Umboðsmaður óskar eftir fundi með dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar
Í dag sendi umboðsmaður barna eftirfarandi bréf til dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar.
Í bréfinu óskar hann óskar eftir fundi hið fyrsta til að fara yfir mál barna sem endursenda á til Grikklands þar sem fjölskyldunum hefur verið veitt alþjóðleg vernd.
Bréfið í heild sinni.
Dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Forstjóri Útlendingastofnunar, Kristín Völundardóttir
Reykjavík 3. júlí 2019
Efni: Ósk um fund vegna stöðu barna sem óska alþjóðlegrar verndar
Umboðsmaður barna óskar eftir fundi hið fyrsta með dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar til að fara yfir mál barna sem endursenda á til Grikklands þar sem fjölskyldunum hefur verið veitt alþjóðleg vernd. Óskar umboðsmaður barna eftir að ræða fyrirkomulag þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra hér á landi á meðan umsókn er til meðferðar, meðferð umsókna og málsmeðferðartíma og hvort dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun telji þörf á að taka til skoðunar meðferð þessara mála með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins ásamt öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði mannréttinda.
Á heimasíðu Útlendingastofnunar kemur fram að endursendingum hælisleitenda til Grikklands hafi verið hætt árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hæliskerfinu hafi verið taldar ófullnægjandi. Þá kemur þar einnig fram að endursendingum þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd í löndunum tveimur hafi ekki verið hætt þar sem þeir einstaklingar hafi fengið útgefin dvalarleyfi og fari því ekki í gengum hæliskerfið þar í landi. Með hliðsjón af því óskar umboðsmaður barna eftir því að á fundinum verði farið yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að halda áfram endursendingum fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og þær upplýsingar sem ráðuneytið og Útlendingastofnun búa yfir um aðstæður barna og fjölskyldna sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
Umboðsmaður barna
Uppfært 16.07.2019: Umboðsmaður barna átti fund vegna málsins með dómsmálaráðherra þann 9. júlí 2019 og með forstjóra Útlendingastofnunar þann 15. júlí 2019.