Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á ofbeldi gegn börnum
Félagsmálanefnd Alþingis óskaði umsagnar umbosmanns barna um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á ofbeldi gegn börnum. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 8. mars 1999.
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 8. mars 1999
Tilvísun: UB 9903/4.1.1
Efni: Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á ofbeldi gegn börnum
[...] Með bréfi til dómsmálaráðherra, dagsettu 5. febrúar 1999, leitaði ég eftir afstöðu ráðherra til rannsóknar á tíðni ofbeldis- og kynferðisbrota gegn börnum og meðferð slíkra mála, hvort sem þau verða innan veggja heimilisins eða utan, sbr. skoðun nefndar í skýrslu um forvarnir gegn heimilisofbeldi, hjálparúrræði fyrir þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur og vitnað er til í greinargerð með umræddri tillögu til þingsályktunar.
Í fyrrnefndu bréfi spyr ég m.a. að því hvort dómsmálaráðherra hafi ákveðið að beita sér fyrir framkvæmd áðurnefndrar rannsóknar og ef svo væri þá hvenær. Þegar þetta er ritað hafa mér ekki borist svör ráðherra. Til fróðleiks læt ég fylgja hér með ljósrit af bréfi mínu, dagsettu 5. febrúar 1999.
Þá tel ég og rétt að geta þess að nú stendur yfir rannsókn á einelti í grunnskólum landsins, en ég, sem umboðsmaður barna, hafði eindregið hvatt menntamálaráðherra til að hafa forgöngu um slíka rannsókn. Vænta má að niðurstöður þessarar rannsóknar liggi fyrir næsta haust.
Samkvæmt e. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna er það m.a. hlutverk umboðsmanns að beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir í þágu barna og unglinga hér á landi og stuðla þannig að bættum hag þeirra. Með hliðsjón af þessu, og því sem að framan er rakið, fagna ég framkominni tillögu til þingsályktunar.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal