Umboðsmenn barna í Evrópu með ráðstefnu í Reykjavík
Samtök umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) munu halda sína árlegu ráðstefnu og ársfund í Reykjavík.
Samtök umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) munu halda sína árlegu ráðstefnu og ársfund í Hörpu í Reykjavík dagana 19.-21. september n.k. Í samtökum umboðsmanna barna í Evrópu eiga flest embætti umboðsmanna barna í Evrópu aðild og eru þau afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Á ársfundinum tekur Salvör Nordal, umboðsmaður barna við formennsku samtakanna, en hún hefur setið í stjórn samtakanna undanfarin ár. Fulltrúar frá tæplega 40 embættum umboðsmanna barna munu sækja ársfundinn en alls sækja ráðstefnuna um hundrað manns. Á vegum samtaka evrópskra umboðsmanna starfar einnig ENYA, evrópsk samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst hinni árlegu ráðstefnu. Tæplega 20 ungmenni taka þátt í ráðstefnunni frá fjölmörgum Evrópulöndum, auk ungmenna hér á landi meðal annars fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og ungmennaráði heimsmarkmiðanna.
Yfirskrift ráðstefnunnar er Shaping the future: Children's Rights in a Climate Crisis.
Meginþema ráðstefnunnar í ár er umhverfisréttlæti út frá réttindum barna og er yfirskrift hennar Shaping the Future: Children´s Rights in a Climate Crisis. Við skipulag dagskrár hefur verið leitast við að virkja börn sem mest í umræðum um hinar fjölmörgu hliðar viðfangsefnisins, enda hafa börn látið sig málefni umhverfis og náttúru miklu varða á síðustu árum. Áhersla er lögð á að fjalla um rétt barna til þátttöku og áhrifa í stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfis- og loftslagsmálum en ekki síður á reynslu barna af því að taka þátt í baráttunni fyrir umhverfi og náttúru í einstökum Evrópuríkjum sem og á alþjóðavettvangi.
Fjölmargir fyrirlesarar munu deila reynslu sinni og þekkingu en þar má t.d. nefna Dr. Laura Lundy, einn helsta sérfræðing um þátttöku barna, sem mun m.a. kynna skýrslu sem unnin var fyrir ENOC í tilefni ráðstefnunnar. Fulltrúar úr ENYA munu kynna tillögur sínar um umhverfisréttlæti og ræða hvernig umboðsmenn barna og stjórnvöld geta betur stutt við börn í baráttu sinni. Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir mun kynna loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar og ræða við nokkur ungmenni, m.a. um mikilvægi þess að börn komi að mótun hennar og að þeirra sjónarmið fái nauðsynlegt vægi. Sævar Helgi Bragason mun fjalla um áhrifaríkar leiðir til að fræða börn um umhverfismál og Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd mun kynna verkefnið Umhverfisfréttafólk og þá munu nokkur ungmenni kynna vinningstillögur í því verkefni.