Til umhugsunar áður en rætt er við barn

Virðing fyrir tíma barnsins

Upplýsa á barn með góðum fyrirvara um það hvenær samtalið á að eiga sér stað og um hvað. Best fer á því að finna tíma sem hentar barni t.d. út frá stundaskrá þess og dagskrá að öðru leyti. 

Þægilegt og rólegt umhverfi

Samtal við barn þarf að eiga sér stað í umhverfi sem er rólegt og þægilegt og er aðskilið frá annarri starfsemi ef við á. Huga ber að því sem ber fyrir augu barns á leiðinni í það herbergi þar sem samtal á að eiga sér stað, er t.d. eitthvað á veggjum eins og veggmyndir eða upplýsingaspjöld sem er ekki við hæfi barna? Ef barn bíður á biðstofu eftir samtalinu er mikilvægt að gert sé ráð fyrir börnum með húsgögnum sem henta börnum og e.t.v. er hægt að hafa leikföng og spil á staðnum til þess að stytta börnum stundir á meðan þau bíða.

Upplýsingar fyrir samtal

Áður en fyrsta samtalið á sérstað er mikilvægt að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar um málið og þarfir barnsins.

Dæmi um nauðsynlegar upplýsingar...


  • Hvert er móðurmál barnsins, skilur það og getur gert sig skiljanlegt á íslensku eða öðru tungumáli?
  • Hvaða persónufornafn notar barnið?
  • Er barnið með fötlun eða raskanir?
  • Þarf barnið á aðstoð að halda t.d. við salernisferðir eða tekur það lyf?

Tungutak

Sá sem ræðir við barn þarf að laga sig að þörfum þess með því að forðast að nota flókin orð og hugtök sem það skilur kannski ekki. Ef notkun tiltekinna flókinna hugtaka er nauðsynleg vegna eðlis máls, er hægt að búa til orðalista fyrir fram þar sem veittar eru skýringar.

Undirbúningur fyrir samtal

Sá sem ætlar að eiga samtal við barn þarf að undirbúa það vel. Hvernig á að hefja samtalið, hvað stendur til að ræða og hvernig á að ljúka því, t.d. með upplýsingum um næstu skref.

Fjöldi fullorðinna

Þarfir barnsins eiga að vera ráðandi við matið á því hverjir eiga að vera viðstaddir og hversu margir. Of margir fullorðnir einstaklingar sem spyrja barnið spurninga getur leitt til ójafnræðis og barn getur þá þurft á stuðningsaðila að halda. Það getur hins vegar skapað hættu á því að stuðningsaðilinn hafi leiðandi áhrif á barnið eða fari að tala í þess stað. Það er ábyrgð þess aðila sem stýrir samtalinu að tryggja að það sem þar komi fram sé frjáls frásögn barnsins, vangaveltur þess og skoðanir.

Hver situr hvar?

Gerðu barninu ljóst hverjir ætla að eiga samtal með staðsetningu aðila við borðið, stuðningsaðili barns á t.d. að sitja til hliðar bakvið barn, enda ekki beinn aðilar að samtalinu.

Samvinna við túlk

Ef samtal við barn á sér stað með aðstoð t.d. túlks eða táknmálstúlks er gott að upplýsa túlkinn um það fyrir fram að barn eigi í hlut. Túlkur þarf einnig að fá upplýsingar um það fyrir fram hvers konar samtal á að eiga sér stað og árétta ber mikilvægi þess að um frjálsa frásögn barnsins sé að ræða þannig að sjónarmið og óskir þess komist til skila. Sá sem ræðir við barn á að hafa í huga að horfa á barnið og að tala við það, ekki túlkinn.

Kynning á viðstöddum

Mikilvægt er að þeir sem eru viðstaddir fundinn með barninu kynni sig í upphafi og greini frá hlutverki sínu. Það á við jafnvel þó svo að einhver hafi hitt barnið áður, það er ekki víst að barnið muni eftir því. Það er einnig mikilvægt að útskýra fyrir barninu hvernig það sem fram fer á fundinum er skráð og í hvaða tilgangi.

Upplýsingar um það sem á að fara fram á fundinum

Barnið á að fá upplýsingar um það hvernig fundurinn á að ganga fyrir sig og hvað á að gera við þær upplýsingar sem barn greinir frá. Strax í upphafi þarf að segja barni frá því hvað fundurinn á að standa yfir lengi og hvenær á að taka hlé, ef við á. Útskýra þarf fyrir barninu að það sé í lagi að biðja um hlé til þess að fara á salernið eða af öðrum ástæðum. Þegar rætt er um skipulag og tímasetningar, á að taka tillit til aldurs og þroska barns.

Grundvöllur samtals

Börn gera sér ekki alltaf grein fyrir því að þau megi spyrja spurninga og leiðrétta fullorðna sem fara með rangt mál að þeirra mati. Börn gera sér heldur ekki endilega grein fyrir því að þau þurfi ekki að svara öllum spurningum, að þau megi greina frá því ef þau skilja ekki það sem fram fer, eða að ekki sé til hið eina rétta svar við öllum spurningum. Í upphafi samtalsins er nauðsynlegt að biðja barn um að láta vita af því ef það skilur ekki spurningar eða vill leiðrétta eitthvað sem aðrir segja. Barnið á líka að fá að vita að „ég veit ekki“ er fullgilt svar.

Hlustun

Á fundum með barni er mikilvægt að stunda virka hlustun þannig að barnið upplifi að til staðar sé áhugi á því sem það hefur fram að færa. Þegar barn er að segja frá þarf að mæta því með þolinmæði. Gefa þarf barni svigrúm og færi til þess að taka sér hlé, að bæta við frásögn sína og að taka sér tíma til umhugsunar ef við á. Að taka niður punkta er ein leið til að sýna barni að það sem það er að segja frá skiptir máli. Gott er að biðja barn um að staðfesta að fundargestir séu með réttan skilning á því sem það er að segja frá, til þess að forðast misskilning.

Opnar spurningar

Barnið þarf að fá tækifæri til þess að greina frjálslega frá sinni reynslu, hugsunum og sjónarmiðum. Spurningar til barnsins eiga að vera opnar til þess að hvetja barnið til þess að greina frá atburðum frá sínu eigin sjónarhorni. Fundargestir þurfa að leggja sig fram um að nota auðskilið og barnvænt mál með því að forðast að nota:

  • Orð og sértæk hugtök sem börn skilja ekki
  • Flókin orð sem hafa fleiri en eina þýðingu
  • Of einfalt tungutak þannig að barn upplifi að talað sé niður til þess

Ef efni fundarins kallar á notkun sértækra og flókinna hugtaka þarf að útskýra þau fyrir barninu og ef það er óvissa um það hvort barn hafi skilið tiltekin orð eða inntak umræðu, þarf að spyrja barnið og veita því útskýringar í kjölfarið.

Sveigjanleiki

Hvert barn er einstakt og mikilvægt er að fylgjast með hegðun barns sem gefur vísbendingar um líðan þess. Á fundi með barni þarf að taka tillit til þess ef það reynist barni erfitt að segja frá, en þó án þess að grípa það mikið inn í ferlið að barnið geti ekki sagt frjálslega frá með eigin orðum. Hvetja á barn til þess að segja sjálft frá og sá sem hlustar á barn þarf að vera meðvitaður um áhrif eigin fyrir fram mótaðra skoðana og hugmynda.

Upplýsingar

Þegar börn fá tækifæri til þess að ræða mál sem varða þau, vilja þau stundum ræða um önnur málefni en umræðuefni fundarins. Ef það gerist er mikilvægt að hlusta á barnið en að reyna jafnframt að færa umræðuna aftur að efni fundarins. Það getur verið gagnlegt að spyrja spurninga til þess að kanna af hverju barn velur að ræða um tiltekið efni, það getur jafnframt verið leið til þess að komast aftur að umræðuefni fundarins.

Snerting

Í samskiptum við börn þarf að virða rétt þeirra til líkamlegrar friðhelgi og forðast snertingu, enda eru til fjölmargar leiðir til þess að sýna hlýju, áhuga og samúð án snertingar. 

Mat á því sem er barni fyrir bestu - forsíða


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica