Tillaga til þingsályktunar um hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn
Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 27. apríl 2000.
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 27. apríl 2000
Tilvísun: UB 0004/4.1.1
Efni: Tillaga til þingsályktunar um hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn
Vísað er til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dagsett 17. þessa mánaðar, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.
Stofnun hvíldarheimilis eða skammtímavistun fyrir geðsjúk börn og börn með alvarlegar þroskatruflanir er að mínum dómi jákvætt skref í þá átt að bæta þjónustu við þessi börn og fjölskyldur þeirra. Vistun geðsjúkra barna í stuttan tíma á slíku heimili mun án efa hafa góð áhrif á fjölskyldulífið almennt séð. Það að alast upp með barni, sem haldið er geðsjúkdómi, hefur óneitanlega mikil áhrif á systkin þess og álagið, sem því fylgir bitnar óhjákvæmilega á þeim.
Það er skoðun mín, að það þjóni bæði hagsmunum hins sjúka barns, sem og systkinum þess og fjölskyldunni allri, að tillaga þessi verði samþykkt.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal