Þátttaka barna

Kafli 4

Taka ber tillit til sjónarmiða barna

Að tekið sé réttmætt tillit til skoðana barna á málum sem áhrif hafa á þau er grundvallarforsenda þess að unnt sé að leggja mat á það sem börnum er fyrir bestu. Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga skoðanir barna að hafa mismikið vægi eftir aldri þeirra og þroska.

Réttindi

12. gr. Barnasáttmálans um réttinn til að láta í ljós skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif.

Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.


Rétturinn til að fá að tjá skoðanir sínar og fá réttmætt tillit tekið til þeirra á við um öll börn óháð aldri. Það þýðir að leitast á við að veita öllum börnum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, jafnvel mjög ungum börnum. Það sem telst vera börnum fyrir bestu er þó ekki alltaf það sama og það sem börn vilja.

Eftir því sem áhrifin á börn eru meiri, þeim mun mikilvægara er að taka tillit til skoðana þeirra. Það sem kemur fram í samtali við barnið á að endurspeglast í gögnum málsins og það er mikilvægt að skrá sérstaklega hvernig tekið hefur verið tillit til skoðana barnsins í málinu.

Áður en samtal við barnið á sér stað, þarf barnið að fá að vita í hvaða tilgangi það er gert og fá upplýsingar um það hvað það getur haft áhrif á og hvað ekki. Ef væntingar barnsins eru raunhæfar er auðveldara að fá fram sjónarmið barnsins um það sem raunverulega skiptir máli, en þannig verður ákvarðanatakan einnig vandaðri.

Brýnt er að upplýsa barnið um það hvenær ákvörðun verður tekin og hvernig það verður upplýst um niðurstöðuna.

Nokkur atriði sem huga þarf sérstaklega að fyrir samtal við barn

 

  • Undirbúa þarf samtalið vandlega.
  • Samtalið á að fara fram í rólegu og barnvænu umhverfi.
  • Takmarka ber eins og hægt er fjölda fullorðins fólks í herberginu þar sem samtalið fer fram
  • Upplýsa á barnið fyrir fram um það sem á að eiga sér stað í samtalinu.

Gagnlegar upplýsingar...

 

 


Gátlisti

  • Hvernig á að tryggja þátttöku barnsins?

  • Hvaða atriði eða þættir eru það sem barn getur haft áhrif á?

  • Hvaða upplýsingar hefur barnið fengið?

  • Hvernig á að nýta sjónarmið barnsins við meðferð málsins?

  • Hvernig og hvenær á að upplýsa barn um efni ákvörðunar?

Til baka á efnisyfirlit


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica