26. ágúst 2020

Vistun barna í leikskólum

Embættið hefur sent erindi til skrifstofu borgarstjóra vegna vistunar barna í leikskólum borgarinnar og vanskil foreldra.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Þá hefur sömuleiðis komið fram að dæmi séu um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum. 

Vegna þessa hefur embættið sent bréf til skrifstofu borgarstjóra þar sem bent er á að samkvæmt leikskólalögum, nr. 90/2008, er leikskólinn fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Meginmarkmið leikskólastarfsins að hlúa að börnum í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börn fái notið bernsku sinnar. Það barn sem ekki fær vistun í leikskóla verður því af menntun, félagslegum samskiptum og þroska og á í hættu að upplifa tengslarof og höfnun með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir lífsgæði þess og þroska. 

Umboðsmaður barna skorar Reykjavíkurborg að taka verklag borgarinnar í umræddum málum til endurskoðunar þannig að tryggt sé að börn fái í öllum tilvikum, óháð aðstæðum foreldra þeirra, notið réttar síns til framfærslu, menntunar og þroska. 

Bréf umboðsmanns barna til skrifstofu borgarstjóra.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica