Tilmæli Evrópuráðsins um börn fanga
Tilmæli Evrópuráðsins um börn fanga
Á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins þann 4. apríl síðastliðinn voru samþykkt tilmæli um börn sem eiga foreldri í fangelsi, en reglurnar taka jafnt til allra barna í þeim aðstæðum, þ.m.t. ungbarna, sem dvelja með foreldri í fangelsi.
Í reglunum er það áréttað að börn sem eiga foreldri í fangelsi eigi að njóta sömu réttinda og öll önnur börn. Ýmsar hindranir standi í vegi fyrir því að fjölskyldur í þessari stöðu geti viðhaldið eðlilegum fjölskyldutengslum eins og takmarkaðir möguleikar til samskipta og fjárhagslegar og sálrænar afleiðingar frelsissviptingar.
Víðtæk áhrif á börn
Í reglunum er tekið mið af þeim víðtæku áhrifum sem frelsissvipting foreldris hefur á börn. Er reglunum ætlað að stuðla að því að minnka neikvæð áhrif fangelsisvistunar foreldris á foreldrahæfni þess og stuðla þannig að þroskavænlegum skilyrðum í lífi barns og sameiningu fjölskyldunnar að fangelsisvistun lokinni í þeim tilvikum þar sem það á við.
Þá er sérstaklega áréttað í reglunum að taka þurfi sérstakt tillit til þess að börn fanga eru viðkvæmur hópur með sérstakar þarfir vegna þeirra stöðu sem þau eru í og að leita þurfi leiða til að skapa þeim sömu tækifæri og önnur börn fá að njóta.
Leiðbeiningareglur byggja á tilteknum grunngildum:
- Barn sem á foreldri í fangelsi hefur ekki framið lögbrot og á því að fá meðferð í samræmi við það.
- Öll börn, án aðgreiningar, og óháð lagalegri stöðu foreldra þeirra, eiga að njóta þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. að litið sé til þess sem er viðkomandi barni fyrir bestu, réttur þeirra til lífs og þroska sé tryggður, skoðanir þeirra séu virtar og að þau fái að viðhalda tengslum og rækta samband við foreldra sína með reglulegum hætti.
- Nauðsynlegt er að vernda rétt barnsins og þörf þess fyrir tilfinningalegt og viðvarandi samband við foreldri í fangelsi, en foreldrið á rétt og ber skyldu til að sinna foreldrahlutverki sínu og stuðla að jákvæðri upplifun barnsins.
- Styðja þarf við börn og foreldra og hlúa að sambandi þeirra ásamt því að veita frelsissviptu foreldri stuðning í foreldrahlutverki sínu fyrir fangelsun, eftir að ljóst er að foreldrið mun afplána fangelsisvist, á meðan fangelsisvist stendur og að henni lokinni. Allar ráðstafanir og aðgerðir til stuðnings börnum sem eiga foreldri í fangelsi skulu vera þannig útfærðar að þær verði ekki til þess að auka fordóma gegn barni eða stuðla að mismunun þess.
- Vitundarvakning, samfélagslegar breytingar og félagsleg aðlögun eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir fordóma og mismunun sem leiðir af frelsissviptingu foreldris.