20. júní 2013

Verklag fagráðs eineltismála í grunnskólum - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent fagráði eineltismála í grunnskólum bréf þar sem hann hvetur fagráðið til þess að gefa börnum tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar mál þeirra eru til meðferðar hjá ráðinu.

Umboðsmaður barna hefur sent fagráði eineltismála í grunnskólum bréf þar sem hann hvetur fagráðið til þess að gefa börnum tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar mál þeirra eru til meðferðar hjá ráðinu. Bréfið er svohljóðandi:

Fagráð eineltismála í grunnskólum
Menntamálaráðuneytinu
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. júní 2013


Efni: Verklag fagráðs eineltismála í grunnskólum

Umboðsmaður barna fagnar því að fagráð eineltismála í grunskólum hafi tekið til starfa og bindur vonir við að störf ráðsins verði til þess að betur verði tekið á eineltismálum í skólum landsins.

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar varðandi verklag sem ráðið viðhefur í málum sem til þess berast, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 1040/2011. Samkvæmt þeim ábendingum byggir fagráðið niðurstöður sínar almennt á gögnum sem berast frá skólum og foreldrum án þess að rætt sé beint við þolendur eða gerendur í viðkomandi málum. Samkvæmt 2. gr. verklagsreglna um fagráðið er hlutverk ráðsins meðal annars að „leita að fullnægjandi niðurstöðu í eineltismálum sé þess kostur.“ Umboðsmaður barna telur ólíklegt að hægt sé að ná því markmiði án þess að þeim börnum sem eiga aðild að málinu sé veitt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Í því sambandi má benda á að samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, eiga börn rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum sem þau varða og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Umboðsmaður barna vill því hvetja fagráðið til þess að gefa börnum tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar mál þeirra eru til meðferðar hjá ráðinu. 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica