Umboðsmaður barna á faraldsfæti
Umboðsmaður barna flytur skrifstofu embættisins til Ísafjarðar í eina viku.
Umboðsmaður barna flytur skrifstofu embættisins til Ísafjarðar vikuna 17.-21. maí n.k. Markmið verkefnisins er að hitta þá sem starfa að málefnum barna á norðanverðum Vestfjörðum, að heimsækja skóla á svæðinu og eiga samtal við börn sem þar búa um það sem helst brennur á þeim. Umboðsmaður barna og starfsfólk embættisins mun hafa starfsaðstöðu á Hótel Ísafirði á meðan á dvölinni stendur.
Umboðsmaður barna flutti í fyrsta sinn starfsemi sína með þessum hætti í mars 2020 til Egilsstaða og tókst sú ferð afar vel. Að þessu sinni er ætlunin að efla tengslin við að norðanverða Vestfirði en embættið ráðgerir að allir landshlutar verði heimsóttir með þessum hætti. Þá eru styttri heimsóknir til sveitarfélaga á Suðvesturlandi í bígerð á næstu mánuðum.
Við erum mjög spennt fyrir ferðinni og erum viss um að þetta muni efla mjög tengsl okkar við sveitarfélagið og íbúa þess. Það verður mjög gaman að kynnast því öfluga starfi sem þarna er unnið í þágu barna og hitta börn á öllum aldri,
segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna