Tillaga til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 12. febrúar 2000
Tilvísun: UB 0002/4.1.1
Efni: Tillaga til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga
Með bréfi, dagsettu 30. nóvember 1999, var óskað umsagnar minnar um ofangreinda tillögu. Ég vil leyfa mér að fagna því sérstaklega að þessi tillaga sé komin fram á hinu háa Alþingi og vænti þess svo sannarlega að hún verði samþykkt á yfirstandandi þingi.
Eins og fram kemur í greinargerð, er fylgir tillögunni, hef ég, sem umboðsmaður barna, allt frá stofnun þessa embættis fyrir fimm árum, hvatt til þess að mótuð yrði opinber heildarstefna í málefnum barna og unglinga yngri en 18 ára, og á grundvelli þeirrar stefnumótunar yrði gerð framkvæmdaáætlun til nokkurra ára.
Svo sem kunnugt er tók Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildi hér á landi 27. nóvember 1992. Þessi sáttmáli felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa, óháð réttindum hinna fullorðnu. Í 3. gr. hans segir að það, sem barni er fyrir bestu, skuli ávallt hafa forgang þegar yfirvöld taka ákvarðanir er varða börn. Framtíð barns byggir á fortíð þess. Það að skapa börnum góð lífsskilyrði á æskuárum sínum er því arðbær fjárfesting þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna þarf langtíma, opinbera stefnu með skýr markmið m.a. til að koma í veg fyrir handahófskennd vinnubrögð í málefnum barna og unglinga. Ég vil því ítreka ánægju mína með framkomna tillögu.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal