12. september 2023

Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu

Umboðsmaður barna birtir nú í fjórða sinn nýjar upplýsingar um bið barna eftir þjónustu. 

Umboðsmaður barna hefur staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum með það að markmiði að varpa ljósi á stöðuna hverju sinni.

Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu - nýjar tölur

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heilsuskóli Barnaspítalans.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar eru uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni.

Þær upplýsingar sem hér eru birtar eru frá því í ágúst 2023. Þetta er í fjórða sinn sem umboðsmaður barna birtir upplýsingar um bið barna eftir þjónustu.

Það er von umboðsmanns barna að birting þessara upplýsinga muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur og innleiddur að fullu.

Helstu breytingar og niðurstöður

 

  • Í ágúst 2023 biðu 1662 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar, þar af höfðu 1623 börn beðið lengur en þrjá mánuði.
  • 522 börn biðu eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð í ágúst 2023 og 434 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. 
  • Í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og höfðu 305 börn beðið lengur en 90 daga.

  • 67 börn biðu eftir þjónustu hjá BUGL í ágúst 2023.


Þeim börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021 en þá biðu 738 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar. Í ágúst 2023 biðu hins vegar 1662 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar, þar af höfðu 1623 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Samtals biðu 522 börn eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð í ágúst 2023. Af þeim voru 322 börn á aldrinum 0-6 ára og 200 börn 6-18 ára. Þá höfðu 434 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Fjöldi mála þar sem börn áttu í hlut og beðið var sáttameðferðar hjá sýslumönnum hefur aukist umtalsvert. Þau voru 102 í ágúst 2023 en 58 í febrúar 2023.

Í ágúst 2023 biðu 125 börn eftir þjónustu Heilsuskólans en meðalbiðtími þar voru 21 mánuður og höfðu 108 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Börnum sem bíða eftir þjónustu sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað frá seinustu mælingum. Í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þau voru 547 í febrúar 2023.

Þá hefur börnum sem bíða eftir þjónustu hjá Barna og unglingageðdeild LSH fækkað frá því í febrúar 2023, þá biðu 116 börn en í ágúst 2023 biðu 67 börn.

Það bárust ekki upplýsingar frá Barna- og fjölskyldustofu um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla, MST og SÓK.

Marcus-wallis-MTeZ5FmCGCU-unsplash

Nýjar upplýsingar og samanburður

Barnahús

Í ágúst 2023 biðu 10 börn eftir meðferð í Barnahúsi. Þau brot sem börnin hafa orðið fyrir eru flokkuð eftir alvarleika í flokka 1 og 2, styttri bið er fyrir börn sem hafa orðið fyrir broti sem fellur undir flokk 1. Meðalbiðtími í flokki 1 var 113 dagar og 174 dagar í flokki 2. Þá höfðu 5 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Í ágúst 2022 biðu 38 börn eftir meðferð í Barnahúsi, meðalbiðtími var 89 dagar í flokki 1 og 87 dagar í flokki 2. Það voru því 28 færri börn sem biðu eftir meðferð hjá Barnahúsi í ágúst 2023 borið saman við ágúst 2022, meðalbiðtími hefur hins vegar lengst.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Fyrstu sex mánuði ársins 2023 voru 46 börn brotaþolar í kynferðisbrotamálum og 79 í ofbeldismálum. Þá höfðu 5 börn stöðu sakbornings í kynferðisbrotamáli og 74 í ofbeldisbrotamáli. Hér þarf að gera fyrirvara þar sem um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum aftur í tímann.

Ráðgjafar- og greiningarstöð

322 börn á aldrinum 0-6 ára biðu eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð í ágúst 2023, meðalbiðtími var 17,6 mánuður og höfðu 284 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 200 börn á aldrinum 6-18 ára eftir þverfaglegri greiningu og var meðalbiðtími í þeim aldurshópi 16 mánuðir. Þá höfðu150 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Þeim börnum sem bíða eftir þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar hefur fjölgað nokkuð. Í febrúar 2023 voru 283 börn á biðlista hjá sviði yngri barna (0-6 ára) og 137 börn biðu eftir þverfaglegri greiningu hjá sviði eldri barna (6-18 ára).

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra.

Barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL)

Í ágúst 2023 biðu 65 börn eftir þjónustu göngudeildar BUGL (teymi A og B), af þeim tilheyra 24 börn transteyminu. Meðalbiðtími var 5,6 mánuðir og höfðu 42 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Þar að auki biðu tvö börn eftir átröskunarmeðferð göngudeildar. Nokkuð færri börn bíða nú eftir þjónustu BUGL borið saman við febrúar 2023. Þá biðu 105 börn eftir þjónustu göngudeildar BUGL.

Göngudeild barna- og unglingageðdeildar veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri þjónustu vegna geð- og þroskaraskana.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Í ágúst 2023 biðu 265 mál meðferðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga og hefur þeim fjölgað frá því í febrúar 2023 en þá biðu 175 mál meðferðar. Meðalbiðtími þessara mála er hins vegar sá sami eða 3,5 mánuðir. Þá hefur fjöldi mála þar sem börn eiga í hlut og beðið er sáttameðferðar hjá sýslumönnum á öllu landinu aukist umtalsvert og bíða nú 102 mál en það voru 58 mál sem biðu eftir sáttameðferð í febrúar 2023.

Á fjölskyldusviði embættisins eru meðal annars meðhöndluð erindi foreldra er varða framfærslu barna, umgengni, sambúðarslit, skilnað, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferð. Við meðferð þessara mála kann að reyna á sáttameðferð, ráðgjöf og fleiri úrræði samkvæmt barnalögum. Þá eru meðhöndluð þar mál á grundvelli ættleiðingarlaga og lögræðislaga. Börnin sjálf eru ekki aðilar þessara mála, í merkingu stjórnsýslulaga, en málin varða hagsmuni þeirra.

Geðheilsumiðstöð barna (áður Þroska- og hegðunarstöð)

Í ágúst 2023 biðu 1662 börn eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna og 1623 höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Þar af biðu 416 börn eftir einhverfugreiningu og meðalbiðtími eftir slíkri greiningu voru 26 -28 mánuðir.

Þeim börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021. Þá biðu 738 börn en þau voru 830 í september 2022 og 1157 í febrúar 2023.

Geðheilsumiðstöð barna (GMB) veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.

Heilsuskólinn

Í ágúst 2023 biðu 125 börn eftir því að komast að hjá Heilsuskólanum. Meðalbiðtími var 20,54 mánuðir og 108 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Fleiri börn bíða nú eftir þjónustu Heilsuskólans samanborið við stöðuna í febrúar 2023. Þá biðu 104 börn eftir þjónustu Heilsuskólans. Þá hefur meðalbiðtími einnig aukist en hann var 17 mánuðir í febrúar.

Heilsuskóli Barnaspítalans þjónar öllu landinu og aðstoðar börn og fjölskyldur þeirra sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI eða börn sem hafa verið með mikla þyngdaraukningu á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Það biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í ágúst 2023. Meðalbiðtími var 210 dagar og 305 börn höfðu beðið lengur en 90 daga eftir því að komast að hjá sálfræðingi.

Börnum sem bíða eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað frá því í febrúar 2023. Þá biðu 547 börn eftir því að komast að hjá sálfræðingi og var meðalbiðtími 6,8 mánuðir.

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf. Læknir á heilsugæslustöð þarf að senda tilvísun til sálfræðings til nánara mats ásamt því að upplýsa um áætlaðan biðtíma.

Talmeinafræðingar

Sjúkratryggingar Íslands gerðu úttekt á stöðu barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga í desember 2021. Var það gert að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Sjúkratryggingar fengu þá innsendar upplýsingar frá öllum talmeinafræðingum á landinu til að meta stöðuna í desember 2021. Þær tölur sem hér eru birtar um stöðu barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga eru frá þeim tíma. Þar kemur fram að 3.701 barn hafi verið skráð á biðlista hjá talmeinafræðingum í desember 2021. Þar af voru 947 börn skráð á fleiri en einum stað. Flest börn á biðlistum höfðu beðið í 0 – 6 mánuði (eða um 30%) en um 11% höfðu beðið lengur en 2 ár.

Að mati umboðsmanns barna er áríðandi að hægt verði að nálgast upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu talmeinafræðinga með reglubundnum hætti. Hingað til hefur það ekki verið hægt þar sem biðlistar og kerfi eru ekki samræmd. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica