna sér? Mikilvægt er að aðlaga umræðutóninn að markhópnum auk þess að aðlaga þarf efnið að aldri og þroska barnanna sem um ræður en einnig þarf að taka mið af aðstæðum þeirra.
- Taka þarf mið af markhópnum og setja á fram upplýsingar þannig að börnin upplifi sig sem þátttakendur.
- Börn vilja heiðarleg samskipti og texti og myndmál þurfa að byggja á réttum upplýsingum og trúverðugleika.
- Tónninn á að vera jákvæður og hvetjandi.
- Gott er að hafa fjölbreytni í framsetningu upplýsinga, t.d. með notkun myndefnis.
- Ef um er að ræða mikið magn upplýsinga er gott að skipta því upp eins og kostur er.
- Efnið á að vera skýrt, einfalt og aðgengilegt.
- Hafa ber í huga aldur markhópsins, sérstaklega ef um yngri börn er að ræða, en þá getur verið nauðsynlegt að setja fram upplýsingar á myndmáli.
- Alltaf á að upplýsa börn um það hvar þau geta fengið stuðning og aðstoð.
Textagerðin
- Textinn á að vera hnitmiðaður, ekki er þörf á löngum formálum eða kynningum heldur fer betur á því að kafa beint ofan í efnið.
- Það er áskorun að setja fram texta um flókin málefni á einfaldan hátt en það er nauðsynlegt þegar börn eiga í hlut.
- Slepptu því sem er ekki bráðnauðsynlegt, það er betra að vera með eina stutta og hnitmiðaða setningu sem börnin lesa, í stað þriggja frábærra sem þau lesa ekki.
- Endurtekin meginatriði gera að verkum að börnin ná frekar kjarnanum í textanum.
- Skýr texti er til þess fallin að gera hann trúverðugan gagnvart börnum.
Rýnihópar
Áður en texti sem ætlaður er börnum er birtur eða fer í dreifingu, getur verið gagnlegt að setja á laggirnar rýnihóp skipaðan börnum, sem fá að lesa textann og gefa álit sitt á því hversu gagnlegur og aðgengilegur hann er.
- Bestur árangur næst með því að leita til barna sem hafa reynslu af því málefni sem textinn fjallar um.
- Hvaða orð og hugtök nota börnin í rýnihópnum þegar þau ræða tiltekið málefni og er hægt að nýta þau í textanum til að gera hann aðgengilegri?
- Hvað er það sem rýnihópurinn á auðvelt með að taka til sín og hvað skilja þau ekki?
- Hvað telur rýnihópurinn vera bestu leiðina til að koma efninu á framfæri við þau börn sem um ræðir?
Dreifing
Þeim mun meiri upplýsingar sem liggja fyrir um markhópinn, þeim mun auðveldara er að ná til þeirra.
Stafrænar upplýsingar:
- Best fer á því að nýta stafræn verkfæri eins og leitarorðagreiningu eða leitarorðavöktun til þess að reyna að ná til þeirra barna sem tilheyra markhópnum. Þannig aukast líkurnar á því að börn sem eru að leita að upplýsingum finni þær.
- Er hægt að vera með tilvísun í efnið á vefsíðum sem börn heimsækja til þess að ná til þeirra?
- Geta skólar t.d. orðið að liði með því að setja hlekki á efnið t.d. í fréttabréfum?
- Samfélagsmiðlar geta verið öflugt verkfæri í dreifingu og kynningu á efninu.
Skriflegar upplýsingar
- Geta kennarar nýtt efnið í kennslu, t.d. í lífsleikni eða öðrum námsgreinum?
- Geta frjáls félagasamtök komið efninu á framfæri við félagsmenn eða aðra sem tilheyra markhópnum?