• Annie-spratt-GIK1tsETnXI-unsplash

Mat á því sem er barni fyrir bestu

Til þess að uppfylla skilyrði barnasáttmálans þarf að leggja mat á það sem barni er fyrir bestu, áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn, með beinum eða óbeinum hætti. Eftirfarandi leiðbeiningar fjalla um framkvæmd matsins og mismunandi þætti þess.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á það sem er barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar taka á ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem varða börn. Til þess að vita hvað sé barni fyrir bestu þarf að framkvæma formlegt mat á bestu hagsmunum barna. Slíkt mat á að framkvæma, óháð því hvort áhrifin á börn eru bein eða óbein t.d. ef til stendur að vinna drög að frumvarpi eða reglugerð eða setja á fram leiðbeiningar í málaflokki sem gæti haft áhrif á börn.

Hversu ítarlegt matið á að vera fer eftir eðli máls hverju sinni. Matið fer fram í skrefum, en vægi hvers og eins skrefs getur verið mismunandi og fer það eftir eðli og umfangi viðkomandi máls og hversu miklum áhrifum á börn má gera ráð fyrir. Eftir því sem áhrifin á börn eru meiri þarf matið að vera umfangsmeira.

Þátttaka barna og gagnaöflun eru tveir meginþættir sem ávallt þarf að taka mið af þegar framkvæma á mat á bestu hagsmunum barna.

Þátttaka barna

Til þess að hægt sé að leggja mat á bestu hagsmuni barna þarf að veita börnum tækifæri til þátttöku. Það er réttur barna að vera höfð með í ráðum við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar þau og skylda stjórnvalda að veita börnum raunveruleg tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif í samræmi við 12. gr. barnasáttmálans.

Það þarf að meta í hverju máli fyrir sig hvernig haga beri þátttöku barna. Við það mat ber að taka mið af eðli máls og umfangi þeirra áhrifa sem fyrirséð eru á réttindi barna. Það er hægt að uppfylla kröfu um þátttöku barna með mismunandi hætti. Í sumum tilvikum getur verið fullnægjandi að byggja á fyrirliggjandi upplýsingum um skoðanir barna. Það á einkum við í þeim málum þar sem ætla má að börn verði fyrir takmörkuðum áhrifum. Önnur mál eru þess eðlis að hafa þarf sérstakt samráð við börn og á það einkum við þau mál sem varða börn með nokkrum eða töluverðum hætti. Slíkt samráð getur tekið til barna almennt eða ákveðinna hópa barna t.d. barna á ákveðnu aldursbili eða barna sem deila sambærilegri reynslu eða bakgrunni. Þá er í sumum tilvikum hægt að leita til nemendaráða, ungmennaráða eða ráðgjafarhópa barna. Börn eru ekki einsleitur hópur og þess vegna er mikilvægt að haft sé samráð við ólíka hópa barna svo sem fötluð börn, börn með annað móðurmál en íslensku og aðra hópa barna sem eru í viðkvæmri stöðu.

Gagnaöflun

Til þess að hægt sé að framkvæma mat á bestu hagsmunum barna þurfa öll nauðsynleg gögn að liggja fyrir. Hér getur m.a. verið um að ræða upplýsingar um gagnreyndar aðferðir, tölfræðileg gögn og niðurstöður rannsókna. Það þarf að leggja mat á það hverju sinni hvaða gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir til þess að hægt sé að framkvæma matið. Ef í ljós kemur að gögn eða upplýsingar skortir um atriði sem hafa þýðingu varðandi áhrif á börn þarf að bregðast við því


FYRRI HLUTI - þegar aðgerð snertir börn með almennum hætti

Þegar áhrifin á börn eru almenn, eins og t.d. við setningu laga, og reglugerða, mótun stefnu, eða við gerð aðgerða- eða framkvæmdaáætlana.

Lesa meira

SEINNI HLUTI - þegar málið snertir einstök börn eða afmarkaða hópa barna

Þegar áhrif ákvarðana eða aðgerða sem teknar eru varða einstök börn eða afmarkaða hópa barna.

Lesa meira

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica