18. september 2019

Vegna umfjöllunar um rafrettur – börn njóti besta mögulega heilsufars

Í tilefni umræðu um mögulega skaðsemi rafrettna leggur umboðsmaður barna áherslu á að börn njóti vafans og gripið sé til ráðstafana til að koma í veg fyrir mögulegt heilsutjón af völdum rafretta. 

 

 

Í umsögn umboðsmanns barna við frumvarpið sem varð að lögum í vor benti umboðsmaður m.a. á að ekki lægju fyrir upplýsingar um áhrif notkunar rafrettna til lengri tíma hvorki fyrir notandann né aðra. Því væri mikilvægt að vernda börn fyrir hugsanlegum skaðlegum afleiðingum slíkrar notkunar með því að láta sömu takmarkanir sem ná yfir tóbaksreykingar ná yfir notkun rafrettna. Með því væri allur vafi metinn börnum í hag líkt og 3. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 gerir kröfu um. Þá taldi umboðsmaður enn fremur mikilvægt að efla forvarnir til að koma í veg fyrir notkun rafrettna meðal barna og ungmenna.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarnar vikur í kjölfar frétta frá Bandaríkjunum um tengsl rafrettna við að öðru leyti óútskýrða lungnakvilla. Svo virðist sem fyrst og fremst sé um að ræða ungt fólk sem er heilbrigt að öðru leyti og sem eiga það eitt sameiginlegt að reykja rafrettur.[1] Í kjölfar þessara frétta hafa heilbrigðisyfirvöld í Danmörku gefið út yfirlýsingu gegn notkun rafrettna. Þá hefur landlæknisembættið í Danmörku lýst yfir sérstökum áhyggjum af því að börn og ungmenni séu farin að reykja rafrettur.[2] Í niðurstöðum nýrrar skýrslu um heilsu og líðan grunnskólanemenda kom fram að um 20% nemenda segjast hafa reykt rafrettur oftar en 30 daga yfir ævina og eru því hugsanlega þegar háðir reykingum. Ársæll M. Arnarson, annar skýrsluhöfunda, segir greinilegt að rafretturnar höfði til ungmenna og þau leggi því til að bann við rafrettum verði tekið alvarlega til athugunar.[3] Þá hafa Landlæknir og heilbrigðisráðherra ákveðið að funda um málið og sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í viðtali við Morgunblaðið þann 16. september sl. að rík ástæða sé til að fylgjast með nýjum upplýsingum um heilsufarslegar afleiðingar notkunar rafrettna og að mögulega þurfi að endurskoða nýleg lög um rafrettur. Þá tekur hún sérstaklega fram að „það verður alltaf að vera þannig að heilsan njóti vafans.“

Lög um rafrettur og áfyllingar í þær nr. 87/2018 tóku gildi þann 1. mars sl. en markmið laganna er m.a. að setja reglur um innflutning og markaðssetningu á rafrettum ásamt því að koma í veg fyrir aðgengi barna. Í lögunum er m.a. að finna reglugerðarheimild fyrir heilbrigðisráðherra um takmörkun á markaðssetningu bragðefna í rafrettum, einkum þeirra sem kunna að höfða til barna. Einnig er ráðherra heimilt að kveða á í reglugerð um kröfur til útlits umbúða þannig að þær höfði ekki sérstaklega til barna. Ráðherra hefur þó enn sem komið er ekki nýtt reglugerðarheimildina og eru því engar reglur sem takmarka markaðssetningu bragðefna í rafrettur, eða útlit umbúða, umfram það sem getið er um í lögunum.

Í umsögn umboðsmanns barna við frumvarpið benti umboðsmaður m.a. á að ekki lægju fyrir upplýsingar um áhrif notkunar rafrettna til lengri tíma hvorki fyrir notandann né aðra. Því sé mikilvægt að vernda börn fyrir hugsanlegum skaðlegum afleiðingum slíkrar notkunar með því að láta sömu takmarkanir sem ná yfir tóbaksreykingar ná yfir notkun rafrettna. Með því væri allur vafi metinn börnum í hag líkt og 3. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 gerir kröfu um. Þá taldi umboðsmaður enn fremur mikilvægt að efla forvarnir til að koma í veg fyrir notkun rafrettna meðal barna og ungmenna.

Þar sem ekki liggja fyrir rannsóknir um skaðleysi rafrettna verða börn og ungmenni að fá að njóta vafans. Það er skylda okkar að tryggja að börn njóti besta mögulega heilsufars og er að mati umboðsmanns nauðsynlegt að grípa til allra tiltækra ráða í því skyni. Umboðsmaður barna fagnar umræðunni og viðbrögðum landlæknis og heilbrigðisráðherra og hvetur til þess að réttur barna verði settur framar öðrum hagsmunum. 



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica