Umboðsmenn hittast
Umboðsmaður barna og umboðsmaður Alþingis hittust í vikunni og báru saman bækur sínar.
Nýr umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon bauð til fundarins en hann hafði hug á að kynna sér starf umboðsmanns barna frá fyrstu hendi. Á fundi þeirra fór Salvör Nordal, umboðsmaður barna yfir það helsta í starfsemi embættisins.
Salvör Nordal segir þetta um fundinn:
Við áttum gott samtal um málefni barna og möguleika á auknu samstarfi milli embættana. Ólíkt umboðsmanni barna úrskurðar umboðsmaður Alþingis í málefnum einstaklinga og við leggjum áherslu á að börn jafnt sem fullorðnir viti að þau geti leitað til hans með sín mál.
Hlutverk embættana
Umboðsmaður barna og umboðsmaður Alþingis starfa bæði samkvæmt lögum.
- Hlutverk umboðsmanns barna er að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum.
- Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga og tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum.