Tillaga til þingsályktunar um tannvernd barna og unglinga
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 9. desember 2003
Tilvísun: UB 0312/4.1.1
Efni: Tillaga til þingsályktunar um tannvernd barna og unglinga
Vísað er til bréfs heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis, dagsett 21. nóvember 2003, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.
Samkvæmt tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að sjá til þess að tannvernd barna og unglinga til 18 ára aldurs verði efld og að sérstök tannvernd verði hluti ungbarnaverndar og skólaheilsugæslu og nái til allra barna og unglinga á aldrinum þriggja, sex, níu, tólf og fimmtán ára.
Í gegnum tíðina hafa mér borist fjölmargar ábendingar varðandi tannlæknaþjónustu við börn og endurgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins vegna tannlækninga. Ábendingum þessum hef ég ítrekað komið á framfæri við heilbrigðisráðherra og Tryggingastofnun ríkisins, en þær varða m.a. endurgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna forvarna, tannskoðana og fræðslu til barna um tannhirðu.
Það veldur óneitanlega áhyggjum, ef börn á Íslandi fá ekki notið bestu hugsanlegu heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. tannlæknaþjónustu, vegna þess að foreldrar hafi ekki allir ráð á að greiða fyrir þjónustuna. Af þessu tilefni vil ég benda á að samkvæmt 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á hvert barn að njóta besta heilsufars, sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar. Yfirvöld skulu kappkosta að ekkert barn fari á mis við þennan rétt sinn til heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. tannlæknaþjónustu.
Jafnframt vil ég taka undir með flutningsmönnum tillögunnar, að aðgerða sé þörf til að ná megi markmiðum Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010, þar sem segir m.a. í kafla 2 um börn og ungmenni, að unnið verði að því að tíðni tannskemmda (DMF) 12 ára barna lækki í 1,0 með því að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að tannlæknaþjónustu.
Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið styð ég framkomna tillögu til þingsályktunar og vonast til að hún hljóti samþykki á hinu háa Alþingi.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal