16. maí 2023

Verkföll og áhrif þeirra á börn í viðkvæmri stöðu

Umboðsmaður barna telur rétt að koma á framfæri eftirfarandi tilkynningu varðandi verkföll og áhrif þeirra á börn, þá sérstaklega börn í viðkvæmri stöðu.

Embættið tekur undir það sem fram kemur í áskorun Þroskahjálpar, dagsett 15. maí sl., þar sem lýst er yfir áhyggjum af þeim röskunum sem orðið hafa á lögbundinni þjónustu við fötluð börn vegna kjaradeilu Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB. Umboðsmanni barna hafa borist erindi sem renna stoðum undir þær áhyggjur og ljóst er að áhrif yfirstandandi verfallsaðgerða eru mun meiri gagnvart þeim hópi barna sem þarf á stuðningi að halda. Af því tilefni vill umboðsmaður barna árétta mikilvægi þess, varðandi verkfallsaðgerðir almennt, að farið sé eftir ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013.

Samningurinn leggur þær skyldur á stjórnvöld sem og einkaaðila, að leggja sérstakt mat á það hvaða áhrif ákvarðanir og ráðstafanir hafa á börn, en slíkt mat er liður í því að kanna hvort ákvörðun samræmis 3. gr. Barnasáttmálans, um það sem er börnum fyrir bestu. Leiði mat á áhrifum í ljós að um neikvæð áhrif á börn er að ræða, ber að leita allra leiða til að fyrirbyggja slík áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki unnt.

Einnig er mikilvægt að sérstaklega sé tekið mið af viðkvæmri stöðu barna og að öllum börnum séu tryggð þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um, án mismununar af nokkru tagi, svo sem vegna fötlunar eða félagslegrar stöðu, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans.

Framangreind sjónarmið og ákvæði Barnasáttmálans gilda einnig þegar teknar eru ákvarðanir um hvort veita eigi undanþágu frá vinnustöðvun, og skal þá einnig sérstaklega taka mið af börnum í viðkvæmri stöðu. Það er mat umboðsmanns barna að grípa þurfi til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að vinnudeilur bitni á börnum í viðkvæmri stöðu umfram önnur börn.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica