19. október 2015

Tillaga til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 19. október 2015.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 19. október 2015.

Skoða tilllöguna. 
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 19. október 2015
UB:1510/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs, 16. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 28. september sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna við ofangreinda tillögu. 

Fjölmargar rannsóknir sýna hversu mikil áhrif fyrstu mánuðir og ár í lífi barna hafa á þroska, velferð, sjálfsmynd og samskipti þeirra seinna meir. Ennfremur hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess að barn fái fullnægjandi tækifæri til þess að mynda tengsl við aðalumönnunaraðila sína, sem oftast eru foreldrar. Örvandi umönnun og tengslamyndun við foreldra skipta þannig miklu máli fyrir börn og hafa mikil áhrif á velferð þeirra og líðan til framtíðar. Umboðsmaður barna telur því mikilvægt að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Fagnar hann því tillögum um að vinna að lengingu fæðingarorlofs í 18 mánuði.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, er ríkinu skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af þjónustu og aðstöðu til umönnunar barna. Mikilvægt er að öll börn hafi aðgang að slíkri þjónustu, óháð efnahag eða búsetu foreldra, sbr. 2. gr. Barnasáttmálans. Telur umboðsmaður barna því jákvætt að lagt sé til að sveitarfélögum verði gert skylt að starfrækja gjaldfrjálsa leikskóla og tryggja leikskólavist barna frá 12 mánaða aldri.

 

Virðingarfyllst, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica