Um forvarnir í skólum
Skólar eru kjörinn vettvangur til forvarnarstarfs að því gefnu að það sé í höndum fagmenntaðs starfsfólk og byggi á gagnreyndum aðferðum, sem bera raunverulegan árangur. Forvarnastarf í skólum á að byggja á stefnu sem hefur verið kynnt öllum aðilum skólasamfélagsins.
Að mati umboðsmanns barna eru skólar kjörinn vettvangur til forvarnarstarfs ef það starf er í höndum fagmenntaðs starfsfólk og byggir á gagnreyndum aðferðum, sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum, að bera raunverulegan árangur. Þá ber forvarnastarf í skólum að byggja á stefnu sem hefur verið kynnt öllum aðilum skólasamfélagsins, starfsfólki skóla, nemendum og forsjáraðilum þeirra.
Embætti umboðsmanns barna hefur ávallt lagt áherslu á að forvarnafræðsla til barna og ungmenna sé fjölbreytt og lifandi, taki mið af síbreytilegu umhverfi þeirra, og ekki síst stigvaxandi rétti þeirra til þátttöku í samræmi við aldur og þroska. Að mati embættis umboðsmanns barna ber að leggja megináherslu á fræðsluefni sem búið er til sérstaklega fyrir börn og ungmenni og þá ber jafnframt að leita til ungmennanna sjálfra við gerð slíks efnis.
Leikið efni af ýmsum toga getur verið til þess fallið að stuðla að mikilvægum umræðum í skólum um ýmis málefni sem varða börn og ungmenni, ef það er sett í samhengi við kennslu og/eða aðra umræðu í skólanum. Áður en tekin er ákvörðun um að beina leiknu efni að börnum sem hluta af forvarnafræðslu, þarf að fara fram heildstætt mat fagaðila á því, hvort umrætt efni sé raunverulega til þess fallið að fræða börn og hafi marktækt forvarnargildi, í samhengi við aðra fræðslu. Það er hins vegar mat embættis umboðsmanns barna að skólum og öðrum opinberum aðilum beri í öllum tilvikum að virða aldurstakmörk sem gilda um kvikmyndir, sjónvarpsþætti eða annað leikið efni.
Börn eiga rétt á því að sækja upplýsingar af Internetinu, úr sjónvarpi, útvarpi, tímaritum, bókum og öðrum miðlum. Fullorðnir eiga að gæta þess að upplýsingarnar séu börnum ekki skaðlegar. Stjórnvöld eiga að hvetja útgefendur og fjölmiðla til þess að deila upplýsingum með fjölbreyttum leiðum sem öll börn skilja.
Í 17. gr. Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, er kveðið á um rétt barna til aðgangs að upplýsingum og efni, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri velferð þess og líkamlegu og andlegu heilbrigði. Í sömu grein er jafnframt kveðið á um nauðsynlega vernd barna gegn upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess. Rannsóknir hafa sýnt að hræðsluáróður hefur ekki tilætluð fælandi áhrif, heldur getur jafnvel haft neikvæð áhrif á hegðun og ýtt undir áhættuhegðun. Virk og árangursrík forvarnafræðsla byggir á samvinnu skóla við nemendur, foreldra, og nærsamfélagið í heild sinni, með áherslu á jákvæðar fyrirmyndir og það hvernig jafnrétti, jákvæð samskipti og heilbrigður lífsstíll er eftirsóknarverður og raunhæfur valkostur fyrir börn og ungmenni.